Aðilaskipti

Með aðilaskiptum er átt við yfirtöku/samruna fyrirtækja eða framsal hluta atvinnurekstrar frá einum vinnuveitanda til annars, sbr. lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Við aðilaskipti færist ábyrgð á rekstri viðkomandi fyrirtækis af hendi fyrri vinnuveitanda yfir til hins nýja.

Lögin byggja á Evróputilskipun 2001/23/EB og þjóna fyrst og fremst tvíþættum tilgangi:
a) Vernda réttarstöðu og atvinnuöryggi starfsfólks við aðilaskipti að fyrirtækjum eða hluta þeirra.
b) Tryggja samráð við fulltrúa starfsfólks.

Hvað eru aðilaskipti?

Skv. 4. tl. 2. gr. laga nr. 72/2002 eru „aðilaskipti“ skilgreind sem aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi. Gildir þessi skilgreining um einkafyrirtæki og opinber fyrirtæki, sem stunda atvinnustarfsemi, hvort sem er í hagnaðarskyni eða ekki.

Það sem skiptir höfuð máli við mat á því hvort lögin eigi við er hvort starfsemi haldi einkennum sínum. Evrópudómstóllinn gaf ákveðnar leiðbeiningar hvað þetta varðar í máli sínu C-24/85 (Spijkers) .

Meðal annars er horft til eftirfarandi atriða við mat á því hvort starfsemi haldi einkennum sínum:

  • Tegund fyrirtækis – hvernig fyrirtæki er um að ræða?
  • Eru áþreifanleg verðmæti framseld?
  • Hvert er verðmæti óefnislegra  eignavið framsal?
  • Flyst meirihluti starfsmanna á milli lögaðila?
  • Heldur framsalshafi viðskiptavinum sínum?
  • Leggst reksturinn af tímabundið?
  • Er reksturinn sambærilegur fyrir og eftir aðilaskiptin?

Þótt ákveðin atriði bendi til þess að aðilaskipti sé að ræða þarf ekki að vera að um aðilaskipti sé að ræða þar sem heildarmat ræður för.

Íslenskir dómstólar virðast jafnframt leggja álíka nálgun til grundvallar við úrlausn álitaefna, sbr. m.a. eftirfarandi dómaframkvæmd:

Hrd. 222/2006 (Jökull á Raufarhöfn)
Í máli Hæstaréttar nr. 222/2006 (Jökull á Raufarhöfn) er fjallað um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Fiskvinnslan J ehf. fór í endurskipulagningu á rekstri sem leiddi til þess að öllu starfsfólki fyrirtækisins, alls 50 manns var sagt upp í tveimur áföngum. Nýtt félag G tók á leigu allar húseignir J ehf. sem notaðar höfðu verið við fiskvinnsluna og nýtti þau tæki sem nýta mátti. J ehf. tók einnig að sér að fjármagna ýmsar breytingar á húsakynnum og vélakosti. Framleiðslan og starfsemin héldu áfram með sambærilegum hætti og áður, þó með nýjum rekstraraðila en G réði til sín 20 fyrrverandi starfsmenn J ehf. Niðurstaða Hæstaréttar var að um aðilaskipti hefði verið að ræða þar sem G var talið hafa tekið við efnahagslegri einingu af J ehf. sem hélt einkennum sínum. .

Hrd. 289/2005 (Ferðaskrifstofa Akureyrar)
Ágreiningur var um hver ætti að bera ábyrgð á að efna ráðningarsamning sem gerður var við framkvæmdarstjóra fyrirtækisins Í ehf. sem seldi hluta starfseminnar til F ehf. Í kaupsamningi sem gerður var milli framseljanda og framsalshafa „um hluta af starfsemi framseljanda og tilgreindar eignir hans“ kom fram í 1. gr. að um væri að ræða „rekstur ferðaskrifstofu“ ásamt hluta af tækjum og búnaði, starfssamningum, viðskiptasamningum, viðskiptasamböndum og öðru sem tilgreint er í samningi þessum.“ Var talið ljóst, með hliðsjón af leiðbeiningum úr máli Spijkers, að starfsemin hefði haldið einkennum sínum og þ.a.l. væri um að ræða aðilaskipti í skilningi laganna og framkvæmdastjórinn hélt því þeim réttindum og skyldum sem hann hafði notið hjá fyrri rekstraraðila.

Hrd. nr. 313/2005 (Tjónmat og skoðun)
Í þessu máli var deilt um laun í uppsagnarfresti hjá nýjum vinnuveitanda. Það lá fyrir að starfsemi tengd þeim rekstri sem eftir stóð fluttist í heild sinni yfir til nýs vinnuveitanda sem og þjónusta við alla þáverandi viðskiptavini fyrri rekstraraðila. Taldi dómurinn, þegar þessi atvik voru metin í heild, að þegar nýi vinnuveitandinn yfirtók umrætt verkefni hafi orðið aðilaskipti að efnahagslegri einingu sem hafi haldið einkennum sínum í skilningi laganna. Þ.a.l. gat viðkomandi starfsmaður beint kröfum sínum um greiðslu launa í uppsagnarfresti að nýjum atvinnurekanda.

