1 MIN
„Þetta snýst um efnahagsmálin, vitleysingur“
Árið 1992 átti lítt þekkt forsetaefni kappi við George Bush eldri, þá sitjandi forseta í Bandaríkjunum. Bush þótti fara sterkur inn í baráttuna en hann hafði staðið sig vel í utanríkismálum, tekið á innrás Saddam Husseins í Kuwait án þess að festast með herinn í Miðausturlöndum. Vegna vinsælda Bush var umtalað að líklegustu frambjóðendur Demókrata hefðu ekki fengist í slaginn og því hefðu þeir setið uppi með ríkisstjóra Arkansas í framboði.
Þessi ríkisstjóri gerði sér þó lítið fyrir og sigraði forsetann sitjandi í kosningunum. Rekja margir kosningaúrslitin til þess að efnahagsástandið snerist skyndilega Bush mjög í óhag og kenna sumir þáverandi seðlabankastjóra, Alan Greenspan, um að hafa haft forsetastólinn af Bush, með því að hækka mjög vexti í Bandaríkjunum. Ríkisstjórinn, Bill nokkur Clinton, áttaði sig á því að efnahagsmálin skiptu kjósendur mestu, en óformleg einkunnarorð kosningabaráttunnar voru „Þetta snýst um efnahagsmálin, vitleysingur (e. It‘s the economy, stupid).“
Þrátt fyrir að vextir væru byrjaðir að lækka þegar Clinton hlaut kjör, tók hann á sig rögg og skar upp herör gegn háum vöxtum og verðbólgu með því að auka aðhald í ríkisfjármálunum, m.a. með því að draga úr útgjöldum um ríflega 250 milljarða dollara á fimm ára tímabili. Fyrir vikið, segir sagan, varð meira svigrúm til vaxtalækkana en ella og vextir héldust tiltölulega lágir langt inn á forsetatíð Clintons þrátt fyrir kröftugan hagvöxt.
Það er og verður mesta hagsmunamál vinnumarkaðarins og almennings alls að koma í veg fyrir annars vegar þráláta háa vexti og hins vegar harða lendingu með tilheyrandi atvinnuleysi.
Nú er stefnt að skyndikosningum í lok nóvember og því tækifæri fyrir íslenska stjórnmálamenn að taka Clinton sér til fyrirmyndar. Því miður auðnaðist fráfarandi ríkisstjórn ekki að ná hallalausum fjárlögum áður en hún lauk störfum. Vaxtalækkunarferli er hafið en raunhæf áætlun um að ná böndum á ríkisfjármálin gæti byggt undir hraðari og meiri vaxtalækkun en ella.
Það er og verður mesta hagsmunamál vinnumarkaðarins og almennings alls að koma í veg fyrir annars vegar þráláta háa vexti og hins vegar harða lendingu með tilheyrandi atvinnuleysi. Til að ná að feta einstigið þar á milli er raunhæfasta og besta lausnin að draga úr útgjöldum en það má til dæmis gera með almennri aðhaldskröfu, með sameiningum stofnana og með því að fara ofan í saumana á einstaka útgjaldaliðum þvert á málaflokka. Burtséð frá hagstjórnarsjónarmiðum verður aðhaldsverkefnið áfram meðal mikilvægustu mála, því ljóst er að öldrun þjóðarinnar og innviðauppbygging kalla á aukin útgjöld á næstu árum, sem ekki verða fjármögnuð með skattahækkunum. Raunar er meiri þörf á almennum skattalækkunum en hækkunum. Kröfur í loftslagsmálum munu til dæmis að óbreyttu draga úr samkeppnishæfni Íslands, einkum gagnvart þjóðum utan Evrópu. Það kallar á mótvægisaðgerðir, og skattalækkanir eru sennilega heppilegasta leiðin til að efla samkeppnishæfni samhliða árangri í loftslagsmálum. Það krefst aftur aðhalds á útgjaldahliðinni.
Hvort frambjóðendur ætli að setja þau mál sem skipta bæði heimili og atvinnulíf mestu máli, að ná niður verðbólgu og skapa skilyrði til vaxtalækkunar - miða að efnahagslegum stöðugleika eða ekki í komandi kosningum á enn eftir að koma í ljós. En það er nokkuð ljóst að einkunnarorðin frægu úr kosningabaráttu Clintons eru ekki síður sönn í dag en þau voru fyrir rúmum 30 árum – þetta snýst nefnilega um efnahagsmálin.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 17. október.