07. apríl 2025

Úr fátækt í farsæld

Lilja Hrund Lúðvíksdóttir

1 MIN

Úr fátækt í farsæld

Fyrir um fimmtíu árum þáði Ísland, úthafseyja í Norður-Atlantshafi, þróunaraðstoð frá öðrum ríkjum á grundvelli alþjóðasamstarfs. Í dag, aðeins andartaki síðar í stóra samhengi hlutanna, búa Íslendingar við eina mestu velmegun í heimi. Hér eru lífsgæði einna mest, ójöfnuður er lítill og hamingja mælist mikil. Íslenskur sjávarútvegur hefur verið burðarás í hagþróun þjóðarinnar úr fátækt í eina mestu farsæld sem þekkist á byggðu bóli í dag. Það er ekki sjálfgefið að smáþjóð á norðurhjara veraldar takist að byggja upp slíkt samfélag.

Ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku áform um að tvöfalda veiðigjald. Við bætist tvöföldun á kolefnisgjaldi og von er á breyttu fyrirkomulagi strandveiða sem mun að öllum líkindum skerða frekar aflaheimildir til almenna aflamarkskerfisins. Dropinn holar harðan stein. Bersýnilegt er að auknar byrðar munu hækka rekstrarkostnað sjávarútvegsfyrirtækja óhóflega, skerða samkeppnisstöðu á alþjóðlegum markaði og draga úr fjárfestingu í geiranum.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar koma á sama tíma og yfirvöld í nágrannaríkjum okkar, til dæmis Danmörku og Noregi, hafa létt undir með sjávarútveginum til að tryggja samkeppnisstöðu hans á alþjóðamarkaði. Íslenskur sjávarútvegur er einn fárra í heiminum sem ekki reiðir sig á opinbera styrki. Staðan virðist því miður vera sú að yfirvöld annarra ríkja leggja sitt af mörkum til að tryggja samkeppnishæfni sjávarútvegsfyrirtækja, á meðan ríkisstjórn Íslands virðist staðráðin í að takmarka, eftir fremsta megni, arðsemi og samkeppnishæfni greinarinnar. Minna má á að fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að unnið skuli að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu. Tvöföldun á veiðigjaldi er ekki varða á þeirri leið, þvert á móti.

Virkur tekjuskattur fyrirtækja er í dag tæp 38% en vegna veiðigjaldsins er hann 58% hjá útgerðarfyrirtækjum.

Verður fiskvinnsla á Íslandi liðin tíð?

Í þjóðfélagsumræðunni gleymist oft hlutverk sjávarútvegsins í einstakri uppbyggingu íslensks samfélags. Við megum og eigum að vera stolt af því hve vel Íslandi hefur tekist að nýta auðlindir hafsins með sjálfbærum hætti. Fáar atvinnugreinar hafa skipt jafn miklu máli fyrir uppbyggingu þeirrar velmegunar sem við búum við í dag. Fáar atvinnugreinar hafa greitt jafnháar upphæðir í sameiginlega sjóði síðustu áratugina, sjóði sem hafa á endanum gert okkur kleift að standa undir þeirri velferð sem við búum að í dag. Gleymum ekki að veiðigjald er langt frá því eini skatturinn sem íslenskur sjávarútvegur greiðir til samfélagsins. Raunar er það svo að engin atvinnugrein greiðir jafn háan virkan tekjuskatt. Virkur tekjuskattur fyrirtækja er í dag tæp 38% en vegna veiðigjaldsins er hann 58% hjá útgerðarfyrirtækjum.

Víða um land hefur sjávarútvegur mikið efnahagslegt og menningarlegt gildi, ekki síst í smærri samfélögum sem búa við hvoru tveggja, veiðar og vinnslu. Saga íslensks sjávarútvegs er samofin sögu íslensku þjóðarinnar og hvernig hún braust til bjargálna. Ef fram heldur sem horfir er raunhæfur möguleiki á að Íslendingar muni tala um fiskvinnslu á Íslandi sem sögulegt fyrirbæri. Hver vill bera ábyrgð á því?

Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 5. apríl.

Lilja Hrund Lúðvíksdóttir

Lögfræðingur á málefnasviði