Hrd. 435/2002 (Kaffi Bistró – aðilaskiptun hafnað)
Í málinu var deilt um hvort yfirtaka A á miðasölu og pakkaafgreiðslu sem K hafði annast fyrir A, skv. sérstökum samningi þar um, hafði falið í sér aðilaskipti. Dómurinn tók mið af hversu afmarkaður þáttur slík starfsemi hafði verið í rekstri K. Um var að ræða starfsemi sem var ekki innt af hendi af starfsmönnum, sem sinntu henni eingöngu, heldur var hún samofin veitingarrekstri. Gat þessi þjónusta þ.a.l. ekki talist hafa verið efnahagsleg eining sem haldið hefði sérkennum sínum þegar A tók sjálft við henni vegna vanskila viðsemjanda síns og sinnt henni á sama stað, enda var þetta óhjákvæmilegur þáttur í starfsemi A. Var hér ekki talið að yfirtakan fæli í sér aðilaskipti í skilningi laganna og gat starfsmaður ekki beint kröfu sinni um uppsagnarfrest að A.

Réttarvernd starfsfólks við aðilaskipti?

Réttindi og skyldur við aðilaskipti
Meginregla laganna er að réttindi og skyldur framseljanda skv. ráðningarsamningi, sem fyrir hendi eru á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað, færast yfir til framsalshafa, þar með talið vanefndir framseljanda á skyldum sínum við aðilaskiptin.

Framsalshafa ber einnig að virða þau launakjör og starfsskilyrði sem starfsmenn höfðu undir stjórn framseljanda skv. kjarasamningum og gildir sú regla þangað til gildistími kjarasamnings er liðinn, honum hefur verið sagt upp með löglegum hætti eða nýr kjarasamningur öðlast gildi. Réttarstaða starfsmanna ætti því ekki að breytast vegna þess að nýr vinnuveitandi tekur við rekstri fyrirtækis.

Vernd gegn uppsögn
Þegar aðilaskipti eiga sér stað er óheimilt að segja upp starfsmönnum nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi sem hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi fyrirtækis. Lögin gera þannig ekki ráð fyrir því að aðilaskipti ein og sér geti verið ástæða uppsagnar starfsmanna.

Trúnaðarmenn
Við aðilaskipti helst staða trúnaðarmanna óhögguð, þ.e.a.s. að trúnaðarmaður heldur stöðu sinni eftir að aðilaskipti ganga í gegn af því gefnu að fyrirtækið renni ekki inn í annað félag. Að öðrum kosti skulu starfsmenn eiga sér fulltrúa þar til nýr trúnaðarmaður hefur verið valinn.

Missi trúnaðarmaður umboð sitt við aðilaskipti, skal hann eftir sem áður njóta þeirrar verndar sem lög eða kjarasamningar kveða á um varðandi vernd trúnaðarmanna.

Er upplýsinga- og samráðsskylda til staðar?

Við aðilaskipti ber framsalshafa og/eða framseljanda að gefa trúnaðarmönnum, eða starfsmönnum sjálfum séu trúnaðarmenn ekki fyrir hendi, upplýsingar um:

  • dagsetningu aðilaskiptanna eða fyrirhugaða dagsetningu þeirra,
  • ástæður sem liggja til grundvallar aðilaskiptum,
  • lagaleg, efnahagsleg og félagsleg áhrif aðilaskiptanna fyrir starfsmenn,
  • hvort ráðstafanir séu fyrirhugaðar vegna starfsmanna.

Vinnuveitanda ber að veita þessar upplýsingar með góðum fyrirvara áður en aðilaskipti koma til framkvæmda. Starfsmenn þurfa þannig að geta kynnt sér efni yfirlýsingar vinnuveitanda og leitað sér aðstoðar ef slíkt telst nauðsynlegt.

Ekki er lögð skylda á vinnuveitanda að hafa samráð við trúnaðarmenn líkt og lög um hópuppsagnir gera ráð fyrir. Hins vegar ef vinnuveitandi hyggst gera ráðstafanir vegna starfsmanna skal hann hafa samráð um þær með góðum fyrirvara við trúnaðarmenn starfsmanna, eða starfsmenn sjálfa séu trúnaðarmenn ekki fyrir hendi, með það að markmiði að ná samkomulagi.

Ef uppsagnir eru fyrirhugaðar í tengslum við aðilaskipti í þeim mæli að það falli undir lög um hópuppsagnir ber vinnuveitanda skylda til að hafa samráð við trúnaðarmenn.

Hver eru viðurlög við brotum á lögunum?

Vinnuveitandi sem af ásettu ráði eða gáleysi brýtur gegn lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002 varðar skaðabótaskyldu. Á þetta sérstaklega við þegar vinnuveitandi virðir ekki launakjör og starfsskilyrði starfsmanna, verndina gegn uppsögn og skylduna til upplýsinga og samráðs.