Fæðingarorlof
Með fæðingarorlofi er samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 144/2020 átt við leyfi frá launuðum störfum sem stofnast við:
(a) fæðingu,
(b) frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða,
(c) töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.
Réttur foreldris til fæðingarorlofs er bundinn því skilyrði að foreldri fari með forsjá barnsins ýmist eitt eða sameiginlega með öðru þegar taka fæðingarorlofs hefst. Forsjárlaust foreldri á þó rétt til fæðingarorlofs liggi fyrir samþykki forsjárforeldris um umgengisrétt umrætt tímabil. Maki eða sambúðarmaki kynforeldris nýtur ekki réttar til fæðingarorlofs.
Foreldrar á almennum vinnumarkaði eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi að nánari skilyrðum uppfylltum.
Hvenær má taka fæðingarorlof?
Rétturinn stofnast við fæðingu
Réttur til fæðingarorlofs stofnast við fæðingu barns. Foreldri er engu að síður heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með vottorði ljósmóður.
Fellur niður við 24 mánaða aldur
Rétturinn fellur niður þegar barnið nær 24 mánaða aldri. Umsóknum um greiðslur eftir þann tíma er því hafnað af Fæðingarorlofssjóði, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála 26. ágúst 2015 ( 8/2015 ) og 24. september 2015 ( 12/2015 ).
Undantekning er þó gerð í tilviki barns sem er ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur. Í þeim tilvikum er miðað við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina nema foreldrar þurfi að sækja barnið til annarra landa en þá getur fæðingarolof hafist við upphaf ferðar. Rétturinn fellur niður í þessum tilvikum 24 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið.
Hverjir eiga rétt á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði
Foreldri á innlendum vinnumarkaði, nýtur réttar til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða fyrir þann tíma sem barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur.
Hefji foreldri töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, skal miða fæðingarorlof þess við þann dag er það hefur fæðingarorlof.
Hafi foreldri starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skal, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabils þess sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki EES-samningsins eða Færeyjum.
Starfsmaður
Með starfsmanni er í lögunum átt við einstakling sem vinnur launað starf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.
Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf.
Orlof, leyfi, atvinnuleysi, veikindatímabil foreldris eða langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna geta talist til unninna stunda á vinnumarkaði.
Samfellt starf í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði
Skilyrðið um sex mánuði á innlendum vinnumarkaði hefur í réttarframkvæmd verið túlkað samkvæmt orðalagi sínu. Sem dæmi um það má nefna að barnshafandi nema sem réði sig til vinnu og eignaðist barn nokkrum dögum áður en hún hafði unnið samfellt í sex mánuði var hafnað um greiðslur, með úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála 15. október 2015 ( 13/2015 )( Neminn ).
Greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og fjármögnun
Sjá um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs en þar er einnig að finna leiðbeinandi reiknivél .
Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með tryggingagjaldi , sbr. lög um tryggingagjald auk vaxta af innstæðufé sjóðsins, sbr. lög um fæðingarorlof .
Lengd fæðingarorlofs
Fæðingarorlofsrétturinn er sjálfstæður réttur hvors foreldris í allt að sex mánuði. Foreldri er heimilt að framselja sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins.
Fjölburar
Foreldrar eiga sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt sem fæðist á lífi. Sama gildir um ættleiðingu og töku barna í varanlegt fóstur.
Foreldri sem fætt hefur barn á vera í orlofi a.m.k. tvær vikur
Foreldri sem fætt hefur barn á skv. fæðingarorlofslögum að vera í fæðingarorlofi a.m.k. fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. Í úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála 29. janúar 2015 ( 23/2014 ) var fæðingarorlof móður sem hafði ekki skráð sig í fæðingarorlof fyrstu tvær vikurnar eftir barnsburð skert sem því nam.
Veikindi eða fötlun barns
Heimilt er að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefst nánari umönnunar foreldris. Fæðingarorlofssjóður metur hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg, sbr. 19. gr. fæðingarorlofslaga.
Til þess að foreldri öðlist rétt samkvæmt ákvæðinu þarf að vera um að ræða alvarlegan sjúkleika barns í þeim skilningi að annað hvort sé um meðfæddan sjúkdóm að ræða eða alvarlegar afleiðingar fæðingar fyrir tímann, á þann hátt að hinn meðfæddi sjúkdómur eða afleiðingar fæðingar fyrir tímann, valdi því að barnið krefjist nánari umönnunar foreldris, sbr. úrskurður úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála 14. desember 2013 ( 80/2012 ).
Veikindi foreldris í tengslum við fæðingu barns
Ef foreldri er ófær um að annast barn sitt vegna veikinda í tengslum við fæðingu að mati sérfræðilæknis er heimilt að framlengja fæðingarorlof foreldris um allt að tvo mánuði, sbr. 1. mgr. 17. gr. fæðingarorlofslaga.
