Viðtöl

1 MIN

Snúa aftur þéttari en nokkru sinni

Helga Árnadóttir

1 MIN

Snúa aftur þéttari en nokkru sinni

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs og þróunarsviðs Bláa Lónsins segir mikilvægt að breyta kjarasamningsumhverfinu á Íslandi, sem sé alltof flókið. Fyrsta skrefið sé að sammælast að minnsta kosti um það hvað sé til skiptanna þegar samið er um kaup og kjör - annars muni höfrungahlaupið einfaldlega halda áfram.

„Ég held að allir í ferðaþjónustu hafi lært af reynslunni. Aukningin í fjölda ferðamanna til landsins á ári var of mikil. Við vorum kannski heldur ekki tilbúin, en í dag erum við á allt öðrum stað. Það er búið að byggja upp heilmikla innviði, við höfum lært mjög mikið, fyrirtækin hafa eflst gríðarlega og stjórnvöld hafa lært inn á greinina. Ég held að það væri skynsamlegast ef við myndum núna sem áfangastaður einblína einna helst á það sem við köllum fágætismarkhóp. Við sjáum það líka núna, eftir faraldurinn, að fólk virðist vilja koma og dvelja lengur, fara hægar yfir og njóta. Við eigum að reyna að höfða til þessa hóps eins og hægt er. Horfa frekar til þess að hafa fólk lengur en að sem flestir komi.”

Oft er sagt að íslenskt atvinnulíf hafi ekki nógu margar stoðir. Við vitum að útflutningsgreinar, það veltur allt okkar á þeim og þeirra gengi. Og sjávarútvegurinn hefur verið okkar mjólkurkú í þessu ástandi þó þeirra rekstur hafi auðvitað breyst eins og annarra í ástandinu. Erum við að gera rétt með því að veðja aftur á ferðaþjónutsuna?

„Ég held að það sé sjálfsagt að veðja á ferðaþjónustuna. En það þarf ekkert bara að veðja á ferðaþjónustu. Við erum til að mynda að veðja á nýsköpunina – þótt það sé auðvitað nýsköpun í ferðaþjónustu eins og í öðrum atvinnugreinum. Við eigum alltaf að vera að horfa til þess að byggja fleiri stoðir undir íslenskt atvinnulíf. En það er klárt mál í mínum huga að við verðum að ná ferðaþjónustunni hratt og örugglega á lappirnar. Hún var að skila tæpum 550 milljörðum í gjaldeyristekjur árlega. Svo er hún byggðastefnuatvinnugrein, ef svo er hægt að segja, og hefur eflt byggðir um allt land. Það er mjög margt jákvætt við þessa atvinnugrein og við megum sannarlega ekki við því að missa hana út úr jöfnunni. Við eigum að tryggja henni ákveðna kjölfestu, en að því sögðu er alveg ljóst að þeim mun fleiri egg í körfunni, því betra,” segir Helga. Hún bætir því við að uppbygging ferðaþjónustu geti haft allt um það að segja að menning langtímaatvinnuleysis festist ekki í sessi. Það sjáist best á nýlegum endurráðningum Icelandair og Bláa Lónsins á um 1.000 starfsmönnum á dögunum.

„Það er mjög margt jákvætt við þessa atvinnugrein og við megum sannarlega ekki við því að missa hana út úr jöfnunni. Við eigum að tryggja henni ákveðna kjölfestu, en að því sögðu er alveg ljóst að þeim mun fleiri egg í körfunni, því betra“

Ferðaþjónustan getur unnið bug á atvinnuleysinu - fljótt

„Við höfum verið svo lánsöm að hafa nægt atvinnuframboð í gegnum árin. Klárlega er ferðaþjónustu vinnuaflsfrek og sú grein sem getur einna helst unnið bug á þessari meinsemd sem atvinnuleysið er á sem skemmstum tíma. Oft er talað um að störf í ferðaþjónustu séu láglaunastörf, en það er að breytast mjög mikið og mjög hratt. Það eru miklar tæknibreytingar, samrunar fyrirtækja, aukin skilvirkni og svo framvegis. Þannig að sérhæfðum störfum í ferðaþjónustu er að fjölga til muna.”

