Vakta- og hlutavinnufólk
Vaktavinnufólk vinnur sér inn orlofsdaga (sumarfrí) í hlutfalli við vinnuframlag eins og aðrir starfsmenn. Sérstök umfjöllun er um vetrarfrí vaktavinnumanna vegna vinnu á rauðum dögum.
Ef vaktir eru að jafnaði færri en fimm á viku þarf að reikna sérstaklega út fjölda vakta eða klukkustunda í sumarorlofi.
Sama á við um hlutavinnufólk ef það vinnur að jafnaði færri daga en fimm á viku. Það er því ekki sjálfgefið að vaktavinnumenn eigi rétt á 24 vinnudögum í orlofi. Starfsmaður sem vinnur 1 dag á viku getur ekki tekið 24 vikna frí og sá sem vinnur 2 daga á viku á ekki rétt á 12 vikna fríi.
Algengt er að vaktavinnumenn vinni að meðaltali 3,5 daga á viku og ef þeir ættu rétt á 24 vöktum í frí þá jafngildir það tæpum 7 vikum. Sú er þó ekki raunin. Af þeim sökum er orlof þeirra oft reiknað í klukkustundum eða beitt sérstakri reiknireglu til að finna réttan fjölda vinnudaga eða stunda í orlofi.
Hafa verður í huga orlofslaun verða að skila sér til starfsmanna. Fyrirtækin beita mismunandi aðferðum við útreikning orlofslauna en hér á eftir er fyrst og fremst verið að reikna fjölda orlofsdaga. Í mörgum tilfellum fara orlofslaun og fjöldi orlofsdaga saman en þó ekki alltaf. Ef orlof af fastri yfirvinnu er t.d. greitt inn á orlofsreikning þarf að gæta þess að það sé ekki jafnframt greitt í orlofi.
Nota má tvær aðferðir við útreikning orlofsdaga:
1. Umreikna orlof yfir í klukkustundir
2. Finna út fjölda vaktadaga í orlofi