Loftlagsvegvísar atvinnulífsins
Flug
Flug
Staðan í dag
Orkuskipti í flugi er tæknilega flókið verkefni sem spannar allt frá útsýnisflugi til alþjóðaflugs, auk innviða og rekstrarumhverfis flugs. Flug sem atvinnugrein hefur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (ICAO) sett sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2050 þar sem orkuskipti munu reiða sig á safn aðgerða. Þá er m.a. átt við bætta eldsneytisnýtingu gegnum tækniframfarir, notkun nýrra orkubera líkt og vetni og rafmagn og þá þróun lífeldsneytis og rafeldsneytis sem í daglegu tali nefnist sjálfbært þotueldsneyti (e. Sustainable Aviation Fuel, SAF). Árangurinn mun byggja á ríkri fjárfestingu í nýjum kynslóðum flugvéla, sjálfbæru þotueldsneyti og umbótum í rekstrarumhverfi og innviðum flugs.
Á Íslandi má reikna með að orkuskipti í alþjóðaflugi næstu tvo áratugi felist fyrst og fremst í aukinni notkun sjálfbærs þotueldsneytis (SAF) og áframhaldandi þróun hagkvæmari hreyfla. Þróun tengt öðrum orkuberum, líkt og vetni og rafhlöðutækni, er skemur á veg komin svo enn er nokkuð í land að sú tækni nái þeirri drægni sem þarf til að fljúga milli Íslands og meginlands Evrópu eða Norður-Ameríku á næstu árum. Helsta áskorun íslenskra flugfélaga verður því aðgengi að SAF á Íslandi sem og erlendis og kostnaður við innkaup eldsneytisins.
Mögulegt er að innanlandsflug verði kolefnislaust á næsta áratug, þá í formi rafmagns- eða vetnisflugs. Gæti þetta falið í sér stórt tækifæri fyrir íslenskt flug og ferðaþjónustu. Hafa verður í huga að innanlandsflug telur einungis brot af heildarflugi íslenskra flugfélaga og því þarf að horfa til alþjóðaflugsins eftir aðgerðum sem skila mestum mælanlegum árangri. Ætli atvinnugreinin og íslensk stjórnvöld sér að ná markverðum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda er ljóst að stuðningur við framleiðslu og innkaup SAF er lykilþáttur á þeirri vegferð. Hér er áskorunum skipt upp í þrjá flokka og viðfangsefni til að ná markmiðinu um að draga úr losun í flugi:
1. Sjálfbært þotueldsneyti (e. Sustainable Aviation Fuel, SAF)
2. Tækniþróun og nýsköpun
3. Innviðir og rekstrarumhverfi
118
milljarðar króna
Útflutningsverðmæti flugs í milljörðum króna árið 2022.
Flug sem atvinnugrein hefur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (ICAO) sett sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2050 þar sem orkuskipti munu reiða sig á safn aðgerða.- Heiða Njóla Guðbrandsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.
Áskoranir
Stærstu áskoranir í samdrætti losunar frá flugi er tækniþróun tengt nýjum orkuberum og aðgengi að sjálfbæru þotueldsneyti á verði sem flugfélög ráða við.
Framleiðsla SAF í heiminum í dag er einungis lítið brot af því sem iðnaðurinn þarfnast á næstu árum og innkaupaverðið tveim til fimm sinnum dýrara en hefðbundið þotueldsneyti. Aðgengi að SAF á Íslandi er ekkert og þau verkefni sem vitað er um og snúa að þróun og framleiðslu hér á landi ríkir óvissa um. Að auki munu þau ekki tryggja nægt magn til að standa undir heildarþörf flugs á Íslandi nema til skemmri tíma. Flug er vaxandi grein á heimsvísu og mikil samkeppni um það takmarkaða magn SAF sem er framleitt.
Landfræðileg lega landsins skapar ákveðnar áskoranir tengt orkuskiptum, bæði vegna fjarlægðar við Evrópu og vegna sérstöðunnar sem hún skapar í regluverki sem nær ekki alltaf að fanga hagsmuni landsins.
