Veikindi
Gerður er greinarmunur á því hvort starfsmaður veikist áður en til orlofstöku kemur eða hvort hann veikist eftir að orlof er hafið .
Starfsmaður veikist áður en orlof hefst
Í 6. gr. orlofslaga er kveðið á um hvernig með skuli fara geti starfsmaður vegna veikinda ekki farið í orlof á þeim tíma sem vinnuveitandi ákveður. Ákvæðið er svohljóðandi:
Geti starfsmaður ekki vegna veikinda farið í orlof á þeim tíma sem vinnuveitandi ákveður skv. 5. gr. skal hann sanna forföll sín með læknisvottorði. Getur starfsmaður þá krafist orlofs á öðrum tíma og skal orlofið ákveðið í samráði atvinnurekanda við starfsmanninn skv. 5. gr. en þó eins fljótt og unnt er eftir að veikindunum lýkur.
Orlofstaka starfsmanns frestast og hann fær greidd laun í veikindum í samræmi við áunninn veikindarétt.
Skilyrði er að starfsmaðurinn geti ekki farið í orlofið vegna veikinda. Þannig geta komið upp þau tilvik að starfsmaður sé ekki fær um að vinna, þ.e. óvinnufær, en getur engu að síður tekið orlof.
Viðmiðið er hvort starfsmaðurinn getur notið orlofsins en ekki vinnufærnin.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar nr. 56/2013 verður við skýringu ákvæðisins að miða við hvort starfsmaðurinn geti tekið sér fyrir hendur flest það sem menn gera í venjulegu orlofi en ekki við þær sérstöku kröfur sum kunna að vera gerðar til þess að starfsmenn í tilteknum störfum teljist vinnufærir.
Sanni starfsmaður þau forföll sín með læknisvottorði getur hann krafist orlofs síðar en þó eins fljótt og unnt er eftir að veikindum lýkur.
Í ofangreindu máli hafði starfsmaðurinn skilað inn læknisvottorði um að hann væri óvinnufær á orlofstímabilinu en það var ekki talið sanna að hann hefði verið ófær um að vera í orlofi.
Starfsmaður veikist í orlofi
Veikist starfsmaður eða slasast eftir að orlof hans er hafið fer um rétt hans til uppbótarorlofs skv. kjarasamningum.
Veikindi barna starfsmanns veita ekki rétt til uppbótarorlofs.
Skilyrði réttar til uppbótarorlofs.
Ef starfsmaður uppfyllir öll neðangreind skilyrði á hann rétt á uppbótarorlofi í jafnlangan tíma og veikindin sannanlega vöruðu.
- Starfsmaður veikist það alvarlega að hann getur ekki "notið orlofsins", þ.e. tekið sér fyrir hendur flest það sem menn gera í venjulegu orlofi.
- Starfsmaður veikist í orlofi innanlands, í landi innan EES - svæðisins, Sviss, Bandaríkjanna eða Kanada.
- Hann tilkynni vinnuveitanda um veikindin á fyrsta degi veikinda, t.d. með símskeyti, rafpósti eða á annan sannanlegan hátt, nema force major ástæður hindri en þá um leið og því ástandi léttir.
- Í tilkynningu til vinnuveitanda skal koma fram hvaða læknir annist hann eða muni gefa út læknisvottorð.
- Veikindin standi lengur en í 3 sólarhringa. Tilfallandi veikindi í 2-3 daga í nokkur skipti er ekki hægt að leggja saman.
Læknisvottorð og vitjun
Starfsmaður skal ávallt færa sönnur á veikindi sín með læknisvottorði. Fyrirtæki á rétt á að láta lækni vitja starfsmanns er veikst hefur í orlofi.
Ákvörðun um töku uppbótarorlofs vegna veikinda
Starfsmaður sem veikist í orlofi sínu er eftir sem áður í orlofi þann tíma sem orlofið var ákveðið. Staða hans er óbreytt hvað það varðar. Hann á því hvorki rétt á "staðgengilslaunum" né öðrum viðbótargreiðslum vegna þess tíma.
Hann á hins vegar að fyrrgreindum skilyrðum uppfylltum, rétt til uppbótarorlofs. Orlofslaun vegna uppbótarorlofs eru greidd við töku þess orlofs. Þá er eðlilegt að miða við sömu laun og hann fékk aðra orlofsdaga.
Uppbótarorlof skal eftir því sem kostur er veitt á þeim tíma sem starfsmaður óskar á tímabilinu 2. maí til 15. september nema sérstaklega standi á.
Leiði samráð vinnuveitanda við starfsmann ekki til samkomulags gildir meginreglan um að vinnuveitandinn á endanlega ákvörðun um það hvenær orlofstakan fer fram.