Vinnumarkaðsvefur

Áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað

Það er skylda fyrirtækja að tryggja góðan aðbúnað á vinnustað, heilsusamlegt og öruggt vinnuumhverfi. Í því felst meðal annnars að greina þá áhættuþætti sem falist geta í vinnuumhverfinu og framkvæma skriflegt áhættumat.

Samkvæmt vinnuverndarlögum nr. 46/1980 ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem byggir á áhættumati. Markmiðið er að stuðla að öryggi og heilbrigði starfsfólks og koma í veg fyrir heilsutjón vegna vinnunnar eða vinnuumhverfisins.

Í áhættumati skal vinnuveitandi m.a. greina áhættuþætti eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustaðnum. Sjá nánar hér um forvarnir og viðbrögð þegar mál koma upp.

Hvernig á áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað að vera?

Áætlunin skal tryggja að vinnuverndarstarf fyrirtækis verði markvisst.

Markmið áætlunarinnar er að gefa gott yfirlit yfir áhættu- og álagsþætti og forvarnir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á heilsutjóni og slysum vegna vinnuaðstæðna og til að stuðla að öryggi, heilbrigði og véllíðan starfsmanna.

Það er hlutverk vinnuveitanda að sjá til þess að áætlun um öryggi og heilbrigði sé framfylgt í daglegri starfsemi fyrirtækisins og að vinnuverndarstarfið sé órjúfanlegur þáttur hennar.

Starfsmönnum ber á hinn bóginn að stuðla að því að vinnuaðstæður innan verksviðs þeirra séu fullnægjandi að því er varðar vinnuvernd. Þeir skulu einnig stuðla að því að þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru í því skyni að stuðla að aukinni vinnuvernd skv. lögum nr. 46/1980 og reglugerð nr. 920/2006 sé framfylgt.

Þá skal starfsmaður upplýsa vinnuveitanda sinn og eða fulltrúa hans, svo sem verkstjóra, öryggisvörð, öryggistrúnaðarmann eða félagslegan trúnaðarmann starfsmanna án tafar telji hann að á vinnustað sé tiltekin slysa- eða sjúkdómshætta.

Árangur af hinu kerfisbundna starfi skal metin reglulega í samráði við öryggisvörð og öryggistrúnaðarmann eða öryggisnefnd fyrirtækisins og úrbætur gerðar eftir því sem niðurstöður árangursmatsins gefa tilefni til.

Áætlunin skal fela í sér ferli stöðugra umbóta og áður en breytingar eru gerðar á starfsemi fyrirtækis skal vinnuveitandi meta, hvort þær feli í sér áhættu með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og hvort úrbóta sé þörf. Áætlunin skal vera aðgengileg starfsmönnum viðkomandi fyrirtækis og starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins óski þeir þess.

Árlega skal gerð samantekt yfir vinnuslys, óhöpp og atvinnutengda sjúkdóma sem upp hafa komið frá síðustu samantekt.

Áætlun um öryggi og heilbrigði felur meðal annars í sér (i) áhættumat og (ii) áætlun um heilsuvernd og forvarnir.

Áhættumat

Í áhættumati er metin áhætta í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Áhættumat á vinnustað er gert út frá fimm meginstoðum vinnuverndar. Þær eru; efni og efnahættur, félagslegt vinnuumhverfi, hreyfi og stoðkerfi, tæki og vélbúnaður og umhverfisþættir, sjá umfjöllun á heimasíðu Vinnueftirlitsins.

Við áhættumatið skal hafa hliðsjón af eðli starfseminnar sem og stærð og skipulagi fyrirtækis. Jafnframt skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum. Vega ber saman alvarleika hættunnar og líkurnar á því að hætta skapist.

Fyrirtækjum er frjálst að velja þá aðferð sem hentar þeim enda sé hún fallin til þess að greina þá áhættu sem getur verið til staðar í fyrirtækinu. Áhættumat skal þó ávallt fela í sér:

  • Greiningu á vinnuaðstæðum og áhættuþáttum í vinnuumhverfi og vinnuskipulagi
  • Mati á öllum áhættuþáttum sem séu metnir, þ.e. alvarleiki, umfang og orsök hættunnar
  • Samantekt á niðurstöðum áhættumatsins.

Í áhættumati skal meðal annars greina áhættuþætti eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1009/2015 .

Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn eða eftir atvikum félagslegur trúnaðarmaður starfsmanna eiga að taka þátt í gerð áhættumats og fylgjast með því hvernig því er framfylgt.

Á heimasíðu Vinnueftirlitsins er að finna frekari upplýsingar og hjálpargögn við gerð áhættumats ásamt verkfærum við gerð rafræns áhættumats.

