Um okkur

Samþykktir þessar voru samþykktar á stofnfundi Samtaka atvinnulífsins 15. september 1999. Breytingar hafa verið gerðar á samþykktunum á aðalfundum SA 2001, 2005, 2006, 2010, 2012, 2016, 2017 og 2024.

Einstaka kafla samþykktanna má nálgast hér að neðan:

I. kafli. Nafn, heimili og tilgangur

1. gr. 

Félagið heitir Samtök atvinnulífsins, skammstafað SA. Heimili þess, varnarþing og skrifstofa er í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur félagsins er:

  1. Að vera heildarsamtök íslenskra atvinnurekenda og málsvari þeirra í almennum hagsmunamálum atvinnulífsins.
  2. Að hafa mótandi áhrif á starfsumhverfi atvinnulífsins og stuðla að samkeppnishæfum og arðsömum atvinnurekstri.
  3. Að annast samskipti við stéttarfélög og gera kjarasamninga fyrir hönd aðildarfyrirtækja sem falið hafa samtökunum umboð til þess. Jafnframt að leiðbeina aðildarfyrirtækjum um framkvæmd kjarasamninga og önnur vinnumarkaðsmál.
  4. Að vera í forsvari við rekstur mála fyrir dómi og gagnvart stjórnvöldum í málum sem snerta hagsmuni og réttindi félagsmanna.
  5. Að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi atvinnurekenda að sameiginlegum hagsmunamálum.

II. kafli. Aðild að samtökunum

3. gr.

Félög, sjálfseignarstofnanir og einstaklingar sem stunda atvinnurekstur öðlast beina aðild að Samtökum atvinnulífsins með inngöngu í aðildarfélag innan SA. Aðildarfélög SA eru:

  • Samorka
  • Samtök ferðaþjónustunnar
  • Samtök fjármálafyrirtækja
  • Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi
  • Samtök iðnaðarins
  • Samtök verslunar og þjónustu
4. gr. 

Með aðild að Samtökum atvinnulífsins fela aðildarfyrirtækin samtökunum umboð til að fara með gerð kjarasamninga og ákvarðanir um vinnustöðvanir, sbr. XII. og XIII. kafla samþykkta þessara, sbr. þó ákvæði 5. gr. um fyrirtæki í þjónustudeild samtakanna.

Með inngöngu í SA skuldbinda aðildarfélög og einstök fyrirtæki sig til að hlíta ákvæðum samþykkta þessara svo og ákvörðunum sem á þeim byggjast.

Þar sem rætt er um aðildarfyrirtæki í samþykktum þessum er átt við félög, sjálfseignarstofnanir og einstaklinga í atvinnurekstri.

Fyrirtæki velur aðild að atvinnugreinafélagi eftir því sem samþykktir þeirra leyfa. Aðildarfélög taka sjálf afstöðu til aðildarumsókna. Við það er miðað að fyrirtæki gangi í heild sinni í SA en því er heimilt að skipta félagsaðild milli aðildarfélaga. Umsókn skulu fylgja upplýsingar um stjórn, stjórnendur, starfssvið, heildarlaunagreiðslur og veltu. Sé fyrirtæki bundið af kjarasamningi, öðrum en þeim sem SA eiga aðild að, skal afrit hans fylgja aðildarumsókn.

Í samþykktum og á umsóknareyðublöðum einstakra aðildarfélaga skal koma fram að félagið og félagsmenn þess eigi aðild að Samtökum atvinnulífsins. Umsækjandi skal taka fram ef hann óskar einvörðungu eftir aðild að þjónustudeild samtakanna.

Upplýsingar um nýja félaga og aðrar breytingar á félagaskrá skulu jafnharðan sendar skrifstofu SA.

Enginn getur átt aðild að samtökunum né komið fram fyrir hönd aðildarfyrirtækis gagnvart samtökunum ef hann er félagi í stéttarfélagi.

5. gr. 

Innan samtakanna er starfandi sérstök þjónustudeild fyrir þau aðildarfyrirtæki sem óska eftir annarri þjónustu samtakanna en gerð kjarasamninga fyrir þeirra hönd. Fyrirtækið tekur þá þátt í annarri starfsemi SA og hlutaðeigandi aðildarfélags en þeirri er lýtur að gerð kjarasamninga. Fyrirtæki í þessari deild framselja ekki samtökunum umboð til að gera kjarasamninga fyrir sína hönd og verða ekki bundin af ákvæðum slíkra samninga umfram önnur fyrirtæki sem standa utan samtakanna. Fyrirtæki í þjónustudeild teljast ekki félagsmenn í samtökunum í merkingu vinnulöggjafar og hafa ekki atkvæðisrétt um kjarasamninga og verkbönn.

6. gr. 

Aðilum að samtökunum er heimilt að hafa með sér staðbundin félög er hafi einkum það markmið að vinna að sérhagsmunamálum atvinnurekenda á viðkomandi svæði.

7. gr.

Heimilt er skrifstofu samtakanna að afla upplýsinga um heildarlaunagreiðslur og rekstrartekjur aðildarfyrirtækja, svo og annarra þeirra upplýsinga sem samtökin kunna að þurfa á að halda vegna starfsemi sinnar.

Starfsmönnum samtakanna skal skylt að gæta fyllstu þagmælsku um einstök atriði er fram koma í slíkum skýrslum, en heimilt er að nota þær til úrvinnslu frekari gagna.

III. kafli. Úrsögn og brottvikning

8. gr. 

Um úrsagnir aðildarfyrirtækja úr samtökunum fer eftir samþykktum hlutaðeigandi aðildarfélags. Þó má hvorki segja sig úr samtökunum né fara úr þeim á meðan vinnudeila sem snertir hlutaðeigandi aðildarfélag eða fyrirtæki stendur yfir.

Aðildarfélagi er heimilt að segja sig úr samtökunum frá áramótum að telja, enda hafi skrifleg úrsögn borist skrifstofu samtakanna minnst sex mánuðum áður.

