Tímaskráningar

Atvinnurekendum er skylt að koma sér upp kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsfólks skv. lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eins og þeim var breytt með lögum nr. 58/2023 .

Skráningunni er ætlað að halda utan um upplýsingar um daglegan og vikulegan vinnutíma sem og upplýsingar um á hvaða tíma sólarhrings unnið er, samfelldan hvíldartíma og vikulegan frídag. Jafnframt þarf að halda utan um tilvik þar sem vikið hefur verið frá reglum um hvíldartíma og vikulegan frídag skv. lögum eða kjarasamningum sem og um hvort starfsfólk hafi í slíkum tilvikum fengið hvíld síðar.

Ef vinnutími starfsmanns er reglubundinn að jafnaði er nægilegt að vinnutími sé tilgreindur í ráðningarsamningi og ber atvinnurekendum einungis að skrá frávik frá þeim vinnutíma.

Starfsfólk skal eiga þess kost að geta nálgast upplýsingar um tímaskráningu 12 mánuði aftur í tímann.

Lögunum er ekki ætlað að útrýma sveigjanleika og fela ekki í sér kröfu um innleiðingu á stimpilklukku á alla vinnustaði. Það er á forræði hlutaðeigandi atvinnurekanda með hvaða hætti vinnutímaskráning fer fram og að sú leið sem henti hverju sinni verði fyrir valinu.

Til hverra tekur nýja reglan?

Ákvæðið er að finna í IX. kafla laganna sem fjallar um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma. Skv. 52. gr. a. ná reglurnar ekki til:

  • æðstu stjórnenda,
  • þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir,
  • þá sem starfa við flutninga á vegum og falla undir lög og reglugerðir um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutninga inna EES,
  • starfsfólks sem starfar við sérstakar aðstæður sem tengjast starfsemi hins opinbera, svo sem nauðsynlegar öryggisstarfsemi og brýnum rannsóknarhagsmunum á sviði löggæslu, vinnu sem tengist starfsemi almannavarna og eftirliststörfum vegna snjóflóðavarna.

Æðstu stjórnendur
Með æðstu stjórnendum er átt við forstjóra, framkvæmdastjóra og aðra þá stjórnendur sem samkvæmt skipuriti fyrirtækisins taka sjálfir ákvarðanir um skipulag vinnutíma starfsfólks en eru vegna stöðu sinnar ekki bundnir af þeim reglum.

Þeir sem ráða vinnutíma sínum sjálfir
Starfsfólk sem stöðu sinnar innan fyrirtækisins ræður vinnutíma sínum sjálft eða hefur verulegt frjálsræði varðandi skipulagningu vinnunnar, svo sem þeir sem vinna störf sín heima við falla enn fremur ekki undir reglurnar. Undanþáguregla þessi getur m.a. átt við sérfræðinga á fastlaunasamningum með yfirvinnu innifalinni sem ráðnir eru fyrst og fremst til að sinna ákveðnum verkefnum en hafa nokkuð frjálsræði varðandi hvar og hvenær vinnan er unnin.

Í máli Hæstaréttar nr. 27/2019 var m.a. deilt um það hvort matreiðslumaður stjórnaði vinnutíma sínum sjálfur. Starfsmaðurinn sem fékk föst mánaðarlaun óháð vinnuframlagi hafði sjálfsforræði yfir því hvernig hann skipulagði vinnu sína og starfsfólks. Vinnustundir voru skráðar í viðverubók sem hann afhenti verkstjóra reglulega sem aldrei voru gerðar athugasemdir við og óskaði vinnuveitandi aldrei sérstaklega eftir að starfsmaðurinn mætti til vinnu áður en hann hefði fengið 11 klukkustunda hvíld. Starfsmaður hafði því sjálfur forræði yfir vinnuhléum sínum og hvíldum. Niðurstaða Hæstaréttar var að umræddur starfsmaður stjórnaði vinnutíma sínum sjálfur.

Sé vafi til staðar á því hvort um sé að ræða starfsfólk sem ráði vinnutíma sínum sjálft geta félagsmenn leitað til lögfræðinga vinnumarkaðssviðs SA.

Hvað ef vinnutími starfsfólks er reglubundinn?

Ef vinnutími starfsfólks er að jafnaði reglubundinn er nægjanlegt að vinnutími starfsfólks sé skráður í ráðningarsamningi. Ekki er þörf á að halda utan um vinnutíma í sérstöku tímaskráningarkerfi en halda þarf utan um öll frávik frá reglubundnum vinnutíma starfsfólks.

Þarf ég að innleiða stimpilklukku eða annað sambærilegt tímaskráningarkerfi á minn vinnustað?

Lögin gera ekki kröfu um að atvinnurekendur skrái niður viðveru starfsfólks í stimpilklukku eða sambærileg skráningarkerfi. Það er á forræði hvers og eins atvinnurekanda með hvaða hætti vinnutímaskráning fer fram.

Atvinnurekanda ber að hafa umræddar upplýsingar tiltækar, þar sem við á, en starfsmaður getur óskað eftir að nálgast upplýsingarnar 12 mánuði aftur í tímann.