1 MIN
Best í að skapa opinbert starfsfólk
Niðurstöður könnunar um færniþörf á vinnumarkaði
Menntadagur atvinnulífsins fór fram í tíunda sinn í febrúar síðastliðnum undir yfirskriftinni Færniþörf á vinnumarkaði. Dagurinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samorku, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins.
Á fundinum kynntu Samtök atvinnulífsins ásamt aðildarsamtökum greiningu á eftirspurn eftir vinnuafli þvert á atvinnugreinar með það að leiðarljósi að skilgreina til hvaða aðgerða þurfi að grípa svo skortur á vinnuafli verði ekki dragbítur á íslensku atvinnu- og efnahagslífi eða dragi úr vexti þess.
Nú liggur fyrir að jákvæðar kerfisbreytingar eru í farvatninu, en fyrr í þessum mánuði kynntu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, tillögur að nýju og skilvirkara kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES . Á kynningunni kom meðal annars fram að nýju kerfi yrði komið á fót sem tæki mið af mannaflaþörf. Vinnumálastofnun yrði falið að greina þarfir vinnumarkaðarins að fenginni ráðgjöf utanaðkomandi sérfræðinga og aðila vinnumarkaðarins.
Það er mikilvægt að hafa í huga að þessi framúrskarandi lífskjör verða ekki til af sjálfu sér.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, skrifaði grein í tilefni Menntadagsins þar sem hann fjallaði meðal annars um mikilvægi menntunar sem eina af undirstöðum verðmætasköpunar. Ásamt því að lífsgæði á Íslandi séu með besta móti og tækifæri hafi verið nýtt til vaxtar með uppbyggingu innviða, mannauðs og nýsköpunar, þá hefur verg landsframleiðsla á mann aukist um helming síðastliðna þrjá áratugi.
„Það er mikilvægt að hafa í huga að þessi framúrskarandi lífskjör verða ekki til af sjálfu sér. Það eru samverkandi þættir allra atvinnugreina sem búa til verðmæti hér á landi og ef við lítum sérstaklega til útflutningstekna vegna heildarútflutnings vöru og þjónustu þá sjáum við að 86% af gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins má rekja til iðnaðar, ferðaþjónustu og sjávarútvegs. Sögulega séð hefur verið tiltölulega lítið atvinnuleysi á Íslandi og við sem þjóð þurft að leita út fyrir landsteinana eftir vinnuafli. Það hefur ekki breyst og raunar hefur viðvarandi skortur á vinnuafli verið þung áskorun fyrir okkar stærstu útflutningsgreinar,“ sagði Halldór Benjamín.
Færniþörf á vinnumarkaði
...raunar hefur viðvarandi skortur á vinnuafli verið þung áskorun fyrir okkar stærstu útflutningsgreinar
Þá hafi nýleg greining Samtaka iðnaðarins sýnt að til þess að hámarka vaxtargetu fyrirtækja í hugverkaiðnaði muni vanta um 9 þúsund sérfræðinga á næstu fimm árum. Það liggi því í augum uppi að íslenskt menntakerfi muni þurfa að mennta fleiri sérfræðinga en ljóst er að það þarf einnig mikinn fjölda erlendra sérfræðinga til starfa hér á landi eigi vaxtaráformin fram að ganga.
„Lykilatriði er að fjárfest sé í réttri menntun og færni. Vaxandi misræmi á milli menntunar og starfa á vinnumarkaði hefur ýmis neikvæð áhrif í för með sér, til dæmis í formi efnahagslegs kostnaðar,“ sagði Halldór Benjamín.
Lífskjör framtíðar verða ekki byggð á opinberri þjónustu
Upplýsingar vinnumarkaðarins um færni- og menntunarþörf í sinni einföldustu mynd byggja á mati á framboði og eftirspurn eftir vinnuafli framtíðinni. Í erindi sínu á Menntadeginum greindi Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, meðal annars frá niðurstöðum könnunar sem Gallup framkvæmdi á mannafla og færniþörf á íslenskum vinnumarkaði.