9. gr.

Brjóti aðildarfyrirtæki gegn ákvæðum samþykkta þessara getur framkvæmdastjórn samtakanna vikið því úr samtökunum, enda hafi fyrirtækinu og aðildarfélagi þess gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Fyrirtækið eða aðildarfélag þess getur innan mánaðar krafist að brottvikning sé borin undir stjórn og skal boðað til fundar innan viku. Stjórnin getur með 2/3 hlutum greiddra atkvæða fellt ákvörðun framkvæmdastjórnar úr gildi.

Úrsögn eða brottvikning leysir aðildarfyrirtæki ekki undan greiðslu áfallinna árgjalda eða annarra skulda eða ábyrgða sem á því hvíla.

IV. kafli. Árgjöld

10. gr. 

Starfsár samtakanna og reikningsár er almanaksárið.

11. gr.

Aðalfundur ákveður árlega árgjald til samtakanna og iðgjald til vinnudeilusjóðs, sbr. 53. gr. samþykkta þessara, og gildir sú ákvörðun frá upphafi næsta árs. Gjöld þessi reiknast af heildarlaunagreiðslum næstliðins árs og gildir það einnig um launagreiðslur stjórnenda fyrirtækja.

Árgjald er 0,17% og iðgjald til vinnudeilusjóðs 0,02%, eða samtals 0,19% af framangreindum stofni.

Framkvæmdastjórn SA ákvarðar lágmarksárgjald fyrir hvert ár. Gjaldið skal endurskoðað árlega með hliðsjón af launaþróun. Lágmarksárgjald á árinu 2024 er 39.000 kr.

Þrátt fyrir framanritað er óskylt að greiða hærra árgjald en sem svarar 0,067% af rekstrartekjum liðins árs og er þá iðgjald til vinnudeilusjóðs SA innifalið. Aðildarfyrirtæki, sem vilja nýta sér þessa heimild, skulu senda fullnægjandi gögn því til stuðnings innan 30 daga frá því árgjaldið er endanlega ákveðið.

Fjárhæðamörk stærðarafsláttar, þ.e. stigvaxandi afsláttar af álögðum árgjöldum, verða eftirfarandi á árinu 2024:

<table>
    <tr>
        <td>álögð félagsgjöld</td>
        <td>afsláttur</td>
    </tr>
    <tr>
        <td>0 -3.700.000</td>
        <td>0%</td>
    </tr>
    <tr>
        <td>3.700.000- 7.300.000</td>
        <td>5%</td>
    </tr>
    <tr>
        <td>7.300.000- 11.000.000</td>
        <td>10%</td>
    </tr>
    <tr>
        <td>11.000.000 og yfir</td>
        <td>15%</td>
    </tr>
</table>

Afslátturinn reiknast af álögðum árgjöldum í hverju fjárhæðabili. Séu álögð árgjöld t.d. 8,0 m.kr. þá reiknast enginn afsláttur af fyrstu 3,7 m.kr., 5% eða 180.000 kr. afsláttur reiknast af bilinu 3,7 - 7,3 m.kr. og 10% eða 70.000 kr. afsláttur reiknast af þeirri 1 m.kr. sem er á bilinu 7,3 – 8 m.kr. Afslátturinn verður því 250.000 kr. (180.000 plús 70.000) samkvæmt reglunni í þessu tilviki.

Móðurfélag og dótturfélög þess geta óskað þess að afsláttur verði reiknaður miðað við samanlögð árgjöld allra fyrirtækjanna.

Framkvæmdastjórn SA endurskoðar fjárhæðarmörk afsláttarins árlega með hliðsjón af þróun heildarlaunagreiðslna í atvinnulífinu.

12. gr.

Árgjöld og iðgjöld til vinnudeilusjóðs SA skulu innheimt í einu lagi og skiptast milli rekstrar og vinnudeilusjóðs í réttu hlutfalli eftir því sem gjöldin eru ákveðin hverju sinni í 1. mgr. 11. gr. og skv. 51. gr. samþykkta þessara. Ákvæði kafla þessa gilda einnig um iðgjöld til vinnudeilusjóðs, eftir því sem við á.

13. gr. 

Árgjöld skulu innheimt ársfjórðungslega með gjalddögum 15. febrúar, 15. maí, 15. ágúst og 15. nóvember, en eindaga mánuði eftir gjalddaga.

Heimilt er að innheimta lágmarksárgjald skv. 2. mgr. 11. gr. í einu lagi, með gjalddaga 15. maí.

Heimilt er að innheimta þrjá fyrstu ársfjórðunga hvers árs samkvæmt áætlun, ef upplýsingar um heildarlaunagreiðslur síðastliðins árs liggja þá ekki fyrir. Við innheimtu síðasta ársfjórðungs skulu árgjöld vera endanlega útreiknuð skv. upplýsingum um iðgjaldsstofn. Hafi ársfjórðungsgreiðslur verið of- eða vanáætlaðar á fyrri gjalddögum ársins skal það leiðrétt við innheimtu árgjalds vegna síðasta ársfjórðungs.

14. gr. 

Ef ársfjórðungsgjaldið er ekki greitt á eindaga er heimilt að reikna dráttarvexti frá gjalddaga.

15. gr. 

Samtök atvinnulífsins reikna út árgjöld hvers aðildarfyrirtækis og innheimta gjöldin. Heimilt er að fela aðildarfélögum innheimtu gjalda en jafnframt getur skrifstofan tekið að sér innheimtu árgjalda aðildarfélaga.

16. gr. 

Nýir félagar greiða árgjald frá og með þeim ársfjórðungi sem er að líða þegar þeir eru teknir í samtökin.

Ef fyrirtæki er nýstofnað skal áætla árgjaldið fyrirfram fyrir árið.

