21. febrúar 2025

Íslenskur vinnumarkaður

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Íslenskur vinnumarkaður

Ný skýrsla um stöðu og sérkenni íslensks vinnumarkaðar.

Í dag kom kom út glæný skýrsla um vinnumarkað á Íslandi sem hefur verið í vinnslu hjá Samtökum atvinnulífsins síðustu mánuði. Tilgangur þessarar skýrslu er að veita heildstæðar upplýsingar um kjarasamninga, launaþróun, efnahagslegt svigrúm til launabreytinga, stöðuna á vinnumarkaði, samkeppnisstöðu atvinnulífsins gagnvart hinu opinbera og það regluverk sem snertir vinnumarkaðinn og vænta má á næstu árum í gegnum EES samninginn.

Á Íslandi renna um 60% allrar verðmæta sem við sköpum til launafólks. Laun eru gjarnan einn stærsti útgjaldaliður íslenskra fyrirtækja að aðföngum undanskildum. Launakostnaður er jafnframt stærsti útgjaldaliður íslenska ríkisins eða hátt í helmingur, þegar lagður er saman beinn launakostnaður og fjárframlög til almannatrygginga sem nú stendur til að tengja við launavísitölu.

Það er því mikilvægt að félagsmenn Samtaka atvinnulífsins hafi greinargóðar upplýsingar um stöðu vinnumarkaðarins, gerð kjarasamninga og þróun launa við ákvarðanatöku. Það er von okkar að með þessari útgáfu séu fyrirtækin betur í stakk búin að taka góðar ákvarðanir þegar kemur að launamálum og styðja við hagsmunagæslu atvinnulífsins þegar kemur að framþróun íslensks vinnumarkaðar.

Hægt er að skoða skýrsluna hér og upptöku frá fræðslufundi um skýrsluna má finna á vinnumarkaðsvef SA .

Samtök atvinnulífsins