Veikindi á meðgöngu
Ef barnshafandi foreldri er nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar niður frá þeim tíma, sbr. 1. mgr. 17. gr. fæðingarorlofslaga.
Sjá nánar 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði en þar er tiltekið að með heilsufarsástæðum sé átt við sjúkdóma sem:
a) koma upp vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,
b) tímabundna eða langvarandi sjúkdóma sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni,
c) fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.
Rökstyðja þarf þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis.
Auk þess skal umsækjandi um lengingu á fæðingarorlofi leggja fram staðfesting vinnuveitanda þar sem fram kemur hvenær launagreiðslur féllu niður.
Andvanafæðing og fósturlát
Fæðist barn andvana eftir 22 vikna meðgöngu eiga foreldrar sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar sameiginlega rétt á fæðingarorlofi í allt að tvo mánuði frá þeim degi er fósturlátið á sér stað, sbr. 1. mgr. 21. gr. fæðingarorlofslaga.
Um önnur tilvik vísast til fæðingarorlofslaga og heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs .
Tilkynning um töku fæðingarorlofs
Tilkynning til vinnuveitanda
Starfsmaður þarf að tilkynna vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi átta vikum fyrir fyrirhugaðan fæðingardag barns ef hann hyggst nýta sér rétt til fæðingarorlofs, sbr. 12. gr. fæðingarorlofslaga .
Fæðist barn fyrir áætlaða töku fæðingarorlofs gildir ekki sami tilkynningarfrestur. Fæðingarorlof barnshafandi foreldris hefst í síðasta lagi á fæðingardegi og fyrirhugað fæðingarorlof foreldra getur hliðrast til um þær vikur sem barn fæðist fyrir tímann óski foreldrar eftir því. Sama á við ef barn fæðist eftir áætlaðan fæðingardag.
Vilji foreldri breyta áður tilkynntum upphafsdegi fæðingarorlofs ber því að tilkynna það vinnuveitanda þremur vikum fyrir hinn nýja fyrirhugaða upphafsdag.
Tilkynning skal vera í því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafrænu eða skriflegu, og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Þá skal vinnuveitandi árita tilkynninguna um móttökudagsetningu, og afhenda starfsmanninum afrit hennar. Vinnuveitandinn þarf að gæta þess að halda eftir eintaki af tilkynningunni til eigin nota.
Vinnuveitandi getur krafist sönnunar á að foreldri fari með forsjá barnsins eða að fyrir liggi samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof forsjárlausa foreldrisins stendur yfir, telji hann þess þörf.
Umsókn til Vinnumálastofnunar
Foreldri skal sækja um greiðslu í fæðingarorlofi til Vinnumálastofnunar sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Vilji foreldri hefja fæðingarorlof fyrir áætlaðan fæðingardag ber því að tilkynna það Vinnumálastofnun þremur vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag fæðingarorlofs.
Sjá umsóknareyðublað á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs .
Tilhögun fæðingarorlofs
Réttur til að taka fæðingarorlof í einu lagi
Starfsmaður á rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi eða með öðrum hætti, sbr. 13. gr. fæðingarorlofslaga, nr. 144/2020 . Foreldri á því rétt á að taka þá sex mánuði sem það á sjálfstæðan rétt til auk þess tíma sem heimilt er að framselja milli foreldra. Starfsmaður getur því mest verið samfellt í fæðingarorlofi í sjö og hálfan mánuð hafi foreldri framselt sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins.
Heimilt að semja um að fæðingarorlof skuli tekið með öðrum hætti
Vilji starfsmaður ekki taka út fæðingarorlofið í samfellu getur hann með samkomulagi við vinnuveitanda hagað fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli eða launalausu leyfi. Fæðingarorlof skal þó aldrei tekið skemur en í tvær vikur í senn.
Mikilvægt er að gengið sé frá slíku samkomulagi með skýrum og ótvíræðum skriflegum hætti.
Samþykki vinnuveitandi ekki óskir starfsmanns um að skipta niður fæðingarorlofi á fleiri tímabil eða taka það samhliða vinnu skal vinnuveitandi og starfsmaðurinn komast að samkomulagi um aðra tilhögun fræðingarorlofsins innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar.
Vinnuveitanda ber að gera það skriflega og tilgreina ástæður fyrir breyttri tilhögun. Náist ekki samkomulag á starfsmaður ávallt rétt á að taka fæðingarorlof sitt í einu lagi frá þeim upphafsdegi sem hann ákveður.
Uppsöfnun réttinda
Lögbundið fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku, Þ.e.a.s. til frís en ekki orlofslauna þann tíma sem foreldri er í fæðingarorlofi, lengingar orlofs skv. kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta, sbr. 14. gr. fæðingarorlofslaga .