Þeir sem segja sig úr samtökunum eða aðildarfélögum þeirra greiða árgjald til þeirra áramóta þegar þeir ganga út, en hætti fyrirtæki starfsemi á árinu greiðir það árgjald til loka þess ársfjórðungs er skrifstofu samtakanna er tilkynnt að fyrirtæki sé hætt starfsemi. Þegar um brottvikningu er að ræða skal greiða árgjald til loka þess ársfjórðungs er brottvikning fer fram.

17. gr.

Aðildarfélög og fyrirtæki bera ekki ábyrgð á skuldbindingum samtakanna umfram það er leiðir af ákvæðum kafla þessa.

18. gr. 

Atvinnurekendur í þjónustudeild samtakanna greiða sama árgjald og önnur aðildarfyrirtæki en greiða ekki iðgjöld til vinnudeilusjóðs.

V. kafli. Atkvæðaskrá

19. gr.

Skrifstofa samtakanna skal við hver áramót útbúa atkvæðaskrá sem gildi tekur 15. febrúar ár hvert og miðast við greidd árgjöld næstliðins reikningsárs. Svara þá kr. 1.000 í greiddum árgjöldum næstliðins árs til eins atkvæðis en greiðslur eldri árgjaldsskulda reiknast ekki til atkvæða.

Við ákvarðanir um verkbönn og kjarasamninga innan Samtaka atvinnulífsins fara aðildarfyrirtækin ávallt sjálf með atkvæðarétt skv. gildandi atkvæðaskrá samtakanna. Við aðrar atkvæðagreiðslur fara aðildarfyrirtækin með atkvæða-rétt, nema annað sé tekið fram í samþykktum þessum.

Heimilt er að viðhafa atkvæðagreiðslur með rafrænum hætti þegar það þykir henta.

VI. kafli. Fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins

20. gr.

Fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins hefur æðsta vald í málefnum samtakanna milli aðalfunda. Hlutverk fulltrúaráðsins er að kjósa samtökunum stjórn og vera henni til ráðuneytis um stefnumörkun eftir því sem stjórnin ákveður hverju sinni. Fulltrúar í fulltrúaráði fara með atkvæði á aðalfundi samtakanna.

21. gr.

Fulltrúaráðið skipa:

a) Formaður samtakanna, sem jafnframt er formaður fulltrúaráðsins.

b) 100 fulltrúar sem tilnefndir eru af aðildarfélögum samtakanna í hlutfalli við greidd árgjöld á næstliðnu reikningsári.

22. gr.

Aðildarfyrirtæki velja fulltrúa til setu í fulltrúaráði, enda hafi þau fyrir 14. febrúar ár hvert tilkynnt skrifstofu SA að þau ein sér eða fleiri saman fari beint með atkvæði sín við skipan í fulltrúaráð. Hafi aðildarfyrirtæki ekki tilkynnt um beina tilnefningu fyrir þann tíma falla atkvæði þess til hlutaðeigandi aðildarfélags.

Þau fyrirtæki sem ekki fara beint með atkvæði sín við skipan í fulltrúaráð taka þátt í vali fulltrúa á vettvangi hlutaðeigandi aðildarfélags. Skulu þeir fulltrúar kosnir skv. þeim reglum sem félagið setur en um atkvæðarétt fer skv. atkvæðaskrá SA sbr. 19. gr.

Fyrirtæki sem tilnefna beint fulltrúa í fulltrúaráð skv. 1. mgr. hafa einungis atkvæðarétt um val fulltrúa aðildarfélags að því marki sem ónýtt atkvæði þess nýtist hlutaðeigandi aðildarfélagi við úthlutun sæta í fulltrúaráði.

23. gr.

Samhliða útgáfu atkvæðaskrár skv. 19. gr. skal skrifstofa SA skipta 100 sætum í fulltrúaráði milli þeirra aðildarfyrirtækja sem tilnefna beint og aðildarfélaga í réttu hlutfalli við atkvæðavægi skv. atkvæðaskrá.

Með aðalfundarboði skal fylgja skrá um skiptingu fulltrúa skv. framanskráðu svo og ósk um tilnefningu aðildarfélaga á fulltrúum til setu í fulltrúaráði frá og með þeim aðalfundi.

Gangi maður úr fulltrúaráðinu skal tilnefningaraðili velja annan mann í hans stað.

24. gr.

Fulltrúaráðið skal kvatt saman eftir ákvörðun framkvæmdastjórnar og eins ef fjórðungur stjórnarmanna eða aðildarfyrirtæki sem fara með minnst 10% af heildaratkvæðum í samtökunum óska þess.

Fulltrúaráðsfundur er löglegur ef minnst þriðjungur fulltrúaráðsmanna sækir fund.

Nú er fundur ekki löglegur vegna ónógrar fundarsóknar og má þá boða til fundar á ný innan viku og sé þess getið í fundarboði, að til fundar sé boðað vegna ónógrar fundarsóknar á fyrri fundinum, þá telst síðari fundurinn lögmætur án tillits til þess hve margir sækja hann.

Fulltrúaráðsmaður sem forfallaður er frá fundarsókn getur falið öðrum fulltrúaráðsmanni að fara með atkvæði á fundinum. Enginn getur þó farið með fleiri en eitt umboð á fundi.

Fundir fulltrúaráðsins skulu haldnir fyrir luktum dyrum nema öðru vísi sé ákveðið.

VII. kafli. Formaður, stjórn og framkvæmdastjórn

25. gr.

Stjórn samtakanna mótar stefnu og megináherslur samtakanna.

Stjórn samtakanna heldur fundi ársfjórðungslega eða oftar ef minnst tveir stjórnarmenn óska þess.

26. gr.

Stjórn samtakanna skipa:

  1. Formaður, sem jafnframt er formaður stjórnar.
  2. 20 menn sem kjörnir eru árlega á fundi fulltrúaráðs sem haldinn skal í tengslum við aðalfund samtakanna.

Gangi maður úr stjórn getur stjórnin með einróma samþykki kjörið annan mann í hans stað til næsta aðalfundar. Ella skal kveðja fulltrúaráð saman til að kjósa mann í hans stað.

