Loftlagsvegvísar atvinnulífsins

Orka og veitur

Orka og veitur

Staðan í dag

Heildarlosun á CO2 frá orku- og veitugeiranum var áætluð um 227 þúsund tonn árið 2021. Þar vegur þyngst losun frá jarðvarma með um 171 þúsund tonn og losun vegna fráveitu með um 49 þúsund tonn. Önnur losun er vegna notkunar á einangrunar- og kælimiðlum og notkunar jarðefnaeldsneytis á bílaflota fyrirtækjanna, varaafl og kyndistöðvar.

Þær aðgerðir sem hér eru settar fram eru hluti af metnaðarfullri vegferð orku- og veitugeirans í umhverfismálum sem hófst árið 2018 með yfirlýsingu um að geirinn verði kolefnishlutlaus árið 2040. Ýmis fyrirtæki innan orku- og veitugeirans hafa sett sér enn metnaðarfyllri markmið og vinna hörðum höndum að því að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2030.

Orku- og veitugeirinn leikur mikilvægt hlutverk þegar kemur að áframhaldandi orkuöflun og innviðauppbyggingu svo íslenskt samfélag geti tekið næstu skref í átt að kolefnishlutleysi og því að verða óháð jarðefnaeldsneyti. Orku- og veitugeirinn hefur einnig mikilvægt hlutverk þegar kemur að losun hans í umfangi 3 en þar er átt við óbeina losun sem verður vegna starfsemi geirans. Mikil tækifæri liggja í því að lækka kolefnisspor innkaupa á vöru og þjónustu, í úrbótum í úrgangsmálum og í lækkun losunar vegna framkvæmda. Ferns konar áskoranir eru fram undan í orku- og veitugeiranum til að ná markmiðum um samdrátt í losun:

1. Uppbygging flutnings- og dreifiveituinnviða og frekari raforkuvinnsla

2. Losun frá jarðvarma 

3. Einangrunar- og kælimiðlar

4. Notkun jarðefnaeldsneytis 

120-180

milljarðar króna

Áætluð fjárfesting flutnings- og dreifiveitna vegna orkuskipta í samgöngum á landi.

Orku- og veitugeirinn stefnir á kolefnishlutleysi árið 2040 og mun halda áfram að gegna lykilhlutverki í umhverfis- og loftlagsmálum á Íslandi.
- Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.

Áskoranir

Orku- og veitugeirinn stendur frammi fyrir gríðar­legu verkefni þegar kemur að orkuskiptum. Útreikningar Samorku og annarra aðila benda til þess að auka þurfi raforkuframleiðslu um ríflega 75% til að ná markmiðum stjórnvalda um að verða óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040.

Greiningar aðildarfyrirtækja Samorku hafa leitt í ljós að orkuskipti í samgöngum muni valda auknu álagi á dreifikerfi rafmagns sem nemur um tvö- til þreföldun frá núverandi álagi. Því er fyrirséð að ráðast þurfi í umtalsverðar fram­kvæmdir sem muni umbylta rekstrarumhverfi flutnings- og dreifiveitna rafmagns.

Orku- og veitugeirinn hefur sett fram aðgerðir til að draga úr losun vegna starfsemi geirans en þar er helsta áskorunin hvernig megi draga úr losun sem verður vegna raforkuvinnslu úr jarðvarma.

Stórar áskoranir eru fram undan þegar kemur að því að styðja íslenskt samfélag á sinni orkuskipta­veg­ferð. Fyrirséð er að orku- og veitufyrirtækin þurfi að ráðast í gríðarlega uppbyggingu á næstu áratugum til að afla nægrar orku fyrir orkuskiptin og styrkja innviði svo heimili, fyrirtæki og iðnaður hafi möguleika á því að taka þátt í orkuskiptunum. Laga- og regluverk þarf að styðja við þessa upp­­byggingu eigi markmið stjórnvalda í um­hverfis­málum að takast.

Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.

Úrbætur

1.  Uppbygging flutnings- og dreifiveituinnviða    

ORKA OG VEITUR:

  • Stóraukin uppbygging og styrking raforkuinnviða um allt land svo samfélagið geti ráðist í orkuskipti. 
  • Tryggja þarf að kerfin standi undir auknu álagi. Styrkingarþörf snýr að öllum þáttum kerfis­ins, heimilum, iðnaði, höfnum, flugvöllum og annarri starfsemi um allt land. 
  • Uppbygging flutnings- og dreifiveituinnviða mun einnig auka afhendingaröryggi raforku um land allt og draga þar með úr notkun eldsneytis í varaafli og fjarkynntum hitaveitum. 

