08. maí 2024

Biðin eftir vaxtalækkun lengist enn

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Biðin eftir vaxtalækkun lengist enn

Það voru vonbrigði að hagtölur gæfu ekki tilefni til að draga úr taumhaldi peningastefnunnar að þessu sinni. Spenna í hagkerfinu virðist vera meiri en áður var talið, aðallega vegna endurskoðaðra talna Hagstofunnar, sem vörpuðu betra ljósi á hagtölur síðustu missera. Útlit er fyrir að baráttan við verðbólguna taki lengri tíma hér en í öðrum löndum. Af sögunni að dæma kalla slíkar aðstæður á að raunvextir séu nokkuð háir í lengri tíma en ella.

Athygli vekur að verðbólguspá bankans hliðraðist talsvert upp á við - gert er ráð fyrir að lengri tíma taki að koma verðbólgu í markmið en seinasta spá bankans gaf til kynna. Það sem af er ári hefur verðbólgan verið meiri en bankinn spáði í byrjun árs. Að auki gerir meiri spenna en áætlað var það að verkum að verðbólgumarkmiðið færist fjær. Nýgerðir kjarasamningar vega á móti með minni hækkun launakostnaðar en áætlað hafði verið. Hefðu samningarnir falið í sér meiri launahækkanir má gera ráð fyrir að horfurnar hefðu versnað enn frekar.

Launaskrið skiptir máli

Launaskrið, þ.e. launahækkanir umfram kjarasamningsbundnar hækkanir, virðist vera peningastefnunefnd hugleikið en í yfirlýsingu nefndarinnar segir:

“Áhrif nýgerðra kjarasamninga og aðgerða í ríkisfjármálum á eftirspurn eru ekki að fullu komin fram. Þótt hægt hafi á vinnumarkaði er spenna enn til staðar sem gæti ýtt undir launaskrið með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu.”

Eins og SA hafa bent á er verkefninu hvergi nærri lokið. Þó hagfelld niðurstaða hafi náðst með gerð stefnumarkandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á opinberi markaðurinn enn eftir að semja, sem og fleiri aðilar á almenna markaðinum. Því til viðbótar gæti launaskrið skapað aukinn verðbólguþrýsting. Náist samstaða um að halda aftur af þeim þrýstingi sem myndast á verðlag vegna launahækkana mun það skila auknum kaupmætti til heimilanna í formi minni verðbólgu og lægri vaxtakostnaðar, öllum til hagsbóta.

Versnandi verðbólguhorfur áhyggjuefni

Í nýundirrituðum kjarasamningum er að finna forsenduákvæði þess efnis að mælist ársverðbólga yfir 4,95% í ágúst 2025 og yfir 4,7% í ágúst 2026 sé heimilt að segja samningunum upp. Því er mikið kappsmál að ná verðbólgu í markmið sem fyrst – stöðugleiki á vinnumarkaði, og þar með í efnahagslífinu öllu, er undir. Kjósi opinberi vinnumarkaðurinn að taka ekki þátt í því verkefni munu allir tapa.

Eins og peningastefnunefnd bendir á í yfirlýsingu sinni er enn nokkur spenna í hagkerfinu og þá eiga áhrif samninganna sem og aðgerða yfirvalda enn eftir að koma fram í hagtölum. Jákvæðu tíðindin eru þau að verðbólguvæntingar virðast vera að gefa eftir. En betur má ef duga skal og virðist nefndin ekki ætla að hefja vaxtalækkunarferli fyrr en fleiri hagvísar benda í rétta átt.

Óbreyttir stýrivextir eru mikil vonbrigði fyrir fyrirtæki landsins jafnt sem heimilin. Sterk samstaða hefur ríkt um mikilvægi þess að ná tökum á verðbólgunni svo vaxtalækkanir geti hafist en hætta er á að úr henni dragi ef árangur lætur á sér standa. Aðilar hins almenna vinnumarkaðar hafa lagt sitt af mörkum með gerð kjarasamninga sem styðja við þessi markmið. Nú ríður á að hið opinbera sýni sömu ábyrgð í verki, hvort sem snýr að kjarasamningum eða opinberum fjármálum. Þegar vel árar, líkt og gert hefur undanfarin ár, þarf að nýta þann meðbyr sem fæst til að rétta af reksturinn og styðja við peningastefnuna. Enn á ný eru boðaðar fyrirætlanir hins opinbera í þeim efnum vonbrigði.

Samtök atvinnulífsins