1 MIN
Yfirlýsing frá SA vegna umfjöllunar um launakjör ræstingarfólks
Undanfarna áratugi hafa aðilar vinnumarkaðarins byggt upp öflugan, öruggan og góðan vinnumarkað sem vert er að standa vörð um. Samtök atvinnulífsins leggja ætíð áherslu á að fyrirtæki og félagasamtök spili eftir leikreglunum og fylgi lögum og samningum.
Þegar Stöðugleikasamningarnir voru gerðir í upphafi ársins 2024 var samið um sérstakar breytingar á launakjörum ræstingarfólks með það markmið að hækka lágmarkskjör ræstingarfólks. Samninganefnd ræstingarfyrirtækja innan Samtaka atvinnulífsins stóð einhuga að baki þessum breytingum.
Samtök atvinnulífsins, Starfsgreinasambandið og Efling hafa frá síðastliðnu hausti unnið í sameiningu að því að móta sameiginlegar úrbótatillögur vegna innkaupa á ræstingarþjónustu. Hefur hópurinn meðal annars unnið formlega beiðni til Fjársýslunnar með það fyrir augum að stofnað verði til samtals um úrbætur við hið opinbera sem kaupanda þjónustunnar.
Samtök atvinnulífsins eru málsvari heilbrigðs vinnumarkaðar þar sem lög og kjarasamningar eru virt í hvívetna, bæði af hálfu atvinnurekenda og starfsfólks. Fyrirtæki innan vébanda samtakanna lúta þeirri ríku áherslu að standa vörð um góðan aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum ásamt því að taka vel á móti aðfluttum sem hingað eru komnir til að starfa.
Komi upp álitamál um framkvæmd kjarasamninga geta aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins leitað til samtakanna. Að sama skapi geta stéttarfélög óskað eftir því við samtökin að þau leiðbeini aðildarfyrirtækjum sínum um rétta framkvæmd kjarasamninga.
Samtök atvinnulífsins hafa lengi talað fyrir einföldun kjarasamninga, en þeir eru oft flóknir í framkvæmd og það er keppikefli Samtaka atvinnulífsins að styðja við atvinnulífið við að gera hlutina rétt hér eftir sem hingað til.