STJÓRNVÖLD:

  • Stjórnvöld þurfa að móta sér skýra sýn á orkuþörf vegna orkuskipta og sú sýn þarf að birtast í aðgerðum eftirlits- og skipulagsaðila. 
  • Styrkingarþörf snýr að öllum þáttum kerfisins, heimilum, iðnaði, höfnum, flugvöllum og annarri starfsemi um allt land og skoða hvort aðkomu stjórnvalda þurfi til við uppbyggingu.
  • Regluverk þarf að vera skilvirkt og styðja við uppbyggingu rafveituinnviða um allt land svo íbúar landsins geti tekið þátt í orkuskiptunum. 

2. Losun frá jarðvarma  

ORKA OG VEITUR:

  • Skoðaðar verða ýmsar aðgerðir, svo sem föngun, hagnýting, endurniðurdæling og binding gróðurhúsalofttegunda sem koma upp með jarðhita­vökva við raforkuframleiðslu frá jarðvarmavirkjunum. 
  • Íslenski jarðhitageirinn er leiðandi á heimsvísu þegar kemur að þróun lausna til bindingar á koldíoxíði í bergi. 

STJÓRNVÖLD:

  • Stefnumörkun stjórnvalda sem birtist í Orkustefnu Íslands þarf að endurspeglast í framkvæmd og við innleiðingu tilskipana sem tengjast orku- og veitugeiranum. 
  • Óvissa ríkir um leyfis- og eftirlitsþætti sem snúa að möguleikum til endurniðudælingar koldíoxíðs úr jarðhita og hagnýtingar sem gæti leitt til þess að ekki verði hægt að ná þeim árangri sem stefnt er að. 

3. Einangrunar- og kælimiðlar

ORKA OG VEITUR:

  • SF6 er notað sem kæli- og einangrunarmiðill í tengivirkjum rafveitna og aflrofum/aflspennum einstaka orkuvera. SF6 losnar helst við leka og framkvæmdir á búnaði. Lágmarka þarf losun með fyrirbyggjandi viðhaldi og endurbættum ferlum á meðan innleiðing á lausnum sem nýta ekki SF6 stendur yfir.  

4. Notkun jarðefnaeldsneytis

  • Jarðefnaeldsneyti er notað í hefðbundnum rekstri orku- og veitufyrirtækja, bæði sem eldsneyti á bílaflota og vinnutæki en einnig sem orkugjafi á varaaflsvélar og fjarkynnta hitaveitu.  
  • Notkun jarðefnaeldsneytis í fjarkynntum hitaveitum og varaafli er að hluta afleiðing orkuskorts. Helsta aðgerð orku- og veitugeirans stuðlar að því að auka framboð raforku um allt land og styrkja innviði til að takast á við aukið umfang vegna orkuskiptanna.  
  • Aðgerðir munu draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í geiranum að stórum hluta fyrir árið 2030 og hefja skoðun á innleiðingu græns eldsneytis þar sem ekki er hægt að nota hreinorkulausnir. 

Um samstarfið

Leiðtogar orku- og veitugeirans eru Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, og Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.

Hagaðilar

Engilráð Ósk Einarsdóttir (Landsnet), Finnur Sveinsson (HS Orka), Jóhanna Hlín Auðunsdóttir (Landsvirkjun), Jón Skafti Gestsson (Landsnet), Jóna Bjarnadóttir (Landsvirkjun), Jónas Dagur Jónsson (HS Veitur), Marín Ósk Hafnadóttir (HS Orka), Sigríður Auður Arnardóttir (OR), Snorri Jökull Egilsson (OR), Sunna Guðmundsdóttir (Norðurorka), Steinunn Huld Atladóttir (RARIK).

Hafa samband 

Samorka

Almar Barja, verkefnastjóri loftslagsvegvísis orku- og veitna:
almar@samorka.is

Lesa ítarefni

120-180

milljarðar króna

Áætluð fjárfesting flutnings- og dreifiveitna vegna orkuskipta í samgöngum á landi.