1 MIN
Eyjólfur Árni hættir sem formaður
Eyjólfur Árni Rafnsson, sem verið hefur formaður Samtaka atvinnulífsins frá vorinu 2017, verður ekki í framboði til formanns á aðalfundi samtakanna sem fram fer 15. maí næstkomandi.
Eyjólfur Árni skilur við samtökin í góðu horfi, langtíma kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru í gildi, stefna og sýn samtakanna hefur verið endurmörkuð ásamt stjórnskipulagi og fjárhagsleg staða samtakanna er sterk. Eyjólfur leiddi samtökin í gegnum þrjár kjarasamningslotur sem allar hafa sett sitt mark á íslenskan vinnumarkað, nú síðast Stöðugleikasamningana sem mörkuðu vatnaskil hvað varðar efnahagslegan stöðugleika, baráttuna við verðbólgu og lækkun vaxta. Samtök atvinnulífsins og forveri þeirra, Vinnuveitendasamband Íslands, eiga sögu sína að rekja allt aftur til ársins 1934 en samtökin hafa alltaf verið málsvari íslensks atvinnulífs gagnvart stjórnvöldum og stéttarfélögum auk þess að vera í forystu um samkeppnishæft rekstrarumhverfi og eiga þannig lykilþátt í því að skapa hagsæld á Íslandi. Eyjólfur leiddi samtökin eftir þeim gildum á starfstíma sínum og hann lagði enn fremur sérstaka áherslu á að efla hagsmunagæslu íslensks atvinnulífs á alþjóðlegum vettvangi og hefur verið virkur þátttakandi í starfi á vettvangi systursamtaka Samtaka atvinnulífsins í Evrópu og á Norðurlöndunum.
„Ég vil þakka öllum þeim sem ég hef starfað með á vettvangi SA, stjórnarfólki og starfsfólki samtakanna og aðildarfélögum fyrir traustið síðustu átta ár. Einnig vil ég þakka forsvarsfólki stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði fyrir traust og gefandi samstarf á undanförnum árum. Vissulega greinir okkur oft á en markmiðin eru í stóru myndinni sameiginleg, að treysta og bæta hag fólks en jafnframt standa vörð um öflugt atvinnulíf og stöðugt efnahagsumhverfi.“