Stjórnarfundur er lögmætur ef a.m.k. tíu stjórnarmenn sækja fund. Fundir skulu haldnir fyrir luktum dyrum.

27. gr.

Stjórn samtakanna skal minnst átta vikum fyrir aðalfund kjósa þrjá menn til setu í kjörstjórn sem hafi umsjón með framkvæmd kosninga á aðalfundi og á fundi fulltrúaráðs SA, sem haldinn er í tengslum við aðalfund. Kjörstjórn skal með áskorun til félagsmanna leita eftir tillögum um menn til setu í stjórn samtakanna fyrir komandi kjörtímabil. Hún skal leggja fram tillögur sínar þar um minnst tveimur vikum fyrir upphaf aðalfundar og skulu þær liggja frammi á skrifstofu samtakanna. Framboðsfrestur rennur út sjö sólarhringum fyrir upphaf aðalfundar.

Komi fram tillögur um fleiri menn en kjósa á skal kjörstjórn útbúa atkvæðaseðil með nöfnum þeirra sem tillaga er gerð um og skal kosið milli þeirra með margfeldiskosningu á fundi fulltrúaráðs SA.

Kjörgengir til setu í stjórn SA eru stjórnendur og stjórnarmenn aðildarfyrirtækja og aðildarfélaga samtakanna.

Aðildarfélag skal eiga þess kost að tilnefna áheyrnarfulltrúa í stjórn ef niðurstaða stjórnarkjörs eða tillaga kjörstjórnar er sú að það fær ekki fulltrúa úr sínum röðum í stjórn SA.

28. gr.

Formaður Samtaka atvinnulífsins skal kosinn til tveggja ára í senn í beinni óbundinni póstkosningu allra félaga. Skal kjörnefnd minnst tveimur vikum fyrir aðalfund senda út atkvæðaseðla í samræmi við gildandi atkvæðaskrá með áskorun til félaga um kosningu formanns. Atkvæði í formannskjöri skulu talin á aðalfundi og úrslit tilkynnt þar.

Formaður getur setið samfleytt í sex ár að hámarki.

Heimilt er að viðhafa rafræna atkvæðagreiðslu um kosningu formanns.

Varaformaður samtakanna skal kjörinn úr hópi stjórnarmanna á fyrsta fundi nýrrar stjórnar eftir aðalfund.

29. gr.

Framkvæmdastjórn samtakanna skal kjörin á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Hana skipa formaður og varaformaður samtakanna og sex menn sem stjórnin kýs úr hópi stjórnarmanna.

Framkvæmdastjórn stýrir starfsemi samtakanna í samræmi við stefnumörkun stjórnar og aðalfundar. Ákvarðanir sem framkvæmdastjórn er ætlað að taka skv. samþykktum þessum getur stjórn samtakanna eins tekið.

VIII. kafli. Aðalfundur

30. gr.

Aðalfundur samtakanna hefur æðsta vald í málefnum Samtaka atvinnulífsins. Aðalfund skal halda fyrir lok maímánaðar ár hvert og skal til hans boða með minnst fjögurra vikna fyrirvara með tilkynningu til félaga.

Rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétt eiga stjórnendur aðildarfyrirtækja, aðrir félagar og starfsmenn SA og aðildarfélaganna.

31. gr.

Á dagskrá aðalfundar skal m.a. vera:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir næstliðið starfsár.
  2. Reikningar samtakanna fyrir næstliðið reikningsár.
  3. Að lýsa kjöri formanns.
  4. Að lýsa kjöri stjórnar.
  5. Kosning löggilts endurskoðanda.
  6. Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál.
32. gr.

Við atkvæðagreiðslu á aðalfundi fara fulltrúar í fulltrúaráði með atkvæðarétt. Sé fulltrúaráðsmaður forfallaður getur hann falið öðrum að fara með atkvæði sitt. Enginn getur þó farið með fleiri en tvö atkvæði á aðalfundi.

Komi fram ósk um skriflega atkvæðagreiðslu á aðalfundi skal orðið við því.

IX. kafli. Undirbúningur og framkvæmd funda

33. gr.

Samtök atvinnulífsins hafa það að markmiði að starfa í sem nánustum tengslum við aðildarfélög og fyrirtæki. Í því skyni skal hafa reglubundið samráð við aðildarfélög og þá aðila sem ætla má að eigi sérlega mikilla hagsmuna að gæta. Samtökin skulu m.a. kanna afstöðu innan samtakanna til mikilvægra mála og leitast við að gefa aðildarfyrirtækjum kost á að koma sjónarmiðum á framfæri áður en afstaða samtakanna er endanlega mótuð.

34. gr.

Framkvæmdastjórn getur kvatt til almennra félagsfunda í samtökunum og gilda þá sömu reglur við atkvæðagreiðslu og á næstliðnum aðalfundi. Slíkir fundir skulu auglýstir opinberlega og boðaðir með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara. Víkja má frá fyrirvara við boðun enda samþykki það fulltrúar fyrir 2/3 hluta atkvæða.

Fundir samtakanna skulu haldnir í Reykjavík nema framkvæmdastjórn ákveði annan fundarstað og skal boðað bréflega eða með öðrum jafntryggum hætti til funda í stjórnum og nefndum samtakanna. Almenna fundi skal auglýsa. Framkvæmdastjóri samtakanna annast boðun funda.

Fundur sem löglega er boðaður er lögmætur án tillits til þess hve margir sækja hann, nema öðru vísi sé ákveðið í samþykktum þessum.

Formaður samtakanna, eða fundarstjóri sem hann tilnefnir, stýrir fundum þeirra og tilnefnir fundarritara.

Atkvæðagreiðsla og önnur meðferð mála á fundum fer eftir ákvörðun fundarstjóra. Þó skal jafnan viðhafa skriflega atkvæðagreiðslu ef einhver atkvæðisbærra fundarmanna krefst þess. Verði ágreiningur um afgreiðslu mála skal meirihluti atkvæða ráða úrslitum, nema öðru vísi sé ákveðið í samþykktum þessum. Falli atkvæði jafnt við persónukjör skal hlutkesti ráða.

