Loftlagsvegvísar atvinnulífsins

Farþegasiglingar

Farþegasiglingar

Staðan í dag

Orkuskipti á hafi er umfangsmikið verkefni sem nær yfir fjölmargar mismunandi tegundir skipa og báta sem og mismunandi atvinnugreinar. Í loftslagsvegvísi farþegasiglinga er eingöngu horft til siglinga við Ísland sem falla undir hafsækna ferðaþjónustu og ferjusiglingar. Ekki er horft sérstaklega til skemmtiferðaskipa að öðru leyti en í gegnum innviðauppbyggingu í höfnum sem mun samnýtast umferð skemmtiferðaskipa.

Heildarfloti í farþegasiglingum er 150 skip (41 farþegabátar, 69 farþegaskip, 40 frístundafiskiskip/sjóstangveiði), eða um 22% af öllum flota strandsiglinga. Samkvæmt losunarbókhaldi Umhverfisstofnunar var heildarlosun frá strandsiglingum árið 2021 18 kt CO2-íg, eða um 22% af losun strandsiglinga árið 2005. Samdráttinn má að einhverju leyti rekja til þess að strandsiglingar með vörur lögðust mestmegnis af árið 2004 en útlit er fyrir að þær séu að hefjast aftur í ár. Á sama tíma sjáum við að farþegafjöldi í hvalaskoðun hefur aukist úr 82 þús. árið 2005 í 360 þús. árið 2022, um 340% aukning með tilheyrandi olíunotkun.

Töluverður áhugi er fyrir orkuskiptum og betri orkunýtingu innan hafsækinnar ferðaþjónustu. Í þessum vegvísi eru þrjár áskoranir tilgreindar að ná markmiðum um losun fyrir árið 2030:

1. Orkuskipti

2. Orkunýtni

3. Umhverfisvænn rekstur

Markmið farþegasiglinga fyrir LVA eru eftirfarandi: 

Orkuskipti 

  • Helmingur flota hafsækinnar ferðaþjónustu verði komin á hreinorku árið 2030.

Orkunýtni 

  • 30% betri orkunýtni skipa sem enn nýta jarðefnaeldsneyti 2030.

Umhverfisvænn rekstur

  • Rafvæðing hafna verði lokið árið 2030. Þar með talið verði komin landtenging fyrir öll skip.
  • Allar íslenskar útgerðir í farþegasiglingum komnar með umhverfisvottanir og grænt bókhald árið 2030.

2

milljarðar króna

Heildarneysla ferðamanna í farþegaflutningum á sjó árið 2019.

Vinnan við loftslagsvegvísa fyrir farþegasiglingar sýnir að vel er hægt að ná markmiðum Íslands fyrir þessa atvinnugrein. Það þýðir þó að stjórnvöld verða að ganga í takt með rekstraraðilum, vera fyrirmynd í aðgerðum og sýna í verki að þau ætla sér í þessa vegferð.
- Katrín Georgsdóttir, umhverfis- og gæðastjóri hjá Eldingu hvalaskoðun.

Áskoranir

Helstu áskoranir við samdrátt losunar í far­þegasiglingum liggja í fjárfestingar­möguleikum, hindrunum vegna íslensks regluverks og tækniþroska. ​Orkuskipti eru dýr fjárfesting sem krefst aðgengis að sanngjörnum fjár­mögnunarleiðum og styrkjum til tilraunaverkefna. ​Þau orkuskiptaverkefni sem eru í vinnslu hafa rekið sig á að íslenskt regluverk hefur verið hindrun í stað tækifæris. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld og regluverk styðji við nýsköpun og orkuskipti í stað þess að hamla nýjum tæki­færum.​

Framleiðsla á endurnýjanlegum orku­gjöfum hefur verið takmarkandi þáttur þegar kemur að orkuskiptum. Á síðustu árum höfum við þó séð miklar breytingar á alþjóðlegum vettvangi og því er ekkert því til fyrirstöðu að ný tækni og nýir orkugjafar séu til staðar hér á landi. Til að það verði að veruleika verða stefnumörkun og að­gerðir stjórnvalda að tryggja að aðstæður til nýsköpunar og innleiðingar á nýrri tækni sé til staðar. Með öflugum stuðning við nýsköpun tengdri orkuskiptum og innleiðingu á nýrri tækni sem miðar að því að draga úr orkunotkun og losun á gróðurhúsalofttegundum getur atvinnu­greinin stutt vel við markmið stjórnvalda um 55% samdrátt árið 2030.

Katrín Georgsdóttir, umhverfis- og gæðastjóri hjá Eldingu hvalaskoðun.

Úrbætur

1. Orkuskipti 

FARÞEGASIGLINGAR:

  • Tilraunaverkefni: Útgerðir stefni í auknum mæli að tilraunaverkefnum í orkuskiptum. 

STJÓRNVÖLD:

