14. febrúar 2023

Færniþörf á vinnumarkaði

Halldór Benjamín Þorbergsson

1 MIN

Færniþörf á vinnumarkaði

Við getum öll sameinast um mikilvægi menntunar. Menntun er ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs og á sér nærri órjúfanlegan feril frá fyrstu árum lífsins til starfsreynslu á vinnumarkaði og símenntunar út æviskeiðið. Ef vel er haldið á spöðunum verður þessi ferill til að auka færni starfsfólks, ýta undir verðmætasköpun og bæta þar með lífskjör okkar allra.

Verðmætin felast ekki síst í hinum íslenska mannauði og samfélagsgerð. Lífsgæði á Íslandi eru með besta móti og hér hafa verið nýtt tækifæri til vaxtar með uppbyggingu innviða, mannauðs og nýsköpunar. Verg landsframleiðsla á mann hefur aukist um 50% síðastliðin 30 ár.

Lífskjör

Það er mikilvægt að hafa í huga að þessi framúrskarandi lífskjör verða ekki til af sjálfu sér. Það eru samverkandi þættir allra atvinnugreina sem búa til verðmæti hér á landi og ef við lítum sérstaklega til útflutningstekna vegna heildarútflutnings vöru og þjónustu þá sjáum við að 86% af gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins má rekja til iðnaðar, ferðaþjónustu og sjávarútvegs. Sögulega séð hefur verið tiltölulega lítið atvinnuleysi á Íslandi og við sem þjóð þurft að leita út fyrir landsteinana eftir vinnuafli. Það hefur ekki breyst og raunar hefur viðvarandi skortur á vinnuafli verið þung áskorun fyrir okkar stærstu útflutningsgreinar.

Skortur á sérfræðingum hefur reynst mikil vaxtarhindrun fyrir hugverkaiðnað og nýleg greining Samtaka iðnaðarins sýnir að það vantar um 9 þúsund sérfræðinga á næstu fimm árum til að hámarka vaxtargetu fyrirtækja í hugverkaiðnaði. Ljóst er að íslenskt menntakerfi þarf að mennta fleiri sérfræðinga en einnig liggur fyrir að mikinn fjölda erlendra sérfræðinga þarf til að fá til starfa hér á landi ef vaxtaráformin eiga að ná fram að ganga.

Í orkugeiranum er aukin þörf á vélfræðingum, jarðfræðingum, verkfræðingum, pípurum, umhverfisfræðingum, rafvirkjum og tæknifræðingum. Stafræn þróun fjármálageirans kallar á allt aðra færni en verið hefur og fjórða iðnbyltingin er alltumlykjandi í verslun og þjónustu. Það er sama hvar við drepum niður fæti í atvinnulífinu. Breytingarnar eru svo áþreifanlegar að þær stara í augun á okkur.

Mikilvægar kerfisbreytingar

Jákvæðar kerfisbreytingar eru í farvatninu til að greiða götu þeirra en við megum engan tíma missa. Nú þegar heyrum við dæmi um stór íslensk fyrirtæki sem hafa flutt hluta starfsemi sinnar úr landi vegna þessa viðvarandi skorts. Í ofanálag liggur fyrir að nauðsynlegt er að ráðast í aukna húsnæðisuppbyggingu til að mæta þessari þörf. Lykilatriði er að fjárfest sé í réttri menntun og færni. Vaxandi misræmi á milli menntunar og starfa á vinnumarkaði hefur ýmis neikvæð áhrif í för með sér, til dæmis í formi efnahagslegs kostnaðar. Við sem erum augu og eyru atvinnulífsins sjáum það að núverandi hagvaxtaspár eru líklega að vanmeta vöxt framtíðar, þá sérstaklega í hugverkaiðnaði.

Menntavegurinn getur verið þyrnum stráður og ekki á færi allra sem hingað koma að nýta menntun sína til fulls og hvort sem um er að ræða erlenda sérfræðinga eða einfaldlega fólk af erlendu bergi brotið, þá er íslenskukennslu ábótavant sem og ótal öðrum þáttum sem hindra aðgengi þeirra að íslensku samfélagi. Þetta vitum við og sjáum. Þessu viljum við breyta.

Gerum betur

Ísland er eftirbátur þeirra ríkja sem við viljum helst bera okkur saman við þegar kemur að því að meta hæfni- og færniþörf til framtíðar. En hér er ekki allt komið á vonarvöl – langt í frá, og þarfir atvinnulífsins eru skýrar. Við þurfum að hvetja fólk til að sækja starfsnám á framhaldsskólastigi, bæta aðstöðu til verknáms og ryðja úr vegi kerfislægum hindrunum með það að markmiði að draga úr brottfalli. Við þurfum einnig að fjölga STEM-menntuðum á vinnumarkaði og fjölga þeim sem velja STEM-greinar í háskóla og útskrifast.

Vinnan er hafin og hún er verðmæt. Nú þurfum við að stíma fulla ferð á að minnka gjána þar á milli þar sem færni mætir þörf. Það er um augljós almannagæði að ræða.

Menntadagur atvinnulífsins verður haldinn í Hörpu í dag. Yfirskrift fundarins er Færniþörf á vinnumarkaði.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins