11. Feb

Menntadagur atvinnulífsins 2025

Hero icon

dags

11. febrúar 2025

tími

kl. 09:00 - 12:00

staður

Hilton Nordica

Menntadagur atvinnulífsins fer fram á Hilton Nordica þann 11. febrúar undir yfirskriftinni Störf á tímamótum . Menntadagurinn er sameiginlegt verkefni SA og allra aðildarsamtaka þar sem fræðslu- og menntamál atvinnulífsins eru í forgrunni.

Á deginum verður m.a. 25 ára afmæli starfsmenntasjóðanna fagnað, menntaverðlaun atvinnulífsins afhent og staða menntunar rædd í arinspjall við forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur. Eftir formlega athöfn stendur fólki til boða að taka þátt í tveimur lotum af áhugaverðum málstofum og kynna sér árangur fjölbreyttra fyrirtækja í fræðslu- og menntamálum á sérstöku menntatorgi dagsins.

Húsið opnar kl. 8:30 með léttum morgunverði á menntatorginu fyrir framan aðalsalinn. Formleg dagskrá hefst síðan kl. 9 og verður henni streymt á öllum helstu miðlum. Málstofum verður ekki streymt.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu dagsins.

Fyrri lota af málstofum (10:00 - 10:40):

How do you like atvinnulífið?

Þurfum við öll að kunna íslensku? Ef já hver á þá að kenna okkur íslensku? Hvað er í boði og hver á að borga? Liggur ábyrgðin hjá fyrirtækjum, stjórnvöldum eða starfsfólkinu sjálfu? Á þessari málstofu verður farið yfir áskoranir og ávinning þess að efla íslenskukunnáttu meðal starfsfólks og hvort við þurfum yfir höfuð öll að kunna íslensku?
Málstofustjóri: Hildur Bettý Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.
Örinnlegg: Jón Gunnar Þórðarson, Bara tala, Vanessa Monika Isenmann, sérfræðingur í íslenskukennslu á vinnustöðum hjá Mími og Fjóla María Lárusdóttir sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
Þátttakendur í umræðum: Nicole Leigh Mostly, sérfræðingur hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, Helga Fjóla Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs BM Vallá, Adriana Karolina Pétursdóttir, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs hjá Rio Tinto, og Lísbet Einarsdóttir framkvæmdastjóri Starfsafls.

Starfsánægja og samkeppnishæfni - Fagbréf atvinnulífsins

Á málstofunni verða örinnlegg sem fjalla um mikilvægi þess að gera hæfni fólks í starfi sýnilega, meta hana og staðfesta, bæði fyrir fyrirtæki og starfsfólkið sjálft. Í kjölfarið verða umræður þar sem rædd verður framtíðarsýn og dregnar fram áskoranir og mikilvægi þess að fyrirtæki séu meðvituð um þær leiðir sem hægt er að fara við mat á hæfni og reynslu starfsfólks.
Málstofustjóri: Maj-Britt Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði SA.
Örerindi: Haukur Harðarson, sérfræðingur í aðferðafræði raunfærnimats og hæfnigreiningum hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, og Lilja Rós Óskarsdóttir, mannauðs- og fræðslumál hjá Sláturfélagi Suðurlands.
Þátttakendur í umræðum: Jakob Tryggvason, formaður Félags tæknifólks, Selma Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri SVS, Lilja Rós Óskarsdóttir, mannauðs- og fræðslumál hjá Sláturfélagi Suðurlands, Haukur Harðarson, sérfræðingur í aðferðafræði raunfærnimats og hæfnigreiningu hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, og Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Gjafari, spunagreindarsérfræðingur og orkuskiptari óskast!