Könnunin skilaði um margt áhugaverðum niðurstöðum, en til að mynda voru niðurstöðurnar ótvíræðar þegar stjórnendur í atvinnulífinu voru spurðir hversu vel þeir teldu að íslensku menntakerfi myndi takast að uppfylla færniþörf atvinnulífsins til næstu fimm ára. Innan við helmingur taldi að kerfið myndi koma til með að uppfylla þarfir atvinnulífsins vel á tímabilinu. Aftur á móti töldu 59% stjórnenda í opinberri stjórnsýslu að menntakerfið myndi koma til með að mæta færniþörf þeirra mjög eða frekar vel á næstu fimm árum. Þá töldu 42% stjórnenda í iðnaði að menntakerfinu myndi ganga frekar eða mjög illa að mæta færniþörf þeirra á næstu fimm árum. Anna Hrefna varpaði fram spurningunni hvort menntakerfið væri best í að skapa opinbert starfsfólk, en áréttaði einnig mikilvægt hlutverk þess í hagkerfinu.
„Hið opinbera skapar skilyrði til vaxtar með sinni þjónustu og er því ekki síður mikilvægt en það getur ekki verið ráðandi í hagkerfinu og dregið til sín sívaxandi hluta starfandi fólks á vinnumarkaði. Lífskjör framtíðar verða ekki byggð á opinberri þjónustu,” sagði Anna Hrefna.
Í könnuninni sagðist þriðjungur fyrirtækja finna fyrir skorti á starfsfólki í dag og sama hlutfall taldi skort á starfsfólki eiga eftir að standa í vegi fyrir vexti þeirra á næstu fimm árum. Þannig er mest vöntun eftir iðn- og háskólamenntuðu starfsfólki.
Þá skortir rúmlega helming fyrirtækja starfsfólk með iðnmenntun og 36% fyrirtækja starfsfólk með fagmenntun.
„Aðgerðir í mennta- og fræðslumálum er varða námsframboð, breytingar varðandi dvalar- og atvinnuleyfi erlends starfsfólks og öðru sem aukið gætu sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði gagnast best ef ákvörðunin er byggð á áreiðanlegum gögnum. Marktæk spá um færniþörf er þar lykilatriði,” sagði Anna Hrefna.
Ljóst væri að ekki fengist viðunandi niðurstaða ef hver og ein atvinnugrein ynni slíka spá, hver í sínu horni. „Svo unnt sé að taka mark á niðurstöðum er nauðsynlegt að unnin sé ein spá fyrir hagkerfið í heild. Augljóst er að um almannagæði er að ræða. Hið opinbera ætti því að koma að og hafa yfirumsjón með slíku verki og að við í sameiningu ljúkum því verki með þeim leiðum er sérfræðingahópur skilaði af sér 2018. Nauðsynlegt er að gera eftirspurn eftir vinnuafli og framboði góð skil svo hægt sé að skilgreina hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar svo vinnuaflsskortur, hvort sem er um að ræða hæfni og færni eða einfaldlega í fjölda vinnandi handa, verði ekki til þess að vöxtur í atvinnu- og efnahagslífi verði minni en ella hefði orðið.“
„Undanfarin fimmtán ár hefur einn af hverjum fjórum atvinnulausum með háskólamenntun verið viðskipta- eða hagfræðingar. Ég held að við berum bara svolitla ábyrgð á þeirri stöðu. Bæði stjórnvöld og atvinnulífið bera ábyrgð á því að hafa ekki komið með skýrari skilaboð til nemenda sem hefja nám.“ - Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Stærsta áskorun framtíðarinnar
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, nefndi í erindi sínu að ein stærsta áskorun framtíðarinnar fælist í því að greina færni- og menntunarþörf vinnumarkaðarins. „Ekki er lengur hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að Ísland er orðinn mikill eftirbátur annarra Evrópulanda þegar kemur að því að greina færni og menntunarþörf og framkvæma mannaflaspár. Ekki bara á almennum vinnumarkaði, heldur líka á þeim opinbera.“
Þannig nýtist vandaðar greiningar á færni- og mannaflaþörf vinnumarkaðinum í heild - hinu opinbera jafnt sem almenna vinnumarkaðinum. „Þær geta verið mjög mikilvægur þáttur í stefnumótun ólíkra málaflokka, til dæmis varðandi þróun verknáms. Sem liður í þeirri vinnu og til þess að taka skref til framtíðar hvað þetta snertir, þá höfum við í ráðuneyti mennta- og barnamála verið að vinna að spá um þróun nema í framhaldsskólum næsta áratuginn. Þar var tekið tillit til líklegrar mannfjöldaþróunar samkvæmt spá Hagstofu Íslands og stefnu stjórnvalda varðandi skólasókn, bæði ungmenna og þeirra sem eldri eru, ásamt markmiðum um stóraukið vægi starfsmenntunar í landinu.“
Ásmundur Einar nefndi einnig að 33 – 34% framhaldsskólanema hér á landi séu í starfs- og verknámi á meðan meðaltal Norðurlandanna sé 45%. Þá sé hlutfallið 70% í Finnlandi.