Nú eru að koma kosningar. Hvað finnst þér að stjórnvöld eigi að leggja áherslu á? Hvað þarf að gera til að koma ferðaþjónustunni aftur á koppinn, fljótt?

„Einmitt, það eru kosningar framundan. Ferðaþjónustan er að komast á lappirnar, en það er mikið undir okkur komið, atvinnulífinu og stjórnvöldum að vel til takist. Það sem ég myndi segja að ríði einna helst á er að laga til í rekstrarumhverfi útflutningsatvinnugreinanna almennt. Verðmætasköpun í landinu stendur og fellur með útflutningsgreinum. Hvað ferðaþjónustuna varðar þá er ótrúlega mikilvægt að horfa til samkeppnishæfninnar sérstaklega. Við erum í gríðarlegri samkeppni sem áfangastaður, hvernig getum við eflt okkur í þessari samkeppni? Á Íslandi búum við til dæmis við ofboðslega þungt og flókið regluverk, sem var til að mynda reifað í sérstaklega samkeppnisskýrslu OECD fyrir stuttu og sýnir það svart á hvítu að regluverkið í ferðaþjónustu er miklu flóknara og erfiðara en í samkeppnislöndunum,” útskýrir hún og heldur áfram.

„Það sem ég myndi segja að ríði einna helst á er að laga til í rekstrarumhverfi útflutningsatvinnugreinanna almennt. Verðmætasköpun í landinu stendur og fellur með útflutningsgreinum.“

„Ég myndi vilja að við horfðum til að mynda til þess að leggja af, þó ekki sé nema tímabundið, íþyngjandi skatta og gjöld sem eru margvísleg og mikil í þessari atvinnugrein. Það er endalaust af gjöldum hér og þar. Þar get ég nefnt dæmi eins og gistináttagjaldið, tryggingagjaldið sem okkur er tíðrætt um að lækka. Þá myndi ég vilja sjá stjórnvöld lækka virðisaukaskatt á greinina.”

Það eru mörg önnur lönd sem eiga fallega náttúru

Helga leggur áherslu á að ferðaþjónustan verði byggð upp til þess að líta frekar til gæða en magns. Þá sé mikilvægt að tryggja menntunarstig og möguleika til menntunar. „Þarna þurfa stjórnvöld að setja stefnu. Það þarf að hafa einhvern fyrirsjáanleika í því að stofnanir sem hafa slíkt með höndum sé tryggt fjármagn. Þar nefni ég sem dæmi Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og það góða starf sem er unnið þar. Og svo skiptir markaðssetningin öllu máli,” skýrir hún frá.

„Þó við eigum þetta fallega land og yndislega náttúru, þá eru mjög mörg lönd sem hafa margt og spennandi upp á að bjóða. Við verðum til langrar framtíðar að fjárfesta í markaðssetningu á Íslandi. Í dag er staðan sú að verið er að fjárfesta í og fjármagna markaðssetningu aðeins eitt ár fram í tímann. Það er enginn fyrirsjáanleiki. Það gerir það mjög erfitt að ætla að byggja upp góða strategíu. Það er mikilvægt “

Helga nefnir annað vandamál sem upp hefur komið í tengslum við ferðaþjónustu. „Það vantar eftirlit með þessari erlendu, ólöglegu starfsemi sem hefur þrifist á Íslandi og er algjörlega óþolandi. Alls ekki til þess að jafna samkeppni milli íslenskra og erlendra fyrirtækja nema síður sé. Þarna verða stofnanir að vinna betur saman til að koma í veg fyrir það að erlend fyrirtæki komi inn og nýti sér Ísland sem vöru og spila svo eftir allt öðrum leikreglum en íslensk fyrirtæki. Það verður í versta falli til þess að íslensk fyrirtæki fara bara úr landi. Það er ekki til að hjálpa til við það að byggja hér upp efnahaginn á nýjan leik.”

