Jafnaðarkaup
Í kjarasamningum er samið um dagvinnulaun og álagsgreiðslur ef unnið er utan dagvinnutímabils eða umfram fullt starf. Er því gert ráð fyrir að lágmarkstímakaup sé mismunandi eftir því hvenær vinnan er innt af hendi.
Kallar á stöðuga aðgæslu
Stundum er greitt jafnaðarkaup, þ.e. sama kaup fyrir alla unna tíma jafnt á dagvinnutímabili sem utan þess. Jafnaðarkaup má þó ekki leiða til þess að starfsmaður beri minna úr býtum en ef hann hefði fengið greitt dagvinnu- og yfirvinnukaup eða dagvinnukaup og vaktaálag / eftirvinnukaup samkvæmt kjarasamningi. Þetta fyrirkomulag kallar því á stöðuga aðgæslu.
Verði vinna utan dagvinnutímabils meiri en gert var ráð fyrir við útreikning jafnaðarkaups þarf að gæta að því að heildarkjör starfsmanns verði ekki lakari en ef laun hefðu verið reiknuð í samræmi við ákvæði kjarasamninga.
Semja þarf um jafnaðarálag í ráðningarsamningi
Ganga þarf frá slíku fyrirkomulagi tryggilega í ráðningarsamningi enda meginregla að greitt sé vaktaálag / eftirvinnukaup eða yfirvinnukaup utan dagvinnutímabils.
Almennt forsenda að vinnutími sé reglubundinn
Ef vinnutími starfsmanns er ekki reglubundinn þá er mjög varasamt að greiða jafnaðarkaup, enda engar forsendur fyrir útreikningi.