Gefi áhættumat á vinnustað til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin skal vinnuveitandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hættuna eða, þar sem þess er ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt.

Áætlun um heilsuvernd og forvarnir

Vinnuveitandi ber ábyrgð á því að gera áætlun um heilsuvernd og forvarnir þegar áhættumat liggur fyrir.

Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn eða eftir atvikum félaglegur trúnaðarmaður starfsmanna eiga að taka þátt í gerð áætlunar um heilsuvernd og forvarnir og fylgjast með því hvernig henni er framfylgt.

Markmið áætlunar um heilsuvernd og forvarnir er að gefa gott yfirlit yfir áhættu- og álagsþætti og forvarnir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á heilsutjóni og slysum vegna vinnuaðstæðna og til að stuðla að öryggi, heilbrigði og vellíðan starfsmanna.

Áætlunin skal fela í sér að gerðar séu nauðsynlegar úrbætur í samræmi við niðurstöður áhættumatsins. Jafnframt skal tilgreint til hvaða aðgerða er gripið af hálfu vinnuveitanda til að koma í veg fyrir eða draga úr þeirri áhættu sem kom í ljós við áhættumatið, svo sem úrbætur varðandi skipulag og framkvæmd vinnunar, leiðbeiningar, fræðslu, þjálfun, val á tækjum, efnum eða efnablöndum, notkun öryggis- eða hlíðfarbúnaðar, innréttingar á vinnustað eða aðrar forvarnir.

Forgangsraða skal úrbótum sem grípa þarf til vegna áhættu á vinnustað og tímasetja hvenær þeim verði lokið. Þegar í stað skal bregðast við bráðri áhættu og þeirri áhættu sem auðvelt er að koma í veg fyrir. Í viðauka I með reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum er nánar fjallað um almenn viðmið um forvarnir.

Í áætlun um heilsuvernd og forvarnir skal vera áætlun um forvarnir. Þar skal koma fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundnu áreitni og ofbeldi á vinnustað. Í áætluninni skal vinnuveitandi gera grein fyrir þeim aðgerðum sem grípa skal til komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um framangreind tilvik á vinnustað, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 1009/2015 . Sjá nánar hér umfjöllun um einelti, áreitni og ofbeldi.

Þegar áhættan hefur verið metin á þann hátt sem nauðsynlegt er skulu forvarnarráðstafanir felldar inn í alla starfsemi vinnustaðarins á öllum stigum þar sem þær eiga við. Vinnuveitanda ber að laga þessar ráðstafanir að breyttum kringumstæðum og hafa að markmiði að bæta ríkjandi aðstæður.

Eftirfylgni og endurskoðun

Það er hlutverk vinnuveitanda að tryggja eftirfylgni að úrbótum loknum með því að meta úrbætur að ákveðnum tíma liðnum og gera endurbætur ef þörf krefur.

Áætlun um öryggi og heilbrigði skal endurskoðuð þegar breytingar á vinnuaðstæðum, vinnutilhögun eða framleiðsluaðferðum breyta forsendum hennar. Að sama skapi skulu þeir þættir áætlunarinnar endurskoðaðir sem eiga við þegar vinnuslys eða alvarleg óhöpp verða eða komi upp atvinnutengdir sjúkdómar eða önnur atvik eða aðstæður sem benda til áhættu.

Heilsufarsskoðun

Þeir starfsmenn sem vinna við vinnuaðstæður þar sem (i) hætta er á því að heilsutjón geti hlotist af og (ii) ástæða er til þess að ætla að með heilsufarsskoðunum megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma, eiga rétt á því að fara í heilsufarsskoðun á kostnað vinnuveitanda áður en þeir eru ráðnir til starfa, meðan þeir eru í starfi og þegar við á eftir að þeir eru hættir störfum, sbr. 1. mgr. 67. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 .

Heilsufarsskoðun varðar starfsskilyrði starfsmanna en er ekki ætlað að ná til almennra heilsugæslu vegna tilfallandi sjúkdóma eða óþæginda.

Heilsufarsskoðunin skal vera í höndum heilbrigðisstarfsmanna og taka mið af áhættumati viðkomandi fyrirtækja og starfsgreina og einnig þeim reglum sem í gildi eru um mismunandi starfshópa.

Sérstakar reglur gilda um heilsufarsskoðanir þeirra starfsmanna sem falla undir (i) reglugerð nr. 921/2006 um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum, (ii) reglugerð nr. 922/2006 um varnir gegn álagi vegna vélræns titrings á vinnustöðum og (iii) reglugerð nr. 165/2011 um varnir gegn álagi vegna tilbúinnar ljósgeislunar.

Vinnuveitandi skal tryggja að heilsufarsskoðun valdi ekki tekjutapi starfsmanna.