Neysluhlé
Um tímalengd, tímasetningu og greiðslu neysluhlé, það er matar- og kaffitíma, fer samkvæmt viðkomandi kjarasamningi og ráðningarsamningi starfsmanns.
Ákvæði kjarasamninga og greiðslureglur eru mismunandi eftir því hvort um hlé í dagvinnu, yfirvinnu eða vaktavinnu er að ræða.
Vinnuveitendur þurfa oft að aðlaga þessi ákvæði kjarasamninga að sinni starfsemi og getur þá yfirborgun umfram lágmarkstaxta kjarasamninga veitt svigrúm til aðlögunar. Sjá nánar um yfirborgun.
Matarhlé í dagvinnu
Matarhlé á dagvinnutímabili telst ekki til vinnutíma og er því ekki greitt. Matarhlé er almennt ½ til 1 klukkustund á tímabilinu 11:30 – 13:30 eða 12:00 – 14:00 en það er mismunandi milli kjarasamninga og hjá verkafólki mismunandi milli einstakra starfsgreina (kaflar 15 – 23).
Hjá starfsmanni með 8 klst. dagvinnudag getur vinnudagur t.d. verið frá kl. 8:00 – 17:00 ef hádegishlé er 1 klst. eða 8:00 – 16:30 ef hádegishlé er ½ klst.
Hjá afgreiðslu- og skrifstofufólki miðast réttur til hádegisverðarhlés við a.m.k. 5 klst. vinnu á dagvinnutímabili.
Unnið í hádegishléi
Ef unnið er í umsömdu hádegishléi greiðist yfirvinnukaup. Hlutastarfsfólk í afgreiðslu- og skrifstofustörfum fær þó greitt eftirvinnukaup vegna vinnu í hádegishléi, sjá nánar umfjöllun um eftir- og yfirvinnu verslunarmanna .
Kaffihlé í dagvinnu
Full dagvinna verkafólks er 40 klst. á viku. Þar af eru greidd neysluhlé 2 klst. og 55 mín. eða 35 mín. á dag. Af þeim sökum er „virkur vinnutími“ 37 klst. og 5 mín. á viku eða að jafnaði 7 klst. og 25 mín. á dag.
Kaffihlé verkafólks í fullu starfi er 2 x 20 mín. á dag eða samtals 40 mín. Þar af eru 35 mín. greiddar. Vegna þessa ósamræmis er full vinna verkafólks á dag 8 klst. og 5 mín, þ.e. verkafólk þarf að vinna af sér þessar auka 5 mín. sem það fær í kaffihlé umfram aðra, sbr. dæmi um vinnutíma í gr. 2.1.1. í kjarasamningum SA og SGS/Eflingar .
Í framkvæmd er algengt að tekið sé kaffihlé að morgni en síðara kaffihléið er tekið í lok vinnudags þannig að starfsmaður fer fyrr heim sem því nemur.
Dæmi: Vinnudagur hefst kl. 8:00, tekið er 20 mín. kaffihlé að morgni og ½ klst. í hádegishlé. Fullum dagvinnudegi er þá lokið kl. 16:15 en starfsmaður fær greitt til kl. 16:30. Virkur vinnutími hans er 7 klst. og 25 mín. og greiddur tími 8 klst.
Kaffihlé skrifstofufólks er 15 mín. á dag.
Starfsemi bíður ekki upp á að kaffi sé tekið
Ef starfsemi fyrirtækis er þess eðlis að erfitt getur verið að veita kaffihlé að fullu getur verið æskilegt að tilgreina í ráðningarsamningi að greiðsla vegna sveigjanlegra kaffitíma og tilfallandi vinnu í kaffitímum sé innifalin í yfirborgun starfsmanns. Forsenda þess er að sjálfsögðu að yfirborgun sé fyrir hendi.
Matarhlé í yfirvinnu
Hádegishlé
Hádegishlé um helgar er ekki greitt hjá verkafólki, verslunarmönnum og skrifstofufólki. Sömu reglur gilda um lengd hlés og tímasetningu og á virkum dögum.
Hádegishlé um helgar er hins vegar greiddur tími skv. kjarasamningi Samiðnar , VM og RSÍ . Í bókun frá 2011 í kjarasamningi Samiðnar er áréttað að hádegishlé um helgar sé 1 klst. þótt samið hafi verið að ½ klst. hádegishlé aðra daga. Þó sé ekki gerð athugasemd við að greitt hádegishlé sé stytt í ½ klst. ef veittur er hádegisverður án endurgjalds.
Kvöldmatarhlé
Kvöldmatartími er greiddur og ávallt 1 klst. kl. 19:00 – 20:00. Starfsmenn í verslunum, sem hefja vinnu kl. 16:00 eða síðar þurfa að vinna 4½ klst. eða lengur til að eiga rétt á kvöldmatarhléi.
Ef unnið er í matarhléi á yfirvinnutímabili skal greiða fyrir þá vinnu með yfirvinnukaupi. Hlutastarfsfólk í afgreiðslu- og skrifstofustörfum fær þó greitt eftirvinnukaup vegna vinnu í neysluhléum, sjá nánar umfjöllun um eftir- og yfirvinnu verslunarmanna.
Almennt gildir sú regla að einungis er greitt fyrir þær mínútur sem unnið er í matartíma. Hjá verkafólki skal þó greiða til viðbótar 1 klst. fyrir hvern matartíma, jafnvel þótt skemur sé unnið, sbr. gr. 3.3. í kjarasamningum SGS/Eflingar . Annað gildir þó um byggingaverkamenn skv. kjarasamningi SA og SGS.
Kaffihlé í yfirvinnu
Kaffihlé á yfirvinnutímabili eru öll greidd. Tiltekið er í kjarasamningum hvenær veita skal þessi hlé.
Ef unnið er í kaffihléi á yfirvinnutímabili skal greiða fyrir þá vinnu með yfirvinnukaupi. Hlutastarfsfólk í afgreiðslu- og skrifstofustörfum fær þó greitt eftirvinnukaup vegna vinnu í neysluhléum, sjá nánar umfjöllun um eftir- og yfirvinnu verslunarmanna .
Almennt gildir sú regla að einungis er greitt fyrir þær mínútur sem unnið er í kaffitíma. Hjá verkafólki skal þó greiða til viðbótar ¼ klst. fyrir hvern kaffitíma, jafnvel þótt skemur sé unnið, sbr. gr. 3.3. í kjarasamningi SGS/Eflingar . Annað gildir þó um byggingaverkamenn skv. kjarasamningi SA og SGS.
Matar- og kaffihlé í vaktavinnu
Vaktavinnufólk hefur ekki sérstaka matartíma, nema um það hafi verið sérstaklega samið. Greidd neysluhlé eru 35 mínútur á dag miðað við 8 tíma vakt. Ef vakt er styttri eða lengri breytist lengd neysluhlés hlutfallslega. Neysluhlé á 12 klst. vakt er þannig 50% lengra eða 52,5 mín.
Neysluhlé í vaktavinnu eru tekin eftir því sem hentar á vinnustað eftir samkomulagi vinnuveitanda og starfsmanna, sjá nánar umfjöllun um vaktavinnu.
Í sumum kjarasamningum er sérstaklega tilgreind lengd neysluhlés eftir lengd vakta, sbr. kjarasamning SA við Samiðn og samning um stórframkvæmdir.