Efnahagsmál - 

05. febrúar 2020

Vextir lækka samhliða lakari horfum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vextir lækka samhliða lakari horfum

Stýrivaxtalækkun Seðlabankans í morgun úr 3% í 2,75% er í senn rökrétt og mikilvægt skref til að styðja við íslenskt atvinnulíf í krefjandi umhverfi. Þeir þættir sem skýra ákvörðun peningastefnunefndar eru m.a. verðbólga áfram undir markmiði, aukinn slaki í efnahagslífinu, hækkandi vaxtaálag til fyrirtækja, hverfandi ný útlán til fyrirtækja , engin fjárfesting í atvinnulífinu, lakari hagvaxtarhorfur, aukið atvinnuleysi, loðnubrestur og vaxandi óvissa í heimsbúskapnum

Stýrivaxtalækkun Seðlabankans í morgun úr 3% í 2,75% er í senn rökrétt og mikilvægt skref til að styðja við íslenskt atvinnulíf í krefjandi umhverfi. Þeir þættir sem skýra ákvörðun peningastefnunefndar eru m.a. verðbólga áfram undir markmiði, aukinn slaki í efnahagslífinu, hækkandi vaxtaálag til fyrirtækja, hverfandi ný útlán til fyrirtækja , engin fjárfesting í atvinnulífinu, lakari hagvaxtarhorfur, aukið atvinnuleysi, loðnubrestur og vaxandi óvissa í heimsbúskapnum

Seðlabankinn birti um leið nýja þjóðhagsspá. Þar er gert ráð fyrir að hagvöxtur á árinu 2020 verði 0,8% sem er heldur minni hagvöxtur en gert var ráð fyrir í síðustu spá í nóvember sl. Þá lækkar Seðlabankinn enn verðbólguspá sína og er nú í fyrsta sinn gert ráð fyrir að verðbólgan verði undir markmiði út spátímann. Hagvaxtar- og verðbólguspá bankans bendir til að frekari vaxtalækkanir séu framundan en það er nauðsynlegt til að draga úr aðhaldi peningastefnunnar, örva fjárfestingu og hvetja eftirspurn í hagkerfinu.

Vextir lækka en önnur stjórntæki hækka á móti
Þrátt fyrir að stýrivextir séu meginstjórntæki Seðlabankans þá hafa önnur stjórntæki ráðandi áhrif á útlánagetu bankanna og þar með útlánsvexti um þessar mundir. Háar kröfur um eiginfjárauka í bankakerfinu hafa hamlandi áhrif á útlánagetu bankanna. Stýrivaxtalækkanir síðustu missera hafa því ekki birst í vaxtakjörum fyrirtækja líkt og við mætti búast. Vísbendingu þessa efnis má finna í hagtölum Seðlabankans um ný útlán til fyrirtækja sem drógust saman um 60% milli áranna 2018 og 2019 og hvoru hverfandi í árslok. Umskiptin skýrast ekki eingöngu af efnahagslægðinni heldur breyttu umhverfi á útlánamarkaði og erfiðara aðgengi að lánsfé. Peningastefnunefnd tekur undir þessar áhyggjur en í yfirlýsingu nefndarinnarstendur,

„Taumhald peningastefnunnar, eins og það er mælt með raun - vöxtum bankans, hefur því heldur aukist frá síðasta fundi nefndarinnar. Hækkun vaxtaálags á lánsfjármögnun fyrirtækja hefur aukið taumhaldið enn frekar.“

Á sama tíma og peningastefnunefnd hefur áhyggjur af auknu taumhaldi var ákvörðun tekin á sviði fjármálastöðugleika á síðasta ári að hækka eiginfjárauka bankanna. Þann 1. febrúar sl.  var hinn svokallaði sveiflujöfnunarauki hækkaður. Sú ákvörðun vekur furðu í miðri efnahagslægð og er á skjön við hvernig skynsamlegt er að beita stjórntæki sem þessu. Eðlilegra væri við núverandi aðstæður að lækka sveiflujöfnunaraukann.

Samtök atvinnulífsins fagna vaxtalækkuninni í morgun en hvetja Seðlabankann til að draga enn frekar úr aðhaldi með áframhaldandi vaxtalækkunum á næstu misserum miðað við óbreyttar horfur. Þá er mikilvægt að  lækka eiginfjárauka og aðra þætti sem takmarka mjög útlánagetu bankanna.

 

 

Samtök atvinnulífsins