Loftlagsvegvísar atvinnulífsins

Fiskeldi

Fiskeldi

Staðan í dag

Heildarlosun fiskeldis mældist 142 þúsund tonn CO2-íg. árið 2021. Langstærstur hluti er tilkominn vegna fóðurnotkunar eða 130 þúsund tonn. Þar á eftir fylgir olíunotkun á hafi með um 10.700 tonn og við þetta bætist að lokum 1.500 tonna losun tengd úrgangi.

Fiskeldisfóður er í dag að stórum hluta innflutt með tilheyrandi losun CO2. Æskilegast væri að fóðurframleiðsla færi í stórum stíl fram hér á landi, því fylgja ýmsar hindranir en þær eru yfirstíganlegar ef stjórnvöld leggjast á eitt með fiskeldisfyrirtækjunum rétt eins og á við á öðrum sviðum greinarinnar. Þrenns konar áskoranir eru fram undan í fiskeldi til að ná markmiðum um losun árið 2030:

1. Olíunotkun á hafi 

2. Úrgangur hjá landeldi og sjókvíaeldi 

3. Innlend fóðurframleiðsla

36

milljarðar króna

Útflutningsverðmæti eldisafurða í milljörðum króna á föstu gengi ársins 2021.

Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein með ólíkar áskoranir til lands og sjós. Með réttum hvötum má flýta fjárfestingum í orkuskiptum, rafvæða hluta af smærri vinnubátum, setja rafhlöðukerfi í þjónustubáta og landtengja stærri báta og fóðurpramma. Stjórnvöld þurfa að tryggja orku og innviði svo ráðast megi í metnaðarfull markmið um losun og tryggja samkeppnishæfni greinarinnar.
- Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa.

Áskoranir

Stjórnvöld og fiskeldisfyrirtækin vinna saman að því að skapa umgjörð sem gerir greininni kleift að leggja sitt af mörkum í loftslagsmálum. Með bættum aðbúnaði í höfnum og tryggðu aðgengi að nauðsynlegri raforku má ná mark­miðum greinarinnar varðandi samdrátt í losun vegna olíunotkunar fyrir árið 2030.

Með áfram­haldandi vexti í fiskeldi á Íslandi verður landið ákjósanlegur staður fyrir fóðurfram­leiðslu þar sem gott hráefni er til staðar og aðgengi að hreinni orku. Með aukinni innlendri framleiðslu er hægt að draga verulega úr kolefnisspori og auknum samdrætti má ná fram með notkun innlendra hráefna á borð við fiskimjöl og lýsi ásamt því að lágmarka innflutt plöntuhráefni.

Losun í fiskeldi sem varða olíunotkun og úrgang lúta ESR-reglugerðinni (e. Effort Sharing Regulation) um sameiginlegar efndir ríkja innan ESB- og EES-landa um að draga úr gróðurhúsaloft­tegundum. Losun vegna fóðurframleiðslu í dag er utan Íslands.

Úrbætur

1. Olíunotkun á hafi  

FISKELDI:

  • Fjárfestingar, endurnýjun og endurbætur báta og pramma: Skipt verður út 80% af núverandi smærri vinnubátum fyrir báta sem nota rafmagn. Skipta má einnig út þjónustubátum fyrir báta sem búnir eru hybrid-kerfum, þ.e. bæði rafhlöðum og dísilvélum. Tengja má brunnbáta við rafmagn í höfn, landtengja fóðurpramma þar sem það er skynsamlegt og koma fyrir rafhlöðukerfum í öllum fóðurprömmum.

STJÓRNVÖLD:

  • Landtenging: Setja þarf upp landtengingu við vinnsluhús á Bíldudal, Bolungarvík og Djúpavogi og halda áfram að koma upp landtengingu fyrir fóðurpramma þar sem það er ákjósanlegt. 
  • Trygging raforkuinnviða: Tryggja verður hleðsluinnviði fyrir rafmagn í höfnum, skoða þarf fyrirkomulag raforkusölu og tryggja samkeppnishæft verð auk þess sem greining þarf að fara fram á orkuþörf og afltoppum í höfnum landsins.
  • Fjárfestingarstuðningur: Tryggja þarf fjármagn fyrir tengingar og rafmagnsflutning auk þess sem treysta verður á fjárfestingarstuðning við viðbótarkostnaði. 
  • Eldsneyti: Stuðla þarf að aðgengi að kolefnisfríu eldsneyti til íblöndunar sem uppfyllir staðla vélaframleiðenda.

2. Úrgangur hjá landeldi og sjókvíaeldi 

FISKELDI:

  • Bætt hringrás: Stuðlað verður að auknu hringrásarferli og nýtingu lífræns úrgangs til framleiðslu á lífgasi og áburði sem dregur úr losun ásamt því að skapa aukin verðmæti. Allt rusl sem fellur til á sjó og landi verður flokkað.
  • Samvinnuverkefni: Sett verði á fót samvinnuverkefni um fullnýtingu á sjálfdauðum fiski og fiskiúrgangi og nýtingu úrgangs til framleiðslu á lífgasi og/eða áburði.

STJÓRNVÖLD:

  • Stutt sé við vöxt fiskeldisfyrirtækja og stærðarhagkvæmni í greininni.

3. Innlend fóðurframleiðsla 

FISKELDI:

  • Innlend framleiðsla: Fjárfest verði í fóðurverksmiðju á Íslandi sem framleiða muni fóður fyrir bæði landeldi og sjókvíaeldi.

STJÓRNVÖLD:

  • Örugg raforka: Aðgengi og afhending hreinnar raforku til innlendrar framleiðslu sé tryggð. Flutningskerfi raforku sé eflt.
  • Stuðningur við innlenda framleiðslu: Stutt sé við framleiðslu í hráefni til fóðurgerðar á borð við kornrækt og ný prótein. 

FISKELDI OG STJÓRNVÖLD:

  • Auknar rannsóknir: Rannsóknir á sviðinu í auknum mæli gætu leitt til aukins framboðs innlendra hráefna. 

Um samstarfið

Leiðtogi fiskeldis er Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa.

Hagaðilar

Fiskeldisfyrirtæki, fjármálafyrirtæki, orkuframleiðendur, fóðurframleiðendur, þjónustuaðilar, umbúðaframleiðendur, Orkustofnun, Umhverfisstofnun, Hafró, Matvælaráðuneyti, Umhverfis, orku og loftslagsráðuneytið, Matís, Innviðaráðuneytið, veiðarfæragerðir, umhverfissamtök, Blámi, Grænvangur, flutningsaðilar, Running Tide, sveitarfélög og hafnir, aðilar úr rannsóknar-, háskóla, og nýsköpunarsamfélaginu, upplýsingafyrirtæki.

Hafa samband 

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

Hildur Hauksdóttir, verkefnastjóri loftslagsvegvísis fiskeldisins:
hildur@sfs.is

Lesa ítarefni

36

milljarðar króna

Útflutningsverðmæti eldisafurða í milljörðum króna á föstu gengi ársins 2021.