Færa skal til bókar stutta skýrslu um það sem fram fer á fundum samtakanna.

X. kafli. Framkvæmdastjóri samtakanna

35. gr.

Stjórn SA ræður framkvæmdastjóra samtakanna. Stjórnar hann skrifstofu samtakanna í samráði við framkvæmdastjórn, ræður til hennar starfsfólk og hefur á hendi alla daglega umsýslu.

36. gr.

Framkvæmdastjóri, eða sá sem hann setur í sinn stað, kemur fram fyrir hönd samtakanna fyrir dómstólum, hvort sem samtökin höfða mál eða mál er höfðað gegn þeim.

Stjórn SA er heimilt að fela framkvæmdastjóra að reka mál fyrir hönd samtakanna til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða lausnar undan tilteknum skyldum þeirra, enda hafi úrlausn þýðingu fyrir aðildarfyrirtæki samtakanna. Sama á við um kvartanir og kærur til stjórnvalda.

Framkvæmdastjóra er heimilt að gera samninga um lögfræðiaðstoð og aðra þjónustu við einstök fyrirtæki og félög sem standa utan samtakanna.

XI. kafli. Reikningar samtakanna

37. gr.

Fyrir marslok ár hvert skal framkvæmdastjóri samtakanna og framkvæmdastjórn hafa lokið við reikninga þeirra fyrir næstliðið reikningsár og löggiltur endurskoðandi hafa endurskoðað þá.

XII. kafli. Vinnudeilur og samningar

38. gr.

Með aðild að Samtökum atvinnulífsins fela aðildarfélög þeirra svo og einstakir meðlimir þeim umboð til að gera alla kjarasamninga fyrir sína hönd, með þeim takmörkunum einum sem felast í samþykktum þessum. Samtökin eru félag atvinnurekenda í skilningi vinnulöggjafar og fara með allar heimildir sem þau lög áskilja félögum atvinnurekenda. Fyrirtæki í þjónustudeild samtakanna, sbr. 5. gr. teljast ekki félagsmenn í skilningi vinnulöggjafarinnar og eiga ekki aðild að ákvörðunum um vinnudeilur og samninga.

39. gr.

Stjórn SA markar stefnu fyrir gerð almennra kjarasamninga.

Framkvæmdastjórn SA hefur umsjón með gerð allra kjarasamninga fyrir hönd samtakanna. Framkvæmdastjórnin getur framselt vald sitt til einstakra samninganefnda, starfsmanna SA eða annarra og ákveður hverju sinni hvernig haga skuli forsvari af hálfu samtakanna. Við skipan samninganefnda skal leitast við að tryggja þátttöku þeirra aðildarfyrirtækja sem mesta hagsmuni eiga af hlutaðeigandi samningaviðræðum. Í hverju tilfelli skal gefið út umboð til samningsgerðar, þar sem fram komi hvernig samningsumboði af hálfu SA er háttað og er félögum samtakanna óheimilt að semja við stéttarfélög eða sambönd stéttarfélaga um launa- og kjaramál án formlegrar heimildar framkvæmdastjórnar samtakanna. Til að skuldbinda samtökin og meðlimi þeirra með undirritun kjarasamnings, þarf fullgilt samningsumboð skv. framanskráðu að liggja fyrir.

40. gr.

Nú standa yfir samningar um launa- og kjaramál við samtök launþega, eða félög þeirra og er þá aðildarfyrirtækjum óheimilt að setja fram tilboð án samþykkis framkvæmdastjórnar eða formlegrar samninganefndar samtakanna.

Samtökum atvinnulífsins, aðildarfélögum þeirra og einstökum félögum er óheimilt að falla frá rétti til að bera ágreiningsmál er tengjast vinnudeilum undir dómstóla. Yfirlýsingar um það efni í tengslum við gerð kjarasamninga eru skv. því óheimilar og gildislausar.

41. gr.

Eftir undirritun nýs kjarasamnings skal skrifstofa samtakanna senda hann til kynningar til allra aðildarfélaga. Almenna kjarasamninga sem varða ótiltekinn fjölda aðildarfyrirtækja skal birta á vefsíðu samtakanna. Þar skal jafnframt kynnt hvenær tekin verði afstaða til afgreiðslu á samningnum. Jafnframt skal kynna stjórn SA gerð samningsins og helstu efnisþætti.

Heildarkjarasamningar og stefnumarkandi samningar, skv. nánari ákvörðun framkvæmdastjórnar, skulu bornir undir atkvæði félagsmanna í leynilegri atkvæðagreiðslu. Hvað aðra samninga varðar skal því beint til hlutaðeigandi aðildarfélaga að gera skrifstofu samtakanna þegar viðvart sé talin ástæða til að leggja samning undir skriflega atkvæðagreiðslu. Hafi ekki komið fram ósk um slíka atkvæðagreiðslu innan þess frests sem gefinn er, ræður niðurstaða framkvæmdastjórnar hvort atkvæðagreiðsla fari fram. Þó skal jafnan viðhafa atkvæðagreiðslu ef einhver framkvæmdastjórnarmanna óskar eða ef óskir þar um berast frá félagsmönnum sem ráða minnst 1% atkvæða skv. gildandi atkvæðaskrá.

Við atkvæðagreiðslu um kjarasamning ræður fjöldi atkvæða skv. gildandi atkvæðaskrá, sbr. 19. gr. samþykkta þessara. Ef kjarasamningur er gerður vegna tiltekins aðildarfélags og hann einungis borinn undir atkvæði meðlima þess félags, er aðildarfélaginu heimilt að láta atkvæðagreiðslu fara fram skv. eigin félagslögum.

Framkvæmdastjórn ákveður hvort viðhafa skuli póstatkvæðagreiðslu eða greiða atkvæði á kjörfundi og setur nánari reglur um framkvæmd atkvæðagreiðslu.

42. gr.

Félagar skulu þegar tilkynna skrifstofu samtakanna, ef þeim berst tilkynning um uppsögn á gildandi samningum. Á sama hátt skal þegar senda skrifstofu samtakanna kröfur þær sem stéttarfélög setja fram svo og kröfur sem aðildarfélög samtakanna áforma að leggja fram.

43. gr.

Komi upp ágreiningur milli félaga samtakanna og stéttarfélags um kaup og kjör, skilning eða framkvæmd á kjarasamningi sem samtökin eiga aðild að, þá ber að vísa slíkum ágreiningi til umsagnar samtakanna.

XIII. kafli. Vinnustöðvanir

44. gr.

Nú verður vinnustöðvun hjá einhverju aðilarfyrirtækja samtakanna og skal það þá þegar tilkynna það til skrifstofu samtakanna. Ber þá starfsmönnum SA, framkvæmdastjórn og stjórn að gera allt sem unnt er til þess að vernda hagsmuni þess meðlims er vinnustöðvunin bitnar á.

45. gr.

Um ákvörðun verkbanns fer samkvæmt ákvæðum 15. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. SA eru félag atvinnurekenda í skilningi þeirra laga, enda eiga aðildarfyrirtækin beina aðild að samtökunum, sbr. 4. gr. samþykkta þessara.

Stjórn SA getur ákveðið að láta fara fram atkvæðagreiðslu um verkbann meðal félagsmanna. Í tillögu stjórnar skal koma fram hversu víðtækt verkbannið skuli vera og hvenær því er ætlað að koma til framkvæmda. Heimilt er stjórn að einskorða atkvæðagreiðslu við þau fyrirtæki sem verkbanni er ætlað að taka til. Við atkvæðagreiðslu um verkbann ræður fjöldi atkvæða skv. gildandi atkvæðaskrá, sbr. 19. gr. samþykkta þessara.

Stjórn SA getur heimilað aðildarfélögum samtakanna og atvinnurekendum innan þeirra að leggja á verkbann. Atkvæðaréttur fer skv. gildandi atkvæðaskrá samtakanna en stjórnin getur heimilað að atkvæðagreiðsla fari fram skv. félagslögum viðkomandi aðildarfélags, eða án atkvæðagreiðslu, ef einstök aðildarfyrirtæki eiga í hlut.

Framkvæmdastjórn ákveður hvort viðhafa skuli póstatkvæðagreiðslu eða greiða atkvæði á kjörfundi og setur nánari reglur um framkvæmd atkvæðagreiðslu.

Framkvæmdastjórn, eða þeim sem hún tilnefnir, er heimilt að aflýsa eða fresta boðuðu eða yfirstandandi verkbanni.

46. gr.

Framkvæmdastjórn getur veitt undanþágu frá þátttöku í verkbanni, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Nú fæst eigi samþykki framkvæmdastjórnar til undanþágu og má þá bera málið undir stjórn SA sem getur, ef 2/3 fundarmanna á stjórnarfundi eru því samþykkir, veitt hina umbeðnu undanþágu.

47. gr.

Enginn félagsmaður má ráða til sín launþega sem eru í verkbanni eða verkfalli hjá öðrum félagsmönnum.

Framkvæmdastjórnin getur ákveðið að sama skuli gilda um verkbann eða verkfall erlendis.

Þegar verkfall eða verkbann verður hjá félaga innan SA skal hlutaðeigandi, ef hann telur ástæðu til eða framkvæmdastjóri óskar, senda skrifstofu samtakanna skrá yfir launþega þá sem hlut eiga að máli. Er þá heimilt að kynna það þeim félögum sem ástæða þykir til hverjir þátttakendur séu í verkfallinu.

48. gr.

Þegar vinnustöðvun stendur yfir hjá einhverjum félagsmanni má enginn félagi í samtökunum vinna gegn hagsmunum hans, t.d. með því að taka að sér, án samkomulags við hlutaðeiganda sjálfan eða stjórn viðkomandi aðildarfélags, framkvæmd á verki, sölu á vöru eða þjónustu sem hlutaðeigandi atvinnurekandi hefur tekið að sér eða á annan hátt nota sér aðstöðuna til þess að rýra viðskipti hans eða starfssvið.

Framkvæmdastjórn getur, þegar vinnustöðvun stendur yfir eða er yfirvofandi, bannað atvinnurekendum í samtökunum að hafa viðskipti við tiltekin fyrirtæki eða á sérstaklega ákveðnum sviðum, svo sem að selja tilgreinda vörutegund, og gert aðrar slíkar ráðstafanir sem hún telur nauðsynlegar vegna deilunnar.

Ef einhver utan samtakanna vinnur beinlínis gegn hagsmunum félagsmanna sem eiga í vinnustöðvun er öðrum félagsmönnum óheimilt að eiga viðskipti við hann meðan á vinnustöðvuninni stendur. Framkvæmdastjórn SA getur samþykkt að sama skuli einnig gilda eftir að vinnustöðvun er lokið, annað hvort um tiltekinn tíma eða þar til framkvæmdastjórnin afléttir slíku viðskiptabanni.

Stjórnin getur ákveðið tilsvarandi aðgerðir í deilumálum sem hafa eigi leitt til vinnustöðvunar.

XIV. kafli. Vinnudeilusjóður

49. gr.

Samtök atvinnulífsins starfrækja vinnudeilusjóð sem aðildarfyrirtækjum SA ber að greiða iðgjald til. Vinnudeilusjóður er eign SA.

Vinnudeilusjóður hefur það hlutverk að efla samstöðu aðildarfyrirtækja SA ef kemur til átaka á vinnumarkaði. Meginhlutverk sjóðsins er að styðja við stefnumörkun SA í kjaramálum með því að greiða bætur til aðildarfyrirtækja í kjaradeilum sem hafa verulega þýðingu fyrir heildarhagsmuni atvinnurekenda.

Aðildarfyrirtæki í þjónustudeild samtakanna, sbr. 5. gr., geta ekki átt aðild að sjóðnum.

50. gr.

Stjórn vinnudeilusjóðs skipa þrír menn. Skulu þeir kjörnir til árs í senn á fyrsta fundi stjórnar SA eftir aðalfund. Framkvæmdastjóri samtakanna er jafnframt framkvæmdastjóri vinnudeilusjóðs.

Stjórn vinnudeilusjóðs stýrir fjárreiðum hans og ákveður greiðslu bóta til aðildarfyrirtækja í samræmi við ákvæði samþykkta þessara og reglna sem settar eru skv. þeim.

51. gr.

Tekjur vinnudeilusjóðs eru:

  1. Fjármunatekjur af eignum sjóðsins.
  2. Aðrar tekjur, þar á meðal af yfirteknum skaðabótakröfum, sbr. 6. mgr. 53. gr.
  3. Iðgjöld aðildarfyrirtækja samtakanna.

Reikningar sjóðsins skulu lagðir fyrir aðalfund á sama hátt og reikningar samtakanna.

52. gr.

Aðildarfyrirtæki samtakanna geta sótt um bætur úr vinnudeilusjóði ef stöðvun verður á atvinnurekstri þeirra að hluta eða öllu leyti af völdum verkfalls sem boðað er af stéttarfélögum starfsmanna. Sama gildir um stöðvun atvinnurekstrar af völdum verkbanns á starfsmenn aðildarfyrirtækis enda sé það lagt á af SA eða með samþykki þeirra og í samræmi við ákvæði samþykkta þessara. Þá er sjóðnum heimilt að greiða bætur vegna ólögmætra vinnustöðvana starfsmanna.

Bætur miðast við greidd árgjöld til sjóðsins og fyrst til frá og með öðru ári aðildar. Þá nemur hann 1/3 af fullum, 2/3 á næsta ári og hámarksbætur frá og með fjórða ári.

Fyrstu þrír dagar vinnustöðvunar eru á eigin áhættu félagsmanna og greiðast að jafnaði engar bætur vegna þess tíma. Bætur greiðast frá og með fjórða degi sem starfsemi liggur niðri af völdum vinnustöðvunar. Taki boðuð vinnustöðvun til meira en þriðjungs starfsmanna aðildarfyrirtækja SA getur framkvæmdastjórn samtakanna þó lengt tímabil sjálfsáhættu skv. framanskráðu um allt að eina viku.

Sjóðsstjórn er heimilt að víkja frá ákvæðum 1. -3. mgr. ef sérstaklega stendur á, og deila sú sem vinnustöðvun hefur valdið er talin hafa verulega þýðingu fyrir heildarhagsmuni atvinnurekenda. Þá er einnig heimilt að víkja frá sömu ákvæðum ef vinnustöðvunin er ólögmæt enda tekur sjóðurinn þá við öllum skaðabótakröfum á hendur þeim er tjóninu olli.

Stjórn vinnudeilusjóðs getur ákveðið uppgjörstímabil vegna greiðslna úr vinnudeilusjóði allt að sex mánuði í senn og greiðast bætur þá út innan 15 daga frá lokum uppgjörstímabils. Fullnaðaruppgjör gagnvart einstökum fyrirtækjum getur þó fyrst farið fram þegar tjónsuppgjör skv. 5. mgr. 53. gr. liggur fyrir. Séu vinnustöðvanir það umfangsmiklar að fyrirséð er að svo gangi á höfuðstól sjóðsins að hann fari undir lágmarksstöðu skv. 54. gr. er sjóðsstjórn heimilt að skerða bótagreiðslur svo rýrnun sjóðsins komi ekki misjafnlega niður á þeim aðildarfyrirtækjum sem fyrir tjóni verða. Skulu þá allar bótagreiðslur á yfirstandandi bótatímabili lækkaðar um sama hundraðshluta

53. gr.

Bætur hvers aðildarfyrirtækis miðast við heildarlaunagreiðslur eins og þær reiknast skv. greiddum iðgjöldum til vinnudeilusjóðs á næstliðnu ári. Falli öll starfsemi fyrirtækis niður af völdum bótaskyldrar vinnustöðvunar greiðist sem svarar 50% af þannig reiknuðum heildarlaunagreiðslum. Tjónabætur miðast við að hver vinnustöðvunardagur teljist 1/360 hluti af heildarlaunagreiðslum ársins eins og þær eru skilgreindar í samþykktum þessum. Bætur greiðast frá og með fjórða degi sem vinna liggur niðri af völdum vinnustöðvunar og alla daga þar til vinnustöðvun lýkur og miðast við fjölda þeirra og hlutfall sem vinnustöðvun sannanlega tekur til.

Nú tekur vinnustöðvun einungis til hluta starfsmanna og greiðast bætur þá í hlutfalli við fjölda þeirra sem leggja niður störf af heildarfjölda starfsmanna.

Þegar um ólögmætar vinnustöðvanir er að ræða getur stjórn vinnudeilusjóðs ákveðið að greiða bætur umfram það sem kveðið er á um í 2. mgr. þessarar greinar. Á það einnig við ef vinnustöðvun hefur verið gerð hjá fáum atvinnurekendum með það að markmiði að ná fram kjarasamningum við atvinnurekendur í heild og telja verður að deila sú sem vinnustöðvun hefur valdið hafi verulega þýðingu fyrir heildarhagsmuni atvinnurekenda.

Heildarbætur mega aldrei nema hærri upphæð en því sem samsvarar sannanlega beinu tjóni umsækjanda vegna viðkomandi vinnustöðvunar.

Umsókn um bætur úr vinnudeilusjóði skulu sendar skrifstofu SA og með þeim upplýsingum sem stjórn sjóðsins gerir kröfu um eigi síðar en 30 dögum eftir að vinnustöðvun lýkur.

Umsækjandi framselur vinnudeilusjóði ódæmdar bótakröfur vegna vinnustöðvunar. Ákvörðun um innheimtu kröfu og málshöfðun á hendur bótaskyldum aðila er alfarið í höndum stjórnar vinnudeilusjóðs. Ef meira innheimtist hjá bótaskyldum aðila en nemur bótum og kostnaði vinnudeilusjóðs greiðist hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki umframfjárhæð til greiðslu tjóns að því marki sem eftirstöðvar innheimtra bóta hrökkva til.

Það er skilyrði bótagreiðslna úr vinnudeilusjóði að hlutaðeigandi fyrirtæki virði öll ákvæði samþykkta SA um allt það er lýtur að vinnudeilum og samningum. Brot á ákvæðum samþykktanna eða fyrirmælum og ákvörðunum skv. þeim varðar sviptingu bóta og endurkröfu ef áður hefur verið greitt vegna hlutaðeigandi vinnudeilu.

Eigi má greiða bætur úr sjóðnum ef:

  1. Umsækjandi hefur verið meðlimur samtakanna skemur en sex mánuði.
  2. Umsækjandi skuldar árgjöld frá fyrri árum er vinnustöðvun hefst.
  3. Umsækjandi eða aðildarfélag hans hefur sagt sig úr samtökunum.
  4. Vinnustöðvun er að mati framkvæmdastjórnar SA alfarið á ábyrgð umsækjanda..

Tilkynna ber skrifstofu SA án tafar um vinnustöðvun ef ætla má að hún geti valdið vinnudeilusjóðnum útgjöldum.

54. gr.

Óheimilt er að skerða höfuðstól sjóðsins niður fyrir 1,5% af heildarlaunagreiðslum aðildarfyrirtækja samtakanna. Þó er heimilt að greiða bætur úr sjóðnum þrátt fyrir að höfuðstóll hans fari niður fyrir sett lágmark ef stjórn sjóðsins áætlar að sjóðurinn nái aftur lágmarksstærð á ásættanlegum tíma.

Ef vinnustöðvun hefur verið gerð hjá fáum atvinnurekendum með það að markmiði að ná fram kjarasamningum við atvinnurekendur í heild og telja verður að vinnudeilan geti haft verulega þýðingu fyrir heildarhagsmuni atvinnurekenda, er stjórn vinnudeilusjóðs heimilt, að fengnu samþykki framkvæmdastjórnar SA, að víkja frá ákvæði 1. mgr. við ákvörðun bótagreiðslna.

Vinnudeilusjóður tekur þátt í kostnaði við innheimtu iðgjalda og skal hann jafnframt greiða eðlilegt endurgjald vegna umsýslu með sjóðinn. Stjórn sjóðsins og framkvæmdastjórn skulu semja um þessar greiðslur.

Heimilt er aðildarfélögum og einstökum fyrirtækjum innan samtakanna að skjóta ákvörðunum stjórnar vinnudeilusjóðs til endanlegs úrskurðar framkvæmdastjórnar SA.

Stjórn SA er heimilt, í samráði við stjórn vinnudeilusjóðs, að ákvarða greiðslu úr vinnudeilusjóði til réttarverndarsjóðs, sem starfar skv. XV. kafla samþykkta SA.

Verði vinnudeilusjóður lagður niður renna eignir hans til rekstrarsjóðs SA.

XV. kafli. Réttarverndarsjóður

55. gr.

Samtök atvinnulífsins starfrækja réttarverndarsjóð sem hefur það hlutverk að standa straum af kostnaði vegna málareksturs og annarrar réttarvörslu í málum sem snerta hagsmuni atvinnulífsins eða margra félagsmanna.

Stjórn réttarverndarsjóðs skipa þrír menn, tveir kosnir af framkvæmdastjórn SA til eins árs í senn og einn skipaður af framkvæmdastjóra SA.

Stjórn réttarverndarsjóðs setur nánari reglur um greiðslur úr sjóðnum.

Ákvæði til bráðabirgða

Stofnfé réttarverndarsjóðs er kr. 10.000.000, sem greiðist úr vinnudeilusjóði á árinu 2001.

XVI. kafli. Ýmis ákvæði

56. gr.

Samþykktum samtakanna má ekki breyta nema á aðalfundi eða almennum félagsfundi, sem boðaður hefur verið með minnst fjögurra vikna fyrirvara og sóttur er af svo mörgum fulltrúum að umráð hafi yfir 2/3 hlutum atkvæða, sbr. 19. gr., enda hafi þess verið getið í fundarboðinu að breyting á samþykktum yrði til meðferðar á fundinum og sé breytingin samþykkt með ¾ greiddra atkvæða að minnsta kosti.

Hafi eigi verið á fundinum svo margir, en breytingin verið samþykkt með ¾ atkvæða að minnsta kosti, þá skal halda aftur fund innan tveggja mánaða. Skal til hans boðað á sama hátt og hins fyrri og það tekið fram að til fundar sé boðað sökum þess að eigi hafi verið nógu margir á hinum fyrri. Séu síðan á þeim fundi greidd ¾ atkvæða með breytingunni þá telst hún samþykkt, án tillits til fundarsóknar.

57. gr.

Nú þykir ráðlegt eða nauðsynlegt að leysa upp samtökin og fer þá um tillögur þar að lútandi sem um breytingar á samþykktum. Fundur sá sem samþykkir á lögmætan hátt að slíta samtökunum kveður og á um hvernig ráðstafa skuli eignum þeirra og um greiðslu skulda.

Ákvæði til bráðabirgða um sérstaka greiðslu úr Vinnudeilusjóði

Þrátt fyrir ákvæði XIV. kafla samþykkta SA um Vinnudeilusjóð skal á árinu 2012 greiða úr sjóðnum 400 milljónir króna sem renna til aðildarsamtaka SA í hlutfalli við vægi þeirra samkvæmt atkvæðaskrá fyrir aðalfund 2012. Þessi greiðsla er einstök og verður ekki endurtekin.