Fjárfestingaþörf í flugrekstri er mikil, hvort sem horft er til fjárfestinga í endurnýjun flota flugfélaga til að innleiða nýrri kynslóðir umhverfisvænni flugvéla eða í innviðum flugvalla og eldsneytis. Því má reikna með að þegar tækniþróun í flugi nær því stigi að útblástur fari minnkandi gæti tekið fjölda ára að fasa út eldri tækni og endurhanna innviði.
Úrbætur
1. Sjálfbært þotueldsneyti (e. Sustainable Aviation Fuel, SAF)
FLUG OG STJÓRNVÖLD:
- Tryggt aðgengi að SAF: Ísland þarf að marka sér skýra sýn um framtíðarstefnu í eldsneytismálum og tryggja aðgengi að SAF.
- Framleiðsla SAF á Íslandi: Æskilegt er að framleiðsla SAF verði í nágrenni alþjóðaflugvalla og því þarf að tryggja bæði svæði til uppbyggingar og næga raforku en framleiðsla á SAF, t.d. gegnum vetni og kolefni er orkufrekt ferli. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld marki sér strax framtíðarsýn tengt innlendri SAF-framleiðslu og styðji þar með við vænleg verkefni sem geta tryggt framtíðarárangur Íslands í loftlagsmálum.
- Hvataumhverfi SAF: Kanna þarf hvort innlent hvatakerfi gæti aukið nýtingu SAF hjá íslenskum flugrekendum. SAF er í dag um 3-5 sinnum dýrara en hefðbundið þotueldsneyti og SAF-rafeldsneyti enn dýrara. Þar til rekstrar- og stærðarhagkvæmni er náð þarf að tryggja skilyrði til þess að framleiðsla komist á fót og að verðlagning til flugrekenda sé slík að þeir geti nýtt sér eldsneytið.
2. Tækniþróun og nýsköpun
FLUG OG STJÓRNVÖLD:
- Orkuskiptamiðstöðin Ísland: Ísland sæki tækifæri í loftlagsmálum með því að markaðsetja sig sem Orkuskiptamiðstöðina Ísland þar sem orkuskiptaverkefni sem alla jafna teljast smá á alþjóðlegum skala, bæði hvað varðar fjármögnun og framleiðslu, eru til þess fallin að skila umtalsverðum árangri í samhengi við losun Íslands.
- Hvatar til orkuskiptaverkefna: Koma á legg Orkuskiptasjóð, sem væri sérsniðinn að þörfum og umfangi flugs hér á landi. Sjóðurinn gæti gert fleiri aðilum kleift að fjárfesta í orkuskiptum og eflt nýsköpun á sviði flugs og flugtengdrar starfsemi á Íslandi.
- Samstarfsvettvangur flugs um vegvísi í orkuskiptum: Til að ná saman þeim fjölmörgu hagaðilum sem koma að flugrekstri á Íslandi, þá er snertir útsýnisflug, kennsluflug, innanlandsflug, alþjóðaflug og fraktflug.
3. Innviðir og rekstrarumhverfi
ATVINNULÍF OG STJÓRNVÖLD:
- Þörf er á uppbyggingu innlendra flugvalla: Þétta þarf net flugvalla og tryggja aðgengi að rafmagnshleðslu eða nýjum orkubera. Uppbygging innanlandsflugvalla snertir einnig alþjóðaflug þar sem öflugt net innanlandsflugvalla getur stutt við aukna eldsneytisnýtingu í alþjóðaflugi.
- Horfa þarf til allra innviða: Kortleggja þarf innviði með hliðsjón af vegvísi um orkuskipti í flugi, meta viðhalds- og fjárfestingaþörf í hverju tilviki og setja fram aðgerðir sem styðja við vegferð orkuskipta.
Um samstarfið
Leiðtogi flugs er Heiða Njóla Guðbrandsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.
Hagaðilar
Íslensk flugfélög og flugrekstur (flugvellir). Þátttakendur í vinnustofum: Flugmál.is, Icelandair, Play Air, Atlanta, Isavia og Landsvirkjun.
Hafa samband
Samtök ferðaþjónustunnar
Ágúst Elvar Bjarnason, verkefnastjóri loftslagsvegvísis ferðaþjónustu:
agust@saf.is
118
milljarðar króna
Útflutningsverðmæti flugs í milljörðum króna árið 2022.