1 MIN
Tilnefningar til Menntaverðlauna atvinnulífsins 2025
Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Hilton Nordica þriðjudaginn 11. febrúar í tilefni af Menntadegi atvinnulífsins 2025. Á fjórða tug tilnefninga bárust í ár og nú hefur dómnefndin tilkynnt þau fyrirtæki sem þóttu skara fram úr í fræðslu- og menntamálum.
Verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum, annars vegar menntafyrirtæki ársins og hins vegar menntasproti ársins, og koma tilnefnd fyrirtæki úr fjölbreyttum greinum. Menntaverðlaunin voru afhent í fyrsta skipti árið 2014.
Hér eru tilnefningarnar ásamt stuttri lýsingu frá dómnefndinni:
Menntafyrirtæki ársins
Arion banki
- Framsækið og faglegt fræðslustarf. Starfsfólk þróar námsefnið á frumlegan hátt, fræðsluvísitala er innbyggð í fræðslustarfið og vel er haldið utan um starfsþróun innan fyrirtækisins.
BM Vallá
- Metnaðarfull nálgun í fræðslumálum. Fyrirtækið hefur mótað skýra fræðslustefnu sem styður við starfsþróun, eflir hæfni og skapar jákvætt vinnuumhverfi.
BYKO
- Markviss fræðsla, nýsköpun og stuðningur við starfsfólk tryggja fyrirtækinu betri þjónustu og bætta upplifun viðskiptavina.
Menntasproti ársins
Alda
- Fyrirtækið býður upp á hugbúnaðarlausn með leikjavæddum örnámskeiðum sem efla vinnustaði í aðgerðum hvað varðar fjölbreytileika og inngildingu á vinnustað. Með stuðningi gervigreindar er örfræðsluáætlun sérsniðin fyrir hvern vinnustað.
Atlas Primer
- Fyrirtækið er framarlega í notkun gervigreindar í menntun og hefur þróað aðstoðarkennara sem aðlagar sig að þörfum hvers nemanda. Lausnin styður kennara í að búa til sérsniðið námsefni sem eykur skilvirkni og bætir námsárangur.
BYKO
- Fyrirtækið sker sig úr í starfsmannafræðslu með nýstárlegri þjálfun, tækninýjungum og framtíðarhugsun.
Dómnefnd menntaverðlaunanna í ár skipa þau Sigrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs, menningar og vellíðunar hjá Bláa lóninu (menntafyrirtæki ársins 2023), Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa (menntafyrirtæki ársins 2022), Valur Hólm Sigurgeirsson, fræðslustjóri ELKO (menntafyrirtæki ársins 2024), og Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Bara tala (menntasproti ársins 2024).
Skráning á menntadaginn er í fullum gangi hér á heimasíðu SA.