1 MIN
Tímamótakjarasamningur vegna tæknigreina undirritaður
Samtök atvinnulífsins hafa undirritað tímamótakjarasamning við Rafiðnaðarsamband Íslands vegna Félags tæknifólks. Um er að ræða fyrsta heildstæða kjarasamninginn vegna tæknigreina en samningurinn nær til allra sérhæfðra tæknitengdra starfa í fjölmiðlun og annarri miðlun, upplýsingatækni, hugverka-, fjarskipta- og leikjaiðnaði, sviðslistum, kvikmyndum og viðburðaþjónustu. Launamyndum miðast við hæfniramma fyrir tæknistörf en framundan er vinna við að hæfnigreina þau störf sem falla undir kjarasamninginn. Kjarasamningurinn er að öðru leiti systursamningur almenna kjarasamnings SA og RSÍ.
Samhliða undirritun kjarasamningsins féllu niður sérkjarasamningar eftirfarandi fyrirtækja og tæknifólk þannig sameinað í einum heildstæðum kjarasamningi:
· Leikfélag Reykjavíkur
· RÚV
· Sýn
· Síminn
· Míla
Kjarasamninginn má nálgast hér en lögmenn vinnumarkaðssviðs SA veita ráðgjöf um samninginn.