Loftlagsvegvísar atvinnulífsins

Álframleiðsla

Álframleiðsla

Staðan í dag

Heildarlosun á CO2 frá álframleiðslu mældist 1.370 þúsund tonn árið 2021. Losunin hefur dregist saman um 75% á hvert framleitt tonn frá árinu 1990. Þar munar mestu um bætta stýringu í kerrekstri í kerskálum sem skilað hefur betri árangri í að draga úr losun PFC efna sem eru sterkar gróðurhúsalofttegundir.

Losun frá álframleiðslu er hvergi lægri á heimsvísu en á Íslandi samkvæmt greiningarfyrirtækinu CRU. En markmiðið er að fara alla leið. Til marks um það lýstu íslensku álverin því yfir ásamt stjórn­völdum sumarið 2019 að leitað yrði leiða til að ná kolefnishlutleysi árið 2040. Stærstur hluti losunar er í framleiðsluferlinu sjálfu sem heyrir undir ETS, viðskiptakerfi ESB. Ekki verður lengra komist með núverandi tækni og ljóst er að nýsköpun og tækniþróun þarf til. Þar er annars vegar horft til föngunar kolefnis úr útblæstri álvera og hins vegar notkunar kolefnislausra skauta í raf­greiningarferlinu.

Íslensk álver greiddu 1,4 milljarða fyrir losunarheimildir innan ETS á árinu 2022 og fyrirséð er að sá kostnaður margfaldist á næstu árum. Það er því innbyggður hvati til að draga úr losun. Íslenska ríkið hefur samsvarandi tekjur af kerfinu og stendur það undir hluta af kostnaði ríkisins við orkuskiptin.

Álverin vinna einnig að því að draga úr losun af þeim þáttum starfseminnar sem heyra undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Þar er markið sett á 40% samdrátt árið 2030 miðað við árið 2015. Álverin eru þegar á góðri leið með það og er m.a. horft til rafvæðingar tækja og búnaðar, grænna skrefa í úrgangsmálum og vistvænna samgangna til og frá vinnustað. Nú þegar hefur verulegur árangur náðst í að draga úr losun í áliðnaði en betur má ef duga skal. Hér er áskorunum skipt upp í þrjá flokka og viðfangsefni til að ná markmiðinu um að draga úr losun í áliðnaði:

1. Framleiðsla áls (ETS)

2. Framleiðsla áls (ESR)

3. Nýsköpun og rekstur

369

milljarðar króna

Útflutningur áls og álafurða frá íslenskum álverum í milljörðum króna árið 2022. Innlendur kostnaður álvera nam 174 milljörðum.

Álverin hafa sett sér það markmið að komast alla leið. Það er tröllvaxið verkefni enda er tæknin enn í mótun. Leitað er leiða til að fanga og farga kolefni í framleiðsluferlinu og jafnframt er unnið að þróun kolefnislausra skauta.
- Rannveig Rist, forstjóri ISAL og formaður Samáls.

Áskoranir

Ef horft er til losunar innan ETS-kerfisins veltur markmiðið um kolefnishlutleysi árið 2040 alfarið á því hvernig til tekst með þau rannsóknar- og þróunarverkefni sem unnið er að undir nýsköpun fyrir kolefnishlutleysi. Læra má heilmikið af samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda í Noregi og Kanada, sem einnig eru öflugir álframleiðendur og nýta til þess endurnýjanlega orku. Stjórnvöld þar hafa byggt upp öfluga innviði í samstarfi við áliðnaðinn og beita ýmsum jákvæðum hvötum, svo sem rannsóknarstyrkjum, fyrirgreiðslu og beinni fjárfestingu, til þess að skapa jarðveg þar sem nýsköpun getur skotið rótum. Ísland er næststærsti álframleiðandi í Evrópu og hefur alla burði til þess að vera leiðandi í þessari þróun.

Til þess að tryggja að Ísland sé samkeppnishæft þegar kemur að því að sækja verkefni þarf sameiginlega stefnumörkun áliðnaðar og stjórnvalda. Í tillögum áliðnaðar er meðal annars horft til ETS-kerfisins en hugsunin með því kerfi er að andvirði losunarheimilda renni að stórum hluta til loftslagsvænna verkefna.

