21. september 2022

Verðbólguvindar snúast?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Verðbólguvindar snúast?

Verðbólguskotið sem Ísland stendur frammi fyrir skýrist að miklu leyti af hækkun íbúðaverðs. Ný mæling Þjóðskrár á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu bendir til þess að mikill viðsnúningur sé að eiga sér stað og heilt yfir virðast verðbólguvindar teknir að snúast til hagstæðari áttar.

Hraður viðsnúningur á íbúðamarkaði 

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,4% í ágúst sem er mesta lækkun vísitölunnar frá því snemma árs 2019 eftir miklar hækkanir undanfarna mánuði (mynd 1). Vísitala íbúðaverðs er byggð á þriggja mánaða meðaltali vegins fermetraverðs og því eru áhrif síðustu vaxtahækkana og hertra lánaskilyrða Seðlabankans ekki komin fram nema að hluta til.

Enn fremur sýna rannsóknir að vaxtabreytingar geti tekið langan tíma að hafa áhrif, t.d. á íbúðamarkað, en miklar vaxtahækkanir eru að óbreyttu til þess fallnar að lækka íbúðaverð. Almennt skal varast að lesa of mikið í einstaka mælingar enda sveiflur töluverðar frá mánuði til mánaðar, en með þeim fyrirvara má túlka nýjustu mælinguna sem hraðan viðsnúning íbúðaverðs.

Verðbólguvindar snúast Íbúðaverð lækkaði í fyrsta sinn frá árinu 2019 graf

Ný mæling íbúðaverðs lækkar verðbólguspár 

Eðli máls samkvæmt er mikil fylgni á milli húsnæðisverðs í verðbólgumælingum (reiknaðrar húsaleigu) og vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu (mynd 2). Greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir 0,55-0,6% hækkun reiknaðrar húsaleigu í september en allar líkur eru á að það sé talsvert ofmat. Ef gert er ráð fyrir að breyting reiknaðrar húsaleigu í september fylgi vísitölu íbúðaverðs má gera ráð fyrir að verðbólguspár Landsbankans og Íslandsbanka í september lækki úr 9,6% í 9,4%. Verðbólga er nú 9,7% og var 9,9% í júlí svo um væri að ræða mikla hjöðnun verðbólgu á skömmum tíma.

Vísitala íbúðaverðs í ágúst er langt undir spám greiningaraðila Verðbólguvindar snúast

Stærstu liðirnir snúa við 

Um þrjá fjórðu verðbólgunnar nú má rekja til reiknaðrar húsaleigu, matarkörfunnar, flugfargjalda og eldsneytis (mynd 3).

  • Sem fyrr segir lítur út fyrir að hægja muni mjög á takti reiknaðrar húsaleigu 
  • Matvælaverð á heimsmarkaði hefur lækkað undanfarnar vikur sem mun hjálpa verðbólgunni hér á landi
  • Flugfargjöld hafa hækkað mikið eftir að fólk fór að ferðast á ný en leiða má líkur að því að það verði einskiptisáhrif þegar fluggeirinn nær jafnvægi 
  • Eldsneytisverð hefur undanfarið lækkað á heimsmarkaði og hér heima hefur bensín- og díselverð lækkað síðustu vikur

Heilt yfir má því segja að verðbólguhorfurnar hafi að mörgu leyti batnað á síðustu vikum. Eftir stendur þó að verðbólga er enn langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans, einnig hvað varðar alla aðra liði en taldir voru upp hér að framan, sem hafa hækkað um 4% sl. 12 mánuði.

Tækifæri til að ná verðbólgunni í markmið 

Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér en jákvæð þróun síðustu vikna sýnir að aðilar vinnumarkaðsins, stjórnvöld og Seðlabankinn eru í góðri stöðu til að vinna bug á verðbólgunni hratt og örugglega. Það gerist ekki sjálfkrafa og án þess að allir rói í sömu átt. Takist það ekki er hætt við að tækifærið glatist og verðbólgan verði viðvarandi um ókomin ár líkt og sagan sýnir. Á því tapa allir.

---

1 Reiknuð húsaleiga eru samsett úr fasteignaverði fyrir landið allt og verðtryggðum vöxtum. Fasteignamarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er langtum sá stærsti og því mikil fylgni milli vísitölu íbúðaverðs og reiknaðrar húsaleigu. Frávik síðustu mánuði skýrast töluvert af þróun verðtryggðra vaxta sem lækkuðu í vor svo að reiknuð húsaleiga hækkaði minna en vísitala íbúðaverðs. Aftur á móti hafa verðtryggðir vextir síðan farið lækkandi sem ætti að óbreyttu að þýða meiri hækkun reiknaðrar húsaleigu en sem nemur hækkun vísitölu íbúðaverðs.

Samtök atvinnulífsins