Alltof margir kjarasamningar

Talandi um efnahagsmálin og vinnumarkaðsmálin, sem sannarlega haldast í hendur. Það varð nokkuð hávær umræða í haust um að rifta hreinlega Lífskjarasamningnum. Það fór fram atkvæðagreiðsla og að lokum var ákveðið að gera það ekki. En hvað segir þú um þetta umhverfi og launaþróunina?

„Já, ég vildi að ég hefði lausnina á því öllu saman,” segir Helga og hlær. „En það er alveg ljóst og ekkert sem á að vera að koma okkur á óvart, að verðmætasköpunin stendur ekki undir þessum launahækkunum. Ég tala nú ekki um á þessum Covid-tímum. Það eru bara algjörlega brostnar forsendur. Hvað er hægt að gera? Ég meina, það var eingöngu vegna þessarar óvissu sem ríkti að ákvörðun var tekin um að staldra við og sjá hvernig hlutirnir myndu þróast þegar atkvæðagreiðslan um Lífskjarasamninginn fór fram,” segir Helga og tekur fram að mikilvægt sé að skoða vinnumarkaðinn heildrænt.

„Við hljótum að vilja og allir hljóta að vera sammála um það að við verðum að hefja kjaraviðræður á einhverju merki sem allir geta sammælst um. Hver er kakan sem við höfum til skiptanna? Ef við getum ekki einu sinni sammælst um það mun þetta höfrungahlaup einfaldlega halda áfram, laun munu hækka umfram það sem er til í samfélaginu sem þýðir einfaldlega að atvinnuleysi og verðbólga fara að gera vart við sig – þá græðir enginn. Ég veit að þetta var reynt, en við erum samt sem áður enn á sama stað. En við megum ekki gefast upp, það er allt of mikið í húfi.”

„Við hljótum að vilja og allir hljóta að vera sammála um það að við verðum að hefja kjaraviðræður á einhverju merki sem allir geta sammælst um. Hver er kakan sem við höfum til skiptanna? Ef við getum ekki einu sinni sammælst um það mun þetta höfrungahlaup einfaldlega halda áfram, laun munu hækka umfram það sem er til í samfélaginu sem þýðir einfaldlega að atvinnuleysi og verðbólga fara að gera vart við sig – þá græðir enginn.“

Hún segir kjarasamningsumhverfið alltof flókið og leikreglurnar sem séu við lýði séu einfaldlega ekki að virka. „Okkur verður ekkert ágengt. Og svo er ótrúlega erfitt að hafa allan þennan fjölda kjarasamninga undir. Þetta kerfi er alltof flókið. Við atvinnurekendur þurfum að fara að stíga niður fæti með mun meira afgerandi hætti.”

Menntun er lykillinn að framtíð ferðaþjónustu

Við komum aðeins inn á menntun áðan. Þitt fyrirtæki býður upp á talsvert mikið starfsnám, til dæmis í framreiðslu og matreiðslu. Líturðu á það sem samfélagslega ábyrgð eða fær fyrirtækið sem slíkt eitthvað út úr slíku?

„Það er hvoru tveggja. Það margborgar sig og er hluti af samfélagslegri ábyrgð. Þetta er einfaldlega hluti af því að geta boðið upp á fágætisþjónustu, mikla gæðaþjónustu. Það kallar á sérhæfða menntun og fagþekkingu. Við viljum leggja okkar af mörkum hvað það varðar hjá Bláa Lóninu. Við tökum því árlega við fjölda nema sem taka þá verklega hluta námsins hjá okkur. Oftar en ekki endar það með því að þeir hefja formlega störf hjá okkur að námi loknu. Við erum svo lánsöm að búa við það að hafa á að skipa mikið af öflugu og sérhæfðu starfsfólki. Slíkt væri ekki mögulegt ef fyrirtækin tækju ekki þátt í því að efla menntunarstig greinarinnar.”

