1 MIN
Alda hlýtur Menntasprota atvinnulífsins 2025
Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í dag fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Arion banki er Menntafyrirtæki ársins og Alda hlýtur Menntasprotann 2025. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins afhentu verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór á Hilton Nordica í dag.
Alda er Menntasproti atvinnulífsins 2025
Alda býður upp á hugbúnaðarlausn með leikjavæddum örnámskeiðum sem efla vinnustaði í aðgerðum er varða fjölbreytileika og inngildingu, og stuðlar þannig að betra starfsumhverfi. Kjarninn í starfsemi Öldu er nýsköpun í fræðslu og menntun og með stuðningi gervigreindar er örfræðsluáætlun sérsniðin fyrir hvern vinnustað.
Alda var stofnuð árið 2022 en lausnin var gefin út fyrir rúmlega ári og á þessum stutta tíma hefur náðst frábær árangur.
Í umfjöllun dómnefndar kemur fram að Alda sé leiðandi í nýsköpun í fræðslu og menntun og leggur sín lóð á vogarskálarnar til að efla fjölbreytileika og inngildingu með gagnadrifnum fræðslulausnum á vinnustöðum og samfélaginu í heild.
Dagurinn er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þvert á atvinnugreinar.
Yfirskrift menntadagsins í ár var Störf á tímamótum.