1 MIN
Trump áhrifin
Bandaríkjamenn hafa kosið nýjan forseta. Ekki aðeins var frambjóðandi repúblikana valinn forseti heldur náði flokkurinn hreinum meirihluta í efri og neðri deild Bandaríkjaþings. Donald Trump lagði í kosningabaráttu sinni mikla áherslu á skattalækkanir, bæði fyrir fólk og fyrirtæki, hann lagði áherslu á að örva hagvöxt, einfalda regluverk og skapa störf – meðal annars með tollum á viðskiptalönd Bandaríkjanna (sem að vísu er skattahækkun).
Fyrir evrópsk fyrirtæki þá eru þrjú mikilvæg mál sem þarf að hafa til hliðsjónar í kjölfar kosningaúrslitanna samkvæmt nýlegri samantekt frá Krisjanis Karins, sem var forsætisráðherra Lettlands á árunum 2019-2023 og starfar nú sem ráðgjafi hjá Kreab Worldwide, ráðgjafafyrirtæki sem starfar með Samtökum atvinnulífsins.
Efnahagsmál
Á fyrra kjörtímabili Donalds Trump lagði hann á innflutningstolla á vörur frá Kína, Kanada, Mexíkó og Evrópusambandinu. Verndarstefnunni var svo að mestu haldið áfram í tíð Biden stjórnarinnar og þverpólitísk samstaða hefur því myndast um hana um fyrirsjáanlega framtíð.
Það er von á því að þessi stefna verði áfram í gildi undir nýrri stjórn Trump. Markmið tollanna er fyrst og fremst að verja bandarísk störf og bandarískan iðnað fyrir „ósanngjarnri“ samkeppni. Það þýðir að Bandaríkin vilja að viðskiptalönd sín breyti hegðun sinni, t.d. dragi úr styrkjum eða niðurgreiðslum eða létti af einhverjum hömlum af bandarískum innflutningi.
Krisjanis telur að þessi stefna muni þvinga Evrópusambandið til þess að bregðast við með sambærilegum hætti. Í besta falli, mun hún leiða til alvarlegra samningaviðræðna á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um hvernig megi ná betra „jafnvægi“ í viðskiptum á milli markaðanna tveggja. Í versta falli, gæti stefnan leitt til spírals hamlandi innflutningstolla á fjölbreyttar vörur, sem mun aftur hækka kostnað fyrirtækja og neytenda bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.
Öryggismál
NATO er bandalag 32 ríkja í Evrópu og Norður Ameríku. Það er öryggis- og varnarbandalag sem starfar í samræmi við stofnsáttmála sinn, Atlandshafssáttmálann sem var undirritaður 4. apríl 1949 í Washington af stofnríkjum bandalagsins, en Ísland var eitt þeirra.
Öryggi Evrópu byggir á aðild að NATO, sem var stofnað árið 1949. NATO sjálft byggir á styrkleika og viðbúnaði bandaríska hersins. Þangað til fyrir stuttu, fjárfestu einungis örfá evrópsk NATO ríki 2% af VLF í varnarmál, sem allir NATO meðlimir höfðu samþykkt. Núna er staðan talsvert önnur, nánast 75% allra NATO ríkja fjárfesta þá upphæð sem var samþykkt. Trump stjórnin mun halda áfram að þrýsta á evrópska fjárfestingu í varnarmálum, en það gerðu Obama og Biden stjórnirnar einnig.
Fyrir Bandaríkin þá er NATO framlenging á hernaðarstyrk þeirra, og það er ekkert sem gefur til kynna að Trump muni hafa áhuga á því að draga úr hernaðarlegum styrk Bandaríkjanna. Á móti kemur að Bandaríkin þarfnast þess að Evrópa standi undir eigin vörnum, svo Bandaríkin hafi efni á því að ráðstafa hernaðarstyrk sínum til annarra svæða þar sem þeirra er þarfnast t.d. við Kyrrahafið.
Frá efnahagslegu sjónarmiði, verður mikil eftirspurn í Evrópu eftir vopnum, skotfærum og hernaðartækni í fyrirsjáanlegri framtíð. Áskorunin verður fyrir aðildarríki Evrópusambandsins, sem einnig eru aðilar NATO, að samþykkja pólitískt að vinna nánar saman til þess að komast yfir það sem hindrar samstarf og samþættingu í varnarmálum.
Kína
Fíllinn í herberginu þegar kemur að hagsmunum Bandaríkjanna er Kína, ekki Rússland. Frá sjónarhóli Bandaríkjanna er styrkur Kína, bæði efnahagslegur og hernaðarlegur, mesta ógnin við öryggi þeirra. Trump mun líklega halda áfram að draga úr viðskiptasambandi Bandaríkjanna og Kína og er jafnframt líklegur til að þrýsta á evrópsk samstarfsríki til þess að færa sig frá stefnunni um að „draga úr áhættu af“ viðskiptum við Kína yfir í að „aftengja“ evrópskt hagkerfi frá Kína.
Evrópa gat, að sögn Krisjanis, brugðist við því hversu háð hún var rússneskri olíu og gasi, vegna þess að það voru til staðkvæmdarvörur á markaðinum, en aftenging hagkerfisins við Kína er erfiðari. Ástæðan er sú að evrópskur iðnaður er háður Kína, ekki bara þegar kemur að virðiskeðjum, heldur líka útflutningi, t.d. bílaframleiðenda í Þýskalandi. Það er vissulega mikill munur á milli evrópskra landa þegar kemur að viðskiptum við Kína en þess vegna hefur Evrópusambandið ekki heildstæða stefnu gagnvart Kína. Þessi sundurleitni hagsmuna sem Evrópa stendur nú frammi fyrir þegar kemur að hagsmunum Bandaríkjanna og Evrópu gagnvart Kína mun auka spennu í pólitískum og jafnvel efnahagslegum skilningi.
Hagsmunir og þarfir
Sigur Trump í bandarísku forsetakosningunum er skýrt merki um að Bandaríkin muni halda áfram að keyra á pólitíska og efnahagslega stefnu sem setur hagsmuni Bandaríkjanna í fyrsta sæti. Fyrir flesta bandaríska kjósendur þýðir þetta störf og tækifæri. Það kann þó að koma niður á samstarfi við bandalagsþjóðir í einhverjum tilfellum – jafnvel gagnvart Evrópu – fari hagsmunir og þarfir ekki saman.