Helga segir Hæfnissetur ferðaþjónustunnar hluta af þessari vegferð. Að hafa vettvang þar sem hægt er að efla sérhæfingu starfsfólks, án þess að allt falli endilega undir háskólanám.

„Svo er það líka endurmenntun og símenntun. Þetta er allt hluti af því að efla gæði innan greinarinnar. Aukin hæfni starfsmanna skilar sér í auknu þjónustustigi sem skilar sér í aukinni arðsemi og að lokum í auknum efnahagsbata fyrir okkur öll.”

Hún segir vinnumarkaðurinn einnig vera að breytast. „Einu sinni var það þannig að menn völdu sér starfvettvang og störfuðu þar út starfsævina. Núna eru fáir á þeim stað. Þú átt kannski marga ferla yfir ævina. Maður er sífellt að heyra fleiri dæmi þess að menn séu að velja ákveðið háskólanám og svo allt annað áratugum síðar. Þetta er sveigjanleikinn sem atvinnulífið þarf að tileinka sér. Kröfurnar eru aðrar en þær voru og breytast hratt.”

„Einu sinni var það þannig að menn völdu sér starfvettvang og störfuðu þar út starfsævina. Núna eru fáir á þeim stað. Þú átt kannski marga ferla yfir ævina. Maður er sífellt að heyra fleiri dæmi þess að menn séu að velja ákveðið háskólanám og svo allt annað áratugum síðar. Þetta er sveigjanleikinn sem atvinnulífið þarf að tileinka sér.“

Ótrúleg tómleikatilfinning

Helga er þrátt fyrir allt bjartsýn hvað framhaldið varðar. Hún lýsir þeirri sérstöku tilfinningu sem hún fann fyrir í Bláa Lóninu, þar sem vanalega er mikið líf, þegar baðlónið, hotelin, veitingastaðirnir og verslanirnar tæmdust af gestum á einni nóttu – en að sama skapi er hún ánægð með hvernig þau hafa nýtt tímann í mismunandi uppbyggingarverkefni.

„Það var ótrúlega sérstök tilfinning þegar öll upplifunarsvæði Bláa Lónsins tæmdust af gestum á svo til einni nóttu. Einhvers konar tómleikatilfinning. Við í Bláa Lóninu erum vön að finna sterklega fyrir jákvæðninni og eftirvæntingunni í andlitum gestanna. Það voru því ótrúleg viðbrigði þegar gestir hurfu hreinlega á einni nóttu. En það sem hefur eiginlega verið verst er óvissan sem starfsfólk allt hefur þurft að standa frammi fyrir. Þetta hefur verið erfitt og flókið ferli. Við höfum reynt að halda í ráðningarsamböndin eins og hægt er, m.a. með því að breyta áherslum og fókus – en þetta hefur reynt mikið á,” segir Helga. Nú sé hins vegar útlitið bjartara.

„Við tókum strax ákvörðun um að nýta tímann vel. Fórum í mikilvæg viðhaldsverkefni og lögðum sérstaka áherslu á stafræna þróun og uppfærslu á kerfum. Ferðaþjónustan hefur í heild sinni tekið stór og mikilvæg skref fram á við að mínu mati. Ég held að við munum öll koma öflugari og þéttari út úr þessari Covid krísu. Samruni fyrirtækja eykur skilvirkni og mörg fyrirtæki hafa eflt sig m.a. hvað varðar tæknimál og ferlavæðingu. Flestir hafa náð að núllstilla sig, eru orðnir fókúseraðri m.a. hvað varðar framboð og sérhæfingu. Ég held við séum líka yfirvegaðri en við vorum áður. Svo náttúrulega fór allt í einu að gjósa, og fyrst þetta er gos – sem virðist ekki hættulegt byggð eða innviðum – þá hljótum við í ferðaþjónustunni að geta nýtt það til að koma okkur fyrr á lappirnar en ella.”

Helga Árnadóttir

Framkvæmdastjóri sölu- markaðs og vöruþróunarsviðs Bláa lónsins