Í nútímasamfélagi verða ný störf og nýjar atvinnugreinar til sem endurspegla breyttar áherslur, tækniframfarir og sjálfbærni. Íslenskt samfélag þarf hæft fólk fyrir þessi nýju atvinnugreinar þar sem áhersla er lögð á að skilja tæknina, nýta hana og hugsa á skapandi hátt. Hvernig tryggjum við að þekkingin fyrir þessi nýju störf verði til staðar um allt land, svo Ísland verði áfram í stakk búið til að halda samkeppnisforskoti á alþjóðamarkaði?
Málstofustjóri: Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.
Þátttakendur í umræðum: Sigurgeir Björn Geirsson, verkefnisstjóri Búrfellslundar, Landsvirkjun, Karen Ósk Pétursdóttir, mannauðsstjóri Arnarlax, Bergþóra Halldórsdóttir, starfsmannastjóri hjá Borealis Data, Víðir Reynisson, þingmaður Samfylkingingarinnar, og Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans.

Seinni lota af málstofum (11:00 - 11:40):

Störf framtíðarinnar – áhrif gervigreindar á hæfniþörf

Líkur standa til þess að gervigreind muni breyta vinnumarkaðinum hraðar en við höfum áður séð, og nýlegar tækniframfarir hafa þegar haft mikil áhrif á störf okkar. Á þessari málstofu verður rætt um hvernig gervigreind hefur áhrif á vinnumarkaðinn, framtíðarstörf okkar og þá hæfni sem líklega verður krafist á vinnumarkaði komandi ára. Rætt verður um mikilvægi menntunar í þessu sambandi og hlutverk atvinnulífs og skólakerfis í þeirri vegferð.
Málstofustjóri: Bergþóra Hrönn Guðjónsdóttir, sviðstjóri fræðslusviðs ASÍ.
Þátttakendur í umræðum: Þorsteinn Siglaugsson, sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands og ráðgjafi í hagnýtingu gervigreindar, Dr. Edda Blumenstein, lektor og fagstjóri við Háskólann á Bifröst, Þórunn Grétarsdóttir, fagstjóri námsbrauta hjá Mími, Magnús Oddsson, sérfræðingur hjá Össur, og Helga Hauksdóttir, sérfræðingur hjá Háskóla, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu.

Virkt fræðslustarf skapar betri vinnustað

Málstofan fjallar um nýjustu strauma og stefnur í mennta- og fræðslumálum fyrirtækja með sérstaka áherslu á ólíkar atvinnugreinar. Viðburðurinn hefst á stuttu inngangserindi um mikilvægi þess að fyrirtæki móti skýra menntastefnu og styðji við símenntun starfsfólks. Í kjölfarið fara fram pallborðsumræður þar sem þátttakendur ræða helstu áherslur og áskoranir í fræðslustarfi fyrirtækja og framtíðarhorfur á því sviði.
Málstofustjóri: Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi SAF.
Erindi: Selma Kristjánsdóttir, fagstjóri starfsmenntamála hjá VR.
Þátttakendur í umræðum: Ágústa Björg Bjarnadóttir, mannauðsstjóri Sjóvá, Kristjana Milla Snorradóttir, mannauðsstjóri Travel Connect, Valur Hólm Sigurgeirsson, fræðslustjóri Elko, og Selma Kristjánsdóttir, fagstjóri starfsmenntamála hjá VR.

Gervigreind og námsgögn – menntafyrirtæki og inngilding

Í málstofunni verður fjallað um hvernig gervigreind og nýsköpun stuðla að framþróun í menntun með því að breyta nálgun við gerð námsefnis og einstaklingsmiðað nám. Menntatæknifyrirtæki kynna áhugaverð dæmi sem sýna hvernig samvinna nýsköpunarsamfélags, atvinnulífs og menntakerfis getur skapað betri námstækifæri fyrir alla.
Málstofustjóri: Hulda Birna Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI.
Örerindi: Heiðar Ingi Svansson, framkvæmdastjóri IÐNÚ útgáfu, Ásta Olga Magnúsdóttir, verkefnastjóri Nýsköpunarstofu menntunar, Hinrik Jósafat Atlasson, framkvæmdastjóri Atlas Primer, Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Infomentor og INNA, og Adrien Eiríkur, verkefnastjóri Evolytes.

Skráðu þig hér fyrir neðan