Veikindi barna
Í kjarasamningum SA er ákvæði um rétt starfsmanna til launa í fjarvistum vegna veikinda barna.
Á hverju 12 mánaða tímabili er rétturinn sem hér segir:
Fyrstu sex mánuði í starfi hjá vinnuveitanda: 2 dagar fyrir hvern unninn mánuð.
Eftir sex mánaða starf hjá sama vinnuveitanda: 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili.
Rétturinn getur því mest orðið 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili. Eftir eins mánaðar starf er starfsmaður með 2ja daga rétt, eftir tveggja mánaða starf hefur hann 4 daga rétt o.s.frv. þar til 12 daga rétti er náð.
Foreldri á rétt á þessum dagafjölda óháð fjölda barna. Með foreldri er einnig átt við fósturforeldri eða forráðamann sem er framfærandi barns og kemur í stað foreldris.
Skilyrði launaréttar er að um sé að ræða sjúkt barn undir 13 ára aldri og að annarri umönnun verður ekki komið við . Rétturinn er þó jafnframt til staðar í tilvikum barna undir 16 ára aldri þegar veikindi eru það alvarleg að þau leiði til sjúkrahúsvistar í a.m.k. einn dag.
Rétturinn nær til aðhlynningar barns sem vegna tilfallandi veikinda kemst hvorki í leikskóla né skóla þann daginn og annarri umönnun verður ekki við komið. Undir launaréttinn falla ekki þau tilvik þegar að foreldri þarf að fara með barn sitt í hvers kyns þjálfun t.d. talþjálfun, sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 17/2020 .
Ef skilyrði launaréttar eru uppfyllt skal foreldri halda dagvinnulaunum sínum svo og vaktaálagi þar sem það á við. Verslunarfólk heldur eftirvinnuálagi. Með dagvinnulaunum er almennt átt við þau föstu laun sem starfsmaður fær fyrir vinnu á dagvinnutímabili, ásamt föstum aukagreiðslum öðrum en kostnaðargreiðslum.
Vinnuveitandi getur farið fram á læknisvottorð til staðfestingar á sjúkdómi barns.