  • Stjórnvöld sem fyrirmynd: Stjórnvöld eiga að vera fyrirmynd í orkuskiptum og því ætti komandi endurnýjun á ferjum í almenningssamgöngum að miða að notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Stjórnvöld hafa skilgreint þessa aðgerð í sinni aðgerðaráætlun (aðgerð B.4) og gert er ráð fyrir að hún komi fljótlega til framkvæmdar.
  • Einföldun regluverks: Regluverkið þarf að vera byggt á alþjóðlegum reglum, ekki séríslenskum. Ein­falda þarf regluverk vegna haffæraskírteinis, gerðar og búnaðar. Tilraunaverkefni með nýja orku­gjafa geta ekki farið í gegnum flokkunarfélög með slík verkefni, en það er kostnaðarsöm leið og dregur úr vilja einkaaðila á tilraunaverkefnum í orku­skiptum. Endurskoða þarf regluverk vegna mönn­unar á bátum með tilliti til orkuskipta og regluverk um flutning og geymslu á rafeldsneyti svo það hamli ekki innviðauppbyggingu á höfnum.
  • Fjármögnun nýsköpunar, rannsókna og þróunar: Orkuskipti eru dýr fjárfesting og því þarf að tryggja hvata fyrir útgerðir til að fara í orkuskipti, hvort sem það eru vélarskipti í eldri skipum eða nýsmíði skipa. Horfa þarf til þess að aðgengi að hagstæðum fjármögnunarleiðum sé til staðar fyrir orkuskipti, samhliða því að tryggja sanngirni í orkuskiptum vegna núverandi fjárfestingar og smærri aðila. Horfa þarf til þess að koma á fót styrktarsjóði til að styðja við orkuskipti á hafi. Samkvæmt aðgerð B.2 í aðgerðaráætlun ríkisins er miðað að því að útgerðir í haftengdri ferðaþjónustu geti sótt um styrki til orkuskipt og munu styrkirnir geta numið allt að 33% af útlögðum stofnkostnaði. Mikilvægt er að ýta þessum hluta aðgerða í gang til að styðja við tilraunaverkefni og nýsköpun í orkuskiptum. 

2. Orkunýtni

FARÞEGASIGLINGAR:

  • Innleiðing leiðbeinandi siglingarkerfa: Stuðla að aukinni orkunýtni í flotanum í gegnum innleiðingu á flotastjórnunarkerfum og leiðbeinandi siglingarkerfum. Notkun slíkra kerfa tryggir öfluga gagnasöfnun sem nýtist til að meta bestu mögulega orkunýtingu bátana
    út frá t.d. siglingarhraða, leiðarvali og skipulagi ferðar. Við innleiðingu slíkra kerfa er einnig nauðsynlegt að tryggja aukið fjármagn í rannsóknir um orkunýtingu í siglingum.
  • Fyrirbyggjandi aðgerðir: Stuðla að betri nýtingu og betri endingu eldsneytiskerfa með fyrirbyggjandi viðhaldi á vél og skrokk skipa. Velja þarf réttar vélarstærðir, bæta skrokklag og hönnun skrúfa til að tryggja að vélar séu á kjörálagi í notkun.
  • Íblöndun: Greina aukna íblöndun nánar með tilliti til ábyrgðar vélarframleiðanda.

STJÓRNVÖLD:

  • Tryggja aukið fjármagn í rannsóknir: Stuðla þarf að aukinni orkunýtni í flotanum í gegnum innleiðingu á flotastjórnunarkerfum og leiðbeinandi siglingarkerfum. Við innleiðingu slíkra kerfa er nauðsynlegt að tryggja aukið fjármagn í rannsóknir um orkunýtingu í siglingum.
  • Skapa hvata til fyrirbyggjandi viðhalds: Skapa þarf hvata svo hægt sé að ráðast í fyrirbyggjandi viðhald á vél og skrokk skipa sem stuðlar að betri nýtingu og betri endingu eldsneytiskerfa.
  • Þrepaskiptar kröfur um íblöndun: Aukin íblöndun og notkun á brennsluhvötum leiðir til aukinnar orkunýtni og því mikilvægt að ýta undir aukna notkun með þrepaskiptum kröfum. Aukna íblöndun þarf að greina nánar með tilliti til ábyrgðar vélarframleiðanda.

3. Umhverfisvænn rekstur

FARÞEGASIGLINGAR:

  • Umhverfisvottanir: Stefni að innleiðingu umhverfisvottana í auknum mæli.

STJÓRNVÖLD:

  • Full innleiðing á MARPOL: Rafvæðing dagbóka, regluleg skil og eftirlit dagbóka ýtir undir betri flokkun á úrgangi frá útgerðum. Samhliða því þarf að tryggja fulla innleiðingu á MARPOL reglugerðinni fyrir úrgang og tryggja samræmda móttöku á úrgangi í höfnum.
  • Landtenging: Tryggja þarf landtengingu í öllum höfnum til að draga úr olíunotkun innan hafnarsvæðis. Aðgerð B.2 í aðgerðaráætlun ríkisins miðar að enn frekari rafvæðingu við hafnir landsins og samkvæmt stöðuskýrslu 2022 eru landtengingar almennt góðar. Þrátt fyrir það virðist sem svo að hluti flotans sé enn ekki kominn með möguleika á landtengingu.
  • Lögfesta kröfur um grænt bókhald og umhverfisvottanir: Innleiða lagalegar kröfur um grænt bókhald og umhverfisvottanir hjá útgerðum og höfnum. Gera höfnum kleift að setja auknar kröfur og skilyrði á rekstraraðila sem starfa í og á höfnum um umhverfisvænan rekstur og samfélagsábyrgð.

Um samstarfið

Leiðtogi ferðaþjónustu er Katrín Georgsdóttir, umhverfis- og gæðastjóri hjá Eldingu hvalaskoðun.

Hagaðilar

Hafsækin ferðaþjónusta; ferjur, náttúruskoðun og sjóstangaveiði. Þátttakendur í vinnustofum: Elding hvalaskoðun, Whale Safari, Hefering marine, Klappir, Special tours, Iceland seaangling, Faxaflóahafnir, Clara Energy, Þrymur hf. – Vélsmiðja, Rafnar, Iðunn H2, Brim Explorer.

Hafa samband 

Samtök ferðaþjónustunnar

Ágúst Elvar Bjarnason verkefnastjóri loftslagsvegvísis ferðaþjónustu:
agust@saf.is

Lesa ítarefni

2

milljarðar króna

Heildarneysla ferðamanna í farþegaflutningum á sjó árið 2019.