1 MIN
Veitingarekstur í járnum
Flestir atvinnurekendur hafa staðið frammi fyrir áskorunum á árinu. Veitingamenn eru þar engin undantekning. Erlendir ferðamenn eru nær hvergi sjáanlegir, samkomutakmarkanir hafa fækkað gestum og opnunartími hefur verið skertur. Frá því heimsfaraldurinn hófst hafa tekjur veitingageirans verið um 20 milljörðum minni en gera hefði mátt ráð fyrir. Margir hafa ekki séð sér fært annað en að hætta rekstri á meðan aðrir hafa gripið til hagræðingaraðgerða sem leitt hafa til fækkunar starfa í greininni. Þá hefur mikil óvissa ríkt um sóttvarnaraðgerðir sem hefur gert áætlanagerð í veitingarekstri nær ómögulega hvað varðar bókanir, aðfangakaup og starfsmannahald.
Flestir atvinnurekendur hafa staðið frammi fyrir áskorunum á árinu. Veitingamenn eru þar engin undantekning. Erlendir ferðamenn eru nær hvergi sjáanlegir, samkomutakmarkanir hafa fækkað gestum og opnunartími hefur verið skertur. Frá því heimsfaraldurinn hófst hafa tekjur veitingageirans verið um 20 milljörðum minni en gera hefði mátt ráð fyrir. Margir hafa ekki séð sér fært annað en að hætta rekstri á meðan aðrir hafa gripið til hagræðingaraðgerða sem leitt hafa til fækkunar starfa í greininni. Þá hefur mikil óvissa ríkt um sóttvarnaraðgerðir sem hefur gert áætlanagerð í veitingarekstri nær ómögulega hvað varðar bókanir, aðfangakaup og starfsmannahald.
Á seinasta ári mátti þegar merkja nokkurn samdrátt í veltu í veitingarekstri vegna fækkunar ferðamanna. Miðað við niðurstöður ársreikninga 2019 frá veitingastöðum með ársveltu yfir 50 milljónum má sjá að afkoma greinarinnar fór minnkandi en EBITDA hlutfall í greininni var um 5% á seinasta ári samanborið við 7% EBITDA hlutfall að meðaltali í greininni áratuginn þar á undan. Ljóst má vera að ekki mátti mikið út af bregða og skiluðu nær 40% fyrirtækjanna tapi á seinasta ári. Þá er skuldahlutfall í greininni á bilinu 70-80% og því ekki mikið svigrúm til aukinnar skuldsetningar í veitingageiranum í yfirstandandi kreppu.
Fækkun ferðamanna býr til 19 milljarða gat
Kórónuveirukreppan hefur ekki bætt úr skák. Það sem af er ári hafa erlendir ferðamenn einungis talið um 27% af þeim fjölda sem sótti Ísland heim á seinasta ári og 23% þess fjölda sem var á sama tíma árs 2018 þegar ferðamannastraumur hingað til lands náði hámarki.
Þessi fækkun endurspeglast í tölum um erlenda kortaveltu og sé veitingageirinn skoðaður sérstaklega má sjá að ferðamannastraumurinn hefur þar bein áhrif. Á árinu 2019, þegar ferðamönnum fækkaði um 14% milli ára, var samdráttur í erlendri kortaveltu nær 10% í veitingageiranum. Frá mars til október á þessu ári hefur kortavelta erlendra korta á veitingastöðum dregist saman um 82% á sama tíma og ferðamönnum hefur fækkað um 85%.
Frá því faraldurinn hófst hefur einnig verið nokkur samdráttur í innlendri kortaveltu og hefur kortavelta í veitingageiranum dregist saman um 22 milljarða í heild að raunvirði frá mars til október, þar af um nær 19 milljarða frá erlendum greiðslukortum. Frá upphafi heimsfaraldursins hefur ferðavilji dregist saman en ljóst þykir að takmarkanir á landamærum hafi fækkað erlendum ferðamönnum enn frekar þar sem merkja mátti snarpan samdrátt í komum erlendra ferðamanna í kjölfar hertra komuskilyrða á landamærum.
Afleiðingin er aukið atvinnuleysi
Þessi mikli tekjusamdráttur hefur leitt til uppsagna í greininni, eins og nær öllum öðrum atvinnugreinum. Frá mars til september á þessu ári hefur heildarsumma staðgreiðsluskyldra launa í veitingasölu og -þjónustu dregist saman um nær 7 milljarða króna milli ára og í september voru um 2.700 færri einstaklingar sem fengu greidd laun í greininni en á sama tíma í fyrra. Þúsundir starfa hafa því glatast í veitingageiranum þrátt fyrir hin ýmsu úrræði yfirvalda til að stemma stigu við auknu atvinnuleysi.
Ekki er útlit fyrir mikið bjartari tíma í veitingarekstri nú yfir hátíðirnar þó litlar tilslakanir hafi verið tilkynntar veitingamönnum í vikunni. Því eru ekki horfur á að landsmenn eða ferðamenn muni njóta margra samverustunda á veitingahúsum landsins með venjubundnum hætti þessa aðventuna.