Rannveig Rist, forstjóri ISAL og formaður Samáls.

Úrbætur

1. Framleiðsla áls (ETS)

ÁLFRAMLEIÐSLA:

  • Tryggð verði þátttaka í þróun eða prófun á eðalskautum: Kortleggja þarf stöðu þeirra verkefna og athuga hver staða íslenskrar álframleiðslu er gagnvart þeirri þróun á kolefnislausum skautum, t.d. í gegnum Tæknisetur, Álklasann eða háskólana. 
  • Sjálfbærnivottað lífrænt kolefni í skaut: Möguleikar verði kannaðir á notkun sjálfbærnivottaðs lífræns kolefnis í skaut. Notkun verði hafin á sjálfbærnivottuðu lífrænu kolefni í kragasalla þar sem við á. 
  • Föngun, förgun og hagnýting kolefnis: Unnið verði að þróunarverkefnum og prófunum á föngun kolefnis úr afgasi. 
  • Auka styrk kolefnis í afgasi: Þekktar leiðir til að fanga kolefni (e. on point capture) krefjast þess að styrkur afgass sé um 4-5%. Kanna þarf því möguleikann á að auka styrk afgass úr ~1% í 4-5% til að geta notað þekktar lausnir.

STJÓRNVÖLD:

  • Tryggja þátttöku í þróun eða prófun eðalskauta: Stjórnvöld leiti leiða til að tryggja aðkomu íslenskra álvera að mikilvægri nýsköpun á þessu sviði. 
  • Endurskoðun tollanúmera: Endurskoða má tollanúmer til að hvetja til innflutnings á sjálfbærnivottuðum lífrænum kolefnum fram yfir ólífræn kolefni. 
  • Fönun kolefnis úr afgasi: Skoða þarf styrkja­umhverfið fyrir langtíma verkefni og tryggja að verkefni sem koma munu til með að draga verulega úr losun séu sett í forgang. 

2. Framleiðsla áls (ESR) 

Umfang 1

ÁLFRAMLEIÐSLA:

  • Skipta í rafknúin tæki á vinnusvæði: Skipta þarf út hefðbundnum dísilknúnum farartækjum á vinnusvæði í vistvænni kosti þegar útskipti eru tímabær. Stýra þarf því innkaupum við endurnýjun tækja, t.a.m. lyftara og þjónustubíla, og tryggja að rafknúin tæki séu fyrsti kostur. 
  • Rafvæðing hentar ekki öllum tækjum: Ekki er fýsilegt að rafvæða sum stærri tæki meðan langt getur verið í endurnýjun annarra. Kanna þarf möguleikann á notkun lífdísils og hlutfalls lífdísilsblöndu á núverandi flota við rekstraraðstæður, þar sem sum tæki þola illa blöndun. 
  • Stærri sérsmíðuð farartæki: Þróa þarf áfram lausnir fyrir stærri sérsmíðuð farartæki svo hægt sé að knýja þau með endurnýjanlegum orkugjöfum. Sérstaklega þarf að skoða hvort tækin þoli umhverfi kerskálanna og er það gert í nánu samstarfi við framleiðendur. 
  • Orkunýting: Auka þarf rannsóknir (á frumframleiðslustigi) á því hvort mögulegt sé að endurnýta glatvarma í álverum. Annars vegar í eigin starfsemi og hins vegar hjá öðrum hagsmunaaðilum í nærumhverfi. 

STJÓRNVÖLD:

  • Kanna notkun lífdísil eða -blöndu á stærri tæki: Endurskoða þarf tollanúmer og aðra álagningu og hvetja til innflutnings á sjálfbærnivottuðum lífrænum dísils fram yfir hefðbundinn dísil. 
  • Endurnýjanlegir orkugjafar á stærri sérsmíðuð farartæki: Skoða þarf möguleika á stuðning stjórnvalda í gegnum styrkveitingu vegna orkuskipta, þ.e. hvort úthlutunarreglur taki mið af útskiptum slíkra sérsmíðaðra farartækja. 
  • Skoða nýtingu glatvarma: Athuga þarf lagagrundvöll endursölu orku. 