„Við gerum ráð fyrir því að fram til ársins 2028 muni nemendum fjölga um 1500 – 1700 í starfsnámi á Íslandi og haldast nokkuð óbreytt til ársins 2033 vegna fyrirséðrar nemendafækkunar þegar kemur fram undir árið 2030.“
Samferða aukningu starfsnema geri spár ráðuneytisins ráð fyrir fækkun nemenda í bóknámi. Slíkar breytingar á samsetningu nemenda í framhaldsskólum kalli á miklar breytingar og endurskoðun á uppbyggingu og fjármögnun framhaldsksólakerfisins.
„Auka þarf fjárfestingu í húsnæði og aðstöðu starfsmenntaskólanna á næstu árum, til að geta tekið á móti auknum fjölda nemenda. Við höfum kynnt drög að framkvæmdaáætlun í ríkisstjórn sem gerir ráð fyrir 10 - 12 þúsund fermetra stækkun átta starfsmenntaskóla vítt og breitt um landið á næstu fimm til sex árum. Að auki er gert ráð fyrir nýrri byggingu höfuðstöðva Tækniskólans í Hafnarfirði.“
Samróma um mikilvægi breytinga
Fjöldi atvinnurekenda og mannauðsstjóra þvert á atvinnugreinar tóku þátt í pallborðsumræðum um færniþörf síns geira og framtíð menntamála á Íslandi.
„Þetta eru mjög trúverðugar niðurstöður og ég tel okkur þurfa að stíga skrefi lengra og greina þetta betur. Menntastefna í iðn- og starfsmenntakerfinu þarf svolítið að taka mið af spá í hagkerfinu - þörfinni fyrir mannafla í heild sinni.“ – Ólafur Jónsson, forstöðumaður Nemastofu.
„Mér fallast pínu hendur yfir þessum niðurstöðum, en þær koma mér samt ekki á óvart. Þetta ýtir enn frekar undir það að við þurfum að horfa á vinnustaði sem námsstaði og fanga þekkinguna sem er þar og byggja undir nýja.“ – Lísbet Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsafls.
„Þar höfum við lent á þessu glerhliði sem er búið til úr þeirri kröfu að allir sérfræðingar séu með háskólamenntun. Þetta glerhlið er í rauninni menntasnobb.“ - Erna Arnardóttir, mannauðsstjóri hjá CCP.
„Við þurfum að stíga stór skref á unglingastigum og í menntaskólum og grípa fyrr inn í þannig að við séum að sjá stelpur koma inn í þessi störf. Þá erum við að gera heilmikið til að byggja undir færniþörf framtíðarinnar.“ - Dröfn Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri hjá Origo.
„Þetta er ekki vandamál hjá okkur en þegar við horfum til framtíðar þá þurfum við að taka einhver skref. Þetta er örugglega einn af fáum geirum innan bankans sem við þurfum að vera í sambandi við háskólana og kynna okkur þar inn til þess að tryggja að við fáum hæfa einstaklinga til að sækja um störf hjá okkur.“ - Sigríður Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri hjá Landsbankanum.