Vinnumarkaður - 

03. október 2018

Um mat opinberra aðila á svigrúmi til launahækkana

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Um mat opinberra aðila á svigrúmi til launahækkana

Talsmenn verkalýðsfélaga hafa tjáð sig undanfarna daga um svigrúm til launahækkana. Hefur þar m.a. verið vísað til forsendna fjárlagafrumvarpsins um launabreytingar og almenns mats Seðlabankans á þeim launabreytingum sem samræmast stöðugu verðlagi.

Talsmenn verkalýðsfélaga hafa tjáð sig undanfarna daga um svigrúm til launahækkana. Hefur þar m.a. verið vísað til forsendna fjárlagafrumvarpsins um launabreytingar og almenns mats Seðlabankans á þeim launabreytingum sem samræmast stöðugu verðlagi.

Forsendur fjárlagafrumvarpsins byggja á þjóðhagsspá Hagstofunnar frá 1. júní sl. Þjóðhagsspá Hagstofunnar er byggð á þjóðhagslíkani Seðlabankans. Í spálíkaninu er launabreytingum ekki spáð heldur gefa sér spágerðarmenn ákveðna tölur sem notaðar eru til að spá um aðra þætti. Í fyrrnefndri spá Hagstofunnar segir „Spáð er 5,9% hækkun launavísitölu í ár og svipaðri hækkun á næsta ári en eftir það verði minni hækkanir.“ Nákvæmari framsetning væri að segja að þjóðhagsspáin byggði á þeirri gefnu forsendu að launavísitalan hækkaði um 5,9% á næsta ári. Það er því ekkert mat lagt á svigrúm til launahækkana í kjarasamningum í fjárlagafrumvarpinu eða þjóðhagsspá Hagstofunnar.

Talsmenn Seðlabankans hafa í gegnum tíðina gefið til kynna að svigrúm til launabreytinga sem samræmist stöðugu verðlagi sé að jafnaði 3,5-4% á ári. Það er í raun einföld þumalfingursregla sem byggir á því að leggja saman verðbólgumarkmiðið, 2,5%, og framleiðniaukningu sem að jafnaði hefur verið 1,0-1,5% á ári þegar litið er til undanfarinna áratuga. Launavísitalan hækkaði um 8,5% að meðaltali síðustu þrjú ár, árin 2015-2017, og á þessu ári stefnir hækkun hennar í 6,5%.

Hækkun launa undanfarin ár hefur verið langt umfram það svigrúm til launahækkana sem samrýmist stöðugu verðlagi. Þær umframhækkanir hafa augljóslega takmarkað það svigrúm sem er til launahækkana í komandi kjarasamningum.

 

Samtök atvinnulífsins