Kristján G. Jóakimsson
1 MIN
Þurfum að finna frjókornin í frostavetrinum
Kristján G. Jóakimsson, vinnslu- og markaðsstjóri hefur áhyggjur af aukinni skuldsetningu ríkissjóðs. Hann trúir á markaðslögmálin og nýsköpun til að fleyta okkur í gegnum erfiða tíma. Sjávarútvegurinn búi yfir aðlögunarhæfni sem hafi sannast margoft í gegnum tíðina. Hann vonar að handabönd séu siður sem verði lagður niður í menningu okkar.
Stóra verkefnið sem landsmenn standa frammi fyrir að mati Kristjáns G. Jóakimssonar, vinnslu- og markaðsstjóra Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. vestur á fjörðum, er að virkja atvinnulífið og markaðinn í að skapa ný störf. Sennilega liggi ákveðin tækifæri í ástandinu sem skapast hefur vegna heimsfaraldursins, þó engum dyljist þeir miklu erfiðleikar sem mörg fyrirtæki standi frammi fyrir eftir að áhrifa veirunnar fór að gæta hér á landi og um allan heim.
„Til lengri tíma hef ég mestar áhyggjur af skuldsetningu ríkissjóðs. Þetta er auðvitað gríðarlega flókin mynd sem verið er að reyna að vinna úr eftir bestu getu. Hvað varðar hömlur eða skerðingu á ferða og athafnafrelsi okkar hef ég nú haft þann háttinn á að leyfa mér að treysta þeim sérfræðingum í smitvörnum sem hafa verið að sýsla með þessi mál. Þetta er auðvitað kvikult og menn eru ekki í öfundsverðri stöðu af því að þurfa að stýra aðgerðum við þessar aðstæður. Það er hins vegar vont þegar opinberar skuldir verða of miklar, það er klárt mál,” segir Kristján.
„Þetta er auðvitað kvikult og menn eru ekki í öfundsverðri stöðu af því að þurfa aðstýra aðgerðum við þessar aðstæður.“
„Það eru hins vegar engar patentlausnir til, held ég. Ég trúi á markaðslögmálin. Hér þarf að taka tillit til aðstæðna við að örva hagvöxtinn og markaðurinn þarf að aðlaga sig að þessu breytta umhverfi þótt það sé krefjandi. Ég skil vel áhyggjur ferðaþjónustunnar og hvers kyns áhrif aðgerðir stjórnvalda á landamærunum hafa haft á fólk sem á allt sitt undir í þeim geira. En ég hef fulla trú á því að hér spretti upp frjókorn í frostavetrinum, spíri vel og að það taki svo að vora að nýju.”
„En ég hef fulla trú á því að hér spretti upp frjókorn í frostavetrinum, spíri vel og að það taki svo að vora að nýju.“
Hann segir nýsköpun mikilvæga í þeim efnum. „Við í sjávarútvegi höfum þurft að ganga í gegnum ýmislegt í gegnum tíðina og ég veit að aðlögunarhæfni greinarinnar er til staðar. Hún byggir meðal annars á vel skipulögðu og öflugu fiskveiðistjórnunarkerfi sem og mikilli fjárfestingu í tæknivæðingu undanfarin ár, bæði til lands og sjávar. Í okkar 80 ára gamla fyrirtæki búum við jafnframt við að hafa á að skipa úrvals starfsfólki sem brást strax við af mikilli ábyrgð þegar Covid-19 veiran greindist hér á landi í vor.
Við náðum að auka áherslu á að framleiða inn á Asíumarkað þegar allt stoppaði á Vesturlöndum í vor. Bylgjan hófst í Asíu, kemur svo yfir Evrópu og til Bandaríkjanna og við höfum getað nýtt okkur það á ákveðinn hátt, fært til áherslur við veiðar og vinnslu í ákveðna markaði sem hafa þá á hverjum tíma verið líflegri en önnur svæði. 95 prósent af okkar tekjum koma erlendis frá og við erum að reyna eftir fremsta megni að aðlaga okkur þessari heimsmynd, sem breytist líka ört um þessar mundir,” útskýrir Kristján.
Óvænt tækifæri líta dagsins ljós
Fyrirtækið vinnur að stærstum hluta inn á þrjú markaðssvæði; þau eru Bandaríkin, Evrópa og Asía. „Staðan á þessum mörkuðum hafa stærstu áhrifin sem við finnum á okkar rekstri og starfsemi. Þar spilar inn í afurðaverð og hvar fólk er að kaupa okkar afurðir og hvar ekki. Sumar okkar afurða enda í verslunum og aðrar inni á veitingastöðum og það hefur til dæmis mikil áhrif þegar veitingastöðum víða um heim er lokað í stórum stíl.”
Hann segir þó óvænt tækifæri stundum koma upp úr krafsinu. „Við höfum verið að upplifa ákveðin jákvæð dæmi með viðskiptavini erlendis, eins og með hinn klassíska rétt Breta, fish and chips, að okkar stærsti viðskiptavinur þar í landi var fljótur að aðlaga sig að breyttum veruleika þar með því að bjóða markvisst upp á heimsendingu eða þann möguleika að panta í gegnum síma eða netið og fólk gat þá sótt fiskinn og frönskurnar með snertilausum hætti. Í því tilfelli hefur orðið söluaukning í ákveðinni afurð hjá okkur. Svo eigum við eftir að sjá betur, eftir COVID og til lengri tíma litið, hvað situr svo eftir af því.”
„Flöskuhálsinn í að nýta þessa tækni hefur oft verið meiri í höfuðborginni en á landsbyggðinni.“
Vonar að handabönd séu úr sögunni
Hann kemur einnig inn á nýja tækni til samskipta, fundarhöld og annað. „Auðvitað sparar það tíma, peninga og ferðalög, sérstaklega fyrir okkur sem búum úti á landi. Flöskuhálsinn í að nýta þessa tækni hefur oft verið meiri í höfuðborginni en á landsbyggðinni. Þetta er að skila sér. Þó tæknin komi aldrei alveg í stað mannlegra samskipta, þá er full þörf fyrir þetta fyrirkomulag og jákvætt hvernig þróunin hefur orðið þar. Svo hef ég sterklega á tilfinningunni að þessar fjarlægðartakmarkanir hafi jákvæð áhrif á veikindi starfsmanna, svona umgangspestir þó ég hafi nú ekki miklar vísindalegar rannsóknir til að vísa í.
En hér hafa kvefpestir og annað sem hafa áhrif á veikindahlutfall farið niður eftir að Covid-19 aðgerirnar hófust miðað við sama tímabil í fyrra,” segir Kristján, sem sjálfur bjó um skeið í Japan þar sem fólk er ekki vant því að heilsast með handabandi.
„Það er vonandi siður sem situr eftir sem skilar okkur betri heilsu og vellíðan.”
Kristján G. Jóakimsson
Vinnslu- og markaðsstjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar