Sjúkdómar

Starfsmenn eiga rétt á launum verði þeir óvinnufærir vegna sjúkdóms, enda séu skilyrði launaréttar uppfyllt að öðru leyti.

Almennt yrði miðað við skilgreiningu lækna á því hvort um sjúkdóm sé að ræða. Dómstólar hafa þó lokaorðið í þeim efnum. Í flestum tilvikum er enginn vafi um hvort starfsmaður sé haldinn sjúkdómi en oft geta þó komið upp vafamál.

Fjarvistir vegna læknisrannsókna, tannlækninga, áfengismeðferðar og valkvæðra aðgerða falla almennt utan greiðsluskyldu.

Sérstaklega er fjallað um Covid-19 og sóttkví hér á vefnum .

Læknisskoðun

Læknisskoðanir almennt ekki greiðsluskyldar
Vinnuveitanda er almennt ekki skylt að greiða starfsmanni vinnutap vegna læknisskoðunar. Starfsmaður uppfyllir ekki skilyrði laga um að vera „óvinnufær“.

Jafnvel þótt starfsmaður hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms, en vitjar læknis til eftirlits eftir að hann er orðinn vinnufær, er slík heimsókn ekki greiðsluskyld, sbr. dóm Hæstaréttar 321/1991 (1994, bls. 58) en í því máli taldi Hæstiréttur að starfsmaður sem fór í hjartaþræðingu hafi ekki verið óvinnufær af þeim sökum. Hann átti því ekki rétt til launa í þeim fjarvistum.

Læknisskoðanir og rannsóknir skv. vinnuverndarlögum
Fjarvistir vegna læknisskoðana og rannsókna sem framkvæma ber samkvæmt XI. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eru hins vegar greiðsluskyldar. Í þessu sambandi má benda á heyrnarmælingar starfsmanna.

Fjarvistir barnshafandi kvenna
Sérstakar reglur gilda einnig um fjarvistir barnshafandi kvenna vegna mæðraskoðunar samkvæmt kjarasamningi ASÍ og SA. Barnshafandi konur eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar án frádráttar á föstum launum þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.

Veikindi á meðgöngu

Sömu reglur gilda
Enginn greinarmunur er gerður á sjúkdómum á meðgöngu og öðrum sjúkdómum. Skilyrði þess að kona eigi rétt til veikindalauna á meðgöngu er að um ákveðinn tilgreindan sjúkdóm sé að ræða og að hún sé óvinnufær vegna sjúkdómsins, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 347/1987 (1989, bls. 185)

Þungun ekki sjúkdómur
Þungun sem slík telst ekki sjúkdómur. Ráðleggingar eða fyrirskipanir læknis um hvíld leiða ekki til þess að konan eigi rétt á veikindalaunum nema sannað sé að það sé vegna sjúkdóms sem leitt hefur til óvinnufærni. Þreyta á meðgöngu telst ekki sjúkdómur.

Hugsanlegur réttur úr fæðingarorlofssjóði
Jafnvel þó óráðlegt eða jafnvel ómögulegt sé fyrir konu að stunda vinnu sína allan meðgöngutímann nýtur hún ekki réttar til launa frá vinnuveitanda sínum. Hún kann hins vegar að eiga rétt til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði þurfi hún að leggja niður launuð störf vegna vinnuaðstæðna eða af öryggisástæðum, sbr. 11. og 17. gr. laga um fæðingarorlof nr. 144/2020 .

Frjósemis- og ófrjósemisaðgerðir

Forföll vegna frjósemisaðgerða eða ófrjósemisaðgerða eru ekki greiðsluskyld. Þessar aðgerðir eru ekki viðbrögð við óvinnufærni og því ekki á áhættu vinnuveitanda.

Þótt sjúkdómur kunni að hafa valdið ófrjósemi þá breytir það engu. Slíku ástandi verður ekki jafnað til óvinnufærni af völdum sjúkdóms.

Forföll vegna fóstureyðingar eru ekki greiðsluskyld, nema hún sé framkvæmd vegna þess að lífi og heilsu móður sé hætta búin.

Áfengissýki / áfengismeðferð

Ekki greiðsluskyld veikindi
Forföll vegna áfengissýki eða áfengismeðferðar eru ekki greiðsluskyld, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 109/1982 (1984, bls. 439) og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 220/2007 . Breytir þar engu þótt áfengissýki kunni að teljast sjúkdómur í merkingu læknisfræðinnar.

Stéttarfélög greiða oft sjúkradagpeninga
Sjúkrasjóðir stéttarfélaga greiða á hinn bóginn flestir sjúkradagpeninga þurfi félagsmaður að fara í áfengismeðferð.

Ef vinnuveitandi vill koma til móts við starfsmann sem fer í áfengismeðferð má gera við hann samkomulag um að vinnuveitandi greiði hluta launataps, t.d. mismun launa og sjúkradagpeninga, ljúki starfsmaður meðferð og komi full vinnufær aftur til starfa.

Tannsjúkdómar

Tannlækningar / tannréttingar
Fjarvistir vegna tannlækninga / tannréttinga eru ekki greiðsluskyldar nema um sjúklegt ástand sé að ræða og viðkomandi sé óvinnufær af þeim völdum.

Tannsjúkdómar
Fjarvistir vegna tannsjúkdóma eru greiðsluskyldar, á sama hátt og aðrir sjúkdómar, enda séu önnur skilyrði launaréttar uppfyllt.

Lýtalækningar

Fjarvistir vegna lýtalækninga almennt ekki greiðsluskyldar
Fjarvistir starfsmanna vegna lýtalækninga eru ekki greiðsluskyldar skv. lögum eða kjarasamningum enda ekki um fjarvistir að ræða vegna sjúkdóms sem leitt hefur til óvinnufærni. Í þessum tilvikum er einstaklingurinn vinnufær þegar hann fer í læknisaðgerð en verður síðan óvinnufær af hennar völdum.

Lýtaaðgerð nauðsynleg vegna sjúkdóms eða slyss
Ef lýtaaðgerð er nauðsynleg vegna afleiðinga annarra sjúkdóma eða slysa og er til þess fallin að lækna sjúklegt ástand getur verið um greiðsluskyldu að ræða. Óvinnufærni verður þó ávallt að vera sönnuð til þess að um greiðsluskyldu sé að ræða, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 117/1990 (1991, bls. 484) og nr. 283/1991 (1994, bls. 64).

Atvinnusjúkdómur

Í lögum og kjarasamningum eru ákvæði um aukinn veikindarétt starfsmanna vegna fjarvista sem stafa af atvinnusjúkdómum.

Atvinnurekendi getur auk þess orðið skaðabótaskyldur vegna tjóns sem starfsmaður verður fyrir af völdum skaðlegs og óforsvaranlegs vinnuumhverfis.

Hvað er atvinnusjúkdómur?
Með hugtakinu atvinnusjúkdómur er átt við sjúkdóm, sem á frumorsakir sínar að rekja til þeirrar vinnu sem starfsmaðurinn stundar.

Í greinargerð með 4. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla er sérstaklega tekið fram, að atvinnusjúkdómur verði að „ eiga rætur að rekja til þeirrar vinnu, sem viðkomandi stundar.“

Í reglugerð um tilkynningu og skráningu atvinnusjúkdóma, nr. 540/2011 er hugtakið skýrt sem: Sjúkdómur sem orsakast af vinnu eða aðstæðum í starfsumhverfi.

Það hvílir á starfsmanninum að sanna að frumorsakir sjúkdómsins megi rekja til starfsumhverfisins, að tengsl séu á milli sjúkdómsins og vinnunnar, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 333/2010 .

Á heimasíðu Vinnueftirlits ríkisins er að finna lista yfir atvinnusjúkdóma sem Vinnueftirlit ríkisins óskar eftir að séu tilkynntir.

Atvinnutengdur sjúkdómur

Gera verður greinarmun á atvinnusjúkdómum og atvinnutendum sjúkdómum. Í tilviki atvinnusjúkdóma getur komið til aukinn launaréttur í veikindum og skaðabótaskylda, sbr. umfjöllun hér að ofan, en þær reglur eiga ekki við um atvinnutengda sjúkdóma.

Hvað er atvinnutengdur sjúkdómur?
Hugtakið atvinnutengdur sjúkdómur er skilgreint svo í reglugerð um tilkynningu og skráningu atvinnusjúkdóma, nr. 540/2011 :

Sjúkdómur eða sjúkdómsástand sem kemur fram, versnar eða ágerist vegna vinnu eða aðstæðna í starfsumhverfi en telst þó ekki orsakast beint af vinnu eða aðstæðum í starfsumhverfi.

Vinnuveitanda ber að halda skrá
Reglur nr. 540/2011 eiga hvort tveggja við um atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma og gilda sambærilegar reglur í báðum tilvikum um skráningar og tilkynningar.

Vinnuveitanda ber að halda skrá yfir þá sjúkdóma sem hann hefur rökstuddan grun eða vitneskju um að eigi rætur sínar að rekja til tiltekins starfs eða annarra aðstæðna á vinnustað.

Vinnuveitandi skal skrá óhöpp
Þá ber vinnuveitanda að skrá óhöpp sem eru til þess fallin að valda slysum á fólki, svo sem mengun vegna efna sem geta haft skaðleg áhrif á heilsu fólks.

Fara skal með persónuupplýsingar úr skránni sem trúnaðarmál. Vinnueftirlit ríkisins skal hafa aðgang að skránni.

Stofnast ekki til sérstaks veikindaréttar
Ekki stofnast sérstakur veikindaréttur vegna atvinnutengdra sjúkdóma eins og gildir um atvinnusjúkdóma, sjá Atvinnusjúkdómur .