Umfang 3

ÁLFRAMLEIÐSLA:

  • Endurnýting kerbrota á Íslandi: Skoða þarf fýsileika endurnýtingar kerbrota á Íslandi í stað landfyllingar en þegar er í gangi samstarfsverkefni einstakra álvera og endurvinnslufyrirtækja, t.a.m. nýting kerbrota sem fluxefni í sementi. 
  • Endurvinna álgjall og úrgangsefni: Unnið er að endurvinnslu á álgjalli og tilkominna úrgangsefna með einstaka álverum. Stefnt er að nýtingu úrgangsefna frá álgjallsvinnslu í sementíblöndunarefni. 
  • Auka þarf innlenda endurvinnslufarvegi: Tryggja þarf frekari endurvinnslufarvegi innanlands fyrir framleiðsluúrgang álvera til að nýta efnin betur. 

STJÓRNVÖLD:

  • Kortleggja endurvinnslufarvegi innanlands: Taka þarf samtal við stofnanir sem halda utan um reglugerðir um úrgangsmál og tryggja að þær endurspegli markmið um hringrásarhagkerfi, en einnig við úrvinnslufyrirtæki úrgangs til að tryggja réttan farveg. 

3. Nýsköpun og rekstur

ÁLFRAMLEIÐSLA:

  • „Ein með öllu“ fyrir nýsköpunarhugmyndir: Mikilvægt er að setja á fót samvinnuvettvang stjórnvalda og Álklasans til að taka við nýsköpunarhugmyndum og koma í réttan farveg. Samstarf atvinnulífs og stjórnvalda hefur skilað árangri í Noregi og Kanada í mati og framþróun nýsköpunarlausna. Líta má til Kanada til fyrirmyndar slíks vettvangs. 
  • Tryggja styrki í langtímaverkefni tengd ETS kerfinu: Hugmyndin á bakvið ETS-kerfið er m.a. sú að andvirði losunarheimilda renni aftur til loftslagsvænna verkefna innan ETS-kerfisins, enda er þar veruleg fjárfestingarþörf í rannsóknum og þróun. Skoða má ólíkar útfærslur á því hjá löndum innan ESB. 
  • Óska eftir skýrum leikreglum í ETS bókhaldi um föngun, förgun og hagnýtingu: Óvissa er enn til staðar um hvernig bóka á losun sem er fönguð (e. on point capture) annars vegar og fargað (e. storage) eða hagnýtt hins vegar. Skýra þarf m.a. hvaða lausnir teljist til frádráttar í ETS kerfinu og ýta undir að kerfið sé tæknihlutlaust. 

STJÓRNVÖLD:

  • Þátttaka stjórnvalda í samvinnuvettvangi varðandi nýsköpun: Skoða þarf aðkomu stjórnvalda og skilgreina skýrt hlutverk þeirra og kosti þátttöku þeirra á slíkum samvinnuvettvang. 
  • Andvirði losunarheimilda renni í nýsköpun til samdráttar í losun: Tryggja þarf gagnsæi í því hvernig upphæðum úr ETS kerfum er dreift í nýsköpun til samdráttar í losun, til dæmis með aðkomu Samáls og Álklasans. 
  • Skýrt regluverk: Mikilvægt er að stjórnvöld séu með skýr og aðgengileg svör um ETS regluverkið. Kallað er því eftir nánara samtali og gagnsæi.

Um samstarfið

Leiðtogi áliðnaðar er Rannveig Rist, forstjóri ISAL og formaður Samáls.

Hagaðilar

Í Samáli, samtökum álframleiðenda, eru öll þrjú álverin á Íslandi. Það eru Alcoa Fjarðaál í Reyðarfirði, Norðurál á Grundartanga og ISAL í Straumsvík.

Hafa samband 

Samál, samtök álframleiðenda

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls og verkefnastjóri loftslagsvegvísis áliðnaðar:
pebl@samal.is

Lesa ítarefni

369

milljarðar króna

Útflutningur áls og álafurða frá íslenskum álverum í milljörðum króna árið 2022. Innlendur kostnaður álvera nam 174 milljörðum.