Starfsmannaleigur

Fyrirtæki hafa í auknum mæli leitað til starfsmannaleiga til að bregðast við skorti á starfsfólki. Þegar skipt er við starfsmannaleigu þarf fyrst og fremst að hafa í huga að um sé að ræða skráða starfsmannaleigu og að fyrirtækið beri traust til hennar.

Samkomulagi SA og ASÍ um starfsmannaleigur frá 12. apríl 2018 er ætlað að auka traust til starfsemi starfsmannaleiga og tryggja réttindi starfsmanna þeirra.

Með samkomulaginu er starfsmannaleigum skipt í þrennt:

  • Viðurkenndar starfsmannaleigur. Starfsmannaleigur, sem verið hafa í starfsemi um skeið og hafa áunnið sér almennt traust á markaðnum, geta sótt um sérstaka viðurkenningu samráðsnefndar ASÍ og SA. Þær njóta sérstöðu m.t.t. ábyrgðar notendafyrirtækja á launum.
  • Starfsmannaleigur sem undirgengist hafa launaeftirlit af hálfu stéttarfélaga. Með því að undirgangast launaeftirlit getur starfsmannaleiga aukið traust til starfsemi sinnar. Hún getur að loknum reynslutíma og að öðrum skilyrðum uppfylltum sótt um stöðu sem viðurkennd starfsmannaleiga.
  • Aðrar starfsmannaleigur.

Samkvæmt lögum nr. 139/2005 um starfsmannaleigur, eins og þeim bar breytt með l ögum nr. 75/2018, munu notendafyrirtæki bera ábyrgð á vangoldnum launum starfsmanna starfsmannaleiga, nema um sé að ræða starfsmannaleigu sem fengið hefur viðurkenningu samráðsnefndar ASÍ og SA. Sjá nánar um ábyrgðina í frumvarpi til laganna (sjá 36. gr. frumvarpsins og athugasemdir á bls. 71 - 75) og í umfjöllun hér að neðan.

Síðast uppfært: Júlí 2018

Skráðar starfsmannaleigur

Skráðar starfsmannaleigur má finna hér á síðu Vinnumálastofnunar .

Hverjar eru skyldur notendafyrirtækis?

Skyldur notendafyrirtækja eru tilgreindar í 4. gr. a. laga um starfsmannaleigur nr. 139/2005 .

Notendafyrirtæki skal óska þess að starfsmannaleiga afhendi skriflega staðfestingu sem hún hefur fengið frá Vinnumálastofnun vegna tilkynningar um starfsemi sína, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Notendafyrirtæki skal tilkynna Vinnumálastofnun ef starfsmannaleiga verður ekki við beiðni um að afhenda staðfestinguna. Óski trúnaðarmaður á vinnustað, eða stéttarfélag ef trúnaðarmaður er ekki til staðar, eftir afriti af staðfestingu skal verða við því.

Á þeim tíma er starfsmaður starfsmannaleigu sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki skal veita honum sama aðgang að hvers konar aðbúnaði og sameiginlegri aðstöðu í notendafyrirtækinu og starfsmenn notendafyrirtækisins njóta, nema mismunandi meðferð verði réttlætt á grundvelli málefnalegra ástæðna, sbr. 2. mgr. 5. gr. a. laganna.

Veita skal starfsmanni starfsmannaleigu, á þeim tíma sem hann sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki, tímanlega upplýsingar um störf sem losna innan notendafyrirtækisins, þ.m.t. hlutastörf, til að hann hafi sömu tækifæri til að vera ráðinn ótímabundið og starfsmenn notendafyrirtækisins, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Heimilt er að veita slíkar upplýsingar með almennum tilkynningum á viðeigandi stað innan notendafyrirtækis.

Sjá einnig hér neðar um skyldur notendafyrirtækis vegna vinnuverndar.

Hvaða laun ber starfsmannaleigu að greiða?

Samkvæmt 5. gr. a. laga um starfsmannaleigur nr. 139/2005 skal starfsmaður starfsmannaleigu á þeim tíma sem hann sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki að lágmarki njóta sömu launa og annarra starfskjara og hann hefði notið ef hann hefði verið ráðinn beint til notendafyrirtækisins til að gegna sama starfi.

Ef notendafyrirtæki er með sambærilega starfsmenn í sömu störfum sem fá greitt hærra en taxta kjarasamnings þá gæti starfsmaður starfsmannaleigu gert kröfu um sömu kjör. Notendafyrirtæki þarf því að upplýsa starfsmannaleigu um hvaða kjör ber að virða. Starfsmannaleigan þarf að gera ráð fyrir þeim viðbótarkostnaði við tilboðsgerð.

