Viðurlög
Breytingar hafa vera gerðar á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum („vinnuverndarlög“) sem tóku gildi 1. janúar 2025. Vinnueftirlitinu er í fyrsta sinn veitt heimild til að leggja á stjórnvaldssekt fyrir brot á tilteknum ákvæðum laganna.
Stjórnvaldssektarheimildin nær bæði til starfsfólks og atvinnurekenda og skiptir ekki máli við ákvörðun stjórnvaldssekta hvort brotið hafi verið framið af ásetningi eða gáleysi. Ákvörðun um stjórnvaldssektir getur beinst jafnt gegn atvinnurekanda og starfsfólki. Stjórnvaldssektir verða þó ekki á sama tíma lagðar á starfsfólk og atvinnurekanda. Brot á tilteknum greinum vinnuverndarlaga geta jafnframt varðað sektum og allt að tveggja ára fangelsi.
Sjá umfjöllun um helstu atriði sem vert er að hafa í huga í þessu sambandi hér að neðan en félagsmönnum er jafnframt bent á umfjöllun Vinnueftirlitsins um efnið sem má nálgast hér .
Hvaða brot varða stjórnvaldssektum?
99. gr. a. laganna hefur að geyma heimild til að leggja á stjórnvaldssektir á atvinnurekendur og eftir atvikum verkkaupa, fulltrúa þeirra, framleiðanda, innflutningsaðila eða dreifingaraðila ef :
- Brotið er gegn ákvæðum um stöðvun vinnu eða lokun starfsemi
- brotið er gegn ákvæðum um bann við markaðssetningu eða við notkun vöru
- brotið er gegn ákvæðum um bann við framleiðslu, flutningi eða notkun hættulegra efna
- um ítrekuð brot gegn fyrirmælum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum
- brotið er gegn banni við asbest
- verkkaupi tilkynnir ekki vinnustað áður en verklegar framkvæmdir hefjast
- brotið er gegn ákvæðum um ráðningu barna til vinnu, sbr. 60. gr. eða ungmenni eru ráðinn við hættulegur aðstæður, sbr. 62. gr.
- látið er hjá líða að tilkynna um vinnuslys til Vinnueftirlitsins þar á meðal þar sem hættuleg efni eða efnavörur geta valdið mengun
- brotið er á reglum um hvíldartíma, vikulegan frídag og hámarksvinnutíma starfsfólks með stórfelldum hætti og alvarlega
- brotið er gegn ákvæðum um hættuleg efni og efnavörur með stórfeldum hætti
- stofnunni eru veittar rangar eða ófullnægjandi upplýsingar að mati hennar um þau atriði sem veita skal stofnunni upplýsingar um
- brotið er á vinnuverndarlögum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra og brotið veldur loftmengun eitraðra eða eldfimra eða hættulegra efna, sprengihættu, klemmihættu, skurðhættu, fallhættu eða hættu á hruni jarðvegs, verkpalls, vörustæðu, gáma, kerja eða burðarvirkis sem skapar verulega hættu fyrir líf eða heilbrigði starfsfólks.
Hvað telst vera atvinnurekandi í skilningi vinnuverndarlaga?
Í 12. gr. laganna er að finna skilgreiningu á hugtakinu „atvinnurekandi“ en hugtakið tekur til atvinnurekanda sem rekur atvinnustarfsemi, þ.e.a.s. þann sem fer með skipulagða aðgerð eða framkvæmd, hvort sem um vinnustað er að ræða eða ekki. Er það framkvæmdarstjóri sem telst vera atvinnurekandi í merkingu laganna, sbr. 3. mgr. 12. gr. og er því stjórnvaldssektum beint að honum. Þetta þýðir að sektir verða ekki gefnar út á lögaðila heldur persónu, nánar tiltekið framkvæmdarstjóra fyrirtækisins.
Hvernig brot varða stjórnvaldssektir á starfsfólk?
Vinnueftirlitinu er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á starfsfólk sem brýtur gegn banni við notkun tiltekins tækis, sem er hluti af 99. gr. laganna, og broti gegn 6. mgr. 45. gr. laganna, sem kveður á um að einungis sá sem hefur öðlast fullgild réttindi til að stjórna viðkomandi vél samkvæmt reglum sem settar eru á grundvelli 3. mgr. 49. gr. megi vera stjórnandi hennar.
Hversu háar geta stjórnvaldssektir verið?
Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á starfsfólk geta numið allt að 1.000.000 kr. og stjórnvaldssektir á atvinnurekendur allt að 15.000.000 kr. Við ákvörðun ber Vinnueftirlitinu m.a. að líta til alvarleika brots, hve lengi það hefur staðið yfir, hvort um sé að ræða ítrekað brot og samstarfsvilja þess sem á í hlut. Ef um er að ræða atvinnurekanda þarf einnig að líta til umfang atvinnurekstursins.
Hvaða brot varða sektum eða 2 ára fangelsi?
Í 99. gr. vinnuverndarlaga er að finna ákvæði sem kveður á um að brot gegn tilgreindum reglum geti varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi ekki þyngri refsing við brotunum samkvæmt öðrum lögum. Umrætt ákvæði nær til:
- Brota gegn 27. gr. laganna, sem fjallar um fjarlægingu hlífðarbúnaðar af tækjum.
- Brot atvinnurekanda eða verkstjóra gegn 1. eða 2. mgr. 86. gr., sem fjallar um skyldu atvinnurekanda eða verkstjóra til að stöðva starfsemi eða tryggja að starfsmenn hverfi frá vinnustað við bráða hættu á heilsutjóni eða slysum.
- Stórfelld eða ítrekuð brot gegn 1. mgr. 14. gr., 2. mgr. 23. gr., eða 3. mgr. 80. gr., sem fjalla um skyldu atvinnurekanda eða verkstjóra til að upplýsa og tryggja öryggi starfsfólks gagnvart slysa- og sjúkdómshættu, grípa til ráðstafana við hættu og tilkynna óhöpp og hættuleg efni tafarlaust.
- Brot gegn 8. mgr. 46. gr. sem segir að enginn megi stjórna vél, sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en ekki flokkað sem vélknúið ökutæki skv. 43. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, ef hann telst óhæfur vegna lyfjaneyslu eða er undir áhrifum áfengis eða fíkniefna yfir leyfilegum mörkum skv. 48.–50. gr. umferðarlaga.
- Annara brota gegn ákvæðum laganna og/eða ákveðna reglna eða reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli laganna ef brotið leiðir til alvarlegs slyss eða dauða starfsmanns eða annarra eða alvarlegs óhapps þar sem verulegar líkur hafa verið á því að afleiðingarnar hefðu getað orðið þær sömu.