Ábyrgð á vangoldnum launum

Notendafyrirtæki ber ábyrgð á vangoldnum launum starfsmanna starfsmannaleiga, nema um sé að ræða starfsmannaleigu sem hlotið hefur viðurkenningu samráðsnefndar SA og ASÍ.

Ábyrgð notendafyrirtækis afmarkast við vangoldin laun sem gjaldfallið hafa síðustu fjóra mánuði áður en krafa starfsmanns berst notendafyrirtæki. Ábyrgðin nær einnig til launatengdra gjalda en ekki vangoldinna orlofslauna. Ef notendafyrirtæki vissi eða mátti vita af bersýnilegri vanefnd má með ákvörðun dómstóla lengja ábyrgðartíma notendafyrirtækisins í allt að tólf mánuði.

Notendafyrirtæki getur gripið til ráðstafana til að takmarka ábyrgð sína:

  • Skipta við starfsmannaleigu sem fengið hefur viðurkenningu SA og ASÍ
  • Framkvæma reglubundið eftirlit með kjörum og launagreiðslum starfsmanna starfsmannaleigu

Sjá nánar 36. gr. frumvarps til breytinga á lögum um starfsmannaleigur og athugasemdir á bls. 71 - 75.

Viðurkenndar starfsmannaleigur

Eftirtaldar starfsmannaleigur eiga aðild að SA og hafa sótt um viðurkenningu á grundvelli samkomulags SA og ASÍ:

Elja
Íslensk verkmiðlun

Ráðning starfsmannaleigustarfsmanns til notendafyrirtækis

Starfsmannaleigu er óheimilt að takmarka rétt starfsmanns, sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis, til að stofna síðar til ráðningarsambands við það fyrirtæki, sbr. 7. gr. laga um starfsmannaleigur nr. 139/2005 .

Dæmi eru um að samningar notendafyrirtækis og starfsmannaleigu kveði á um þóknun til starfsmannaleigunnar kjósi notendafyrirtæki að ráða starfsmanninn beint til sín. Þóknun má ekki vera slík hindrun fyrir beinni ráðningu að stangist gegn ofangreindu lagaákvæði.

Skattamál

Starfsmenn starfsmannaleiga eru skattskyldir samkvæmt almennum skattareglum. Allir sem dvelja hér á landi og njóta launa fyrir störf sín hér skulu greiða tekjuskatt af þeim launum. Skattskylda getur verið takmörkuð á grundvelli tvísköttunarsamninga.

Starfsmannaleiga er launagreiðandi í skilningi laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Standi hún hins vegar ekki réttilega skil á staðgreiðslu ber notendafyrirtæki ábyrgð sem launagreiðandi, sbr. 4. mgr. 7. gr. laganna.

Ef starfsmannaleiga er ekki með heimilisfesti innan EES, EFTA eða í Færeyjum og ekki með starfsstöð á Íslandi ber notendafyrirtæki ábyrgð á að halda eftir staðgreiðslu starfsmanna og standa skil á henni.

Sjá nánar hér á vef Ríkisskattstjóra .

Vinnuvernd

Þegar starfsmaður starfsmannaleigu er við störf hjá notendafyrirtæki ber notendafyrirtæki skyldur atvinnurekanda gagnvart starfsmanninum.

Notendafyrirtæki ber því m.a. skyldur er lúta að öryggi, aðbúnaði og hollustuháttum gagnvart starfsmanninum.

Starfsmenn starfsmannaleiga falla undir reglugerð nr. 433/1997 um ráðstafanir til að bæta öryggi og hollustuhætti starfsmanna í afleysingastarfi eða tímabundnu starfi, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Í því felst m.a. að:

  • notendafyrirtæki skal gera starfsmannaleigu grein fyrir hvaða kröfur eru gerðar til menntunar og starfshæfi og hvert sé sérstakt eðli þess starfs sem starfsmaðurinn á að sinna. Einnig skal gera starfsmanninum grein fyrir þessum upplýsingum
  • upplýsa skal starfsmann áður en hann hefur störf um þá áhættu sem fylgir starfinu. Óheimilt er skv. 4. gr. reglugerðarinnar að senda starfsmann til verka sem geta stofnað öryggi þeirra og heilsu í mikla hættu.