14. janúar 2022

Takmarkanir án trúverðugra lausna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Takmarkanir án trúverðugra lausna

Ríkisstjórnin verður að koma fram með trúverðugar aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum samhliða hertum sóttvarnartakmörkunum, án tafar. Það er allra hagur.

Síðustu misseri hafa verið atvinnulífinu þungbær. Þrátt fyrir afléttingu á sóttkví hjá þríbólusettum og styttingu einangrunar er ljóst að íþyngjandi aðgerðir sóttvarna hafa haft gífurleg áhrif á daglega starfsemi margra íslenskra fyrirtækja.

Nú þegar standa fyrir dyrum enn frekari herðingar, fækkun á hámarksfjölda í rými ásamt lokun á starfsemi, er ljóst að stjórnvöld verða að koma fram með frekari lausnir gagnvart fyrirtækjum sem verst verða fyrir barðinu. Flest þau úrræði sem hafa gefist vel á síðustu árum vegna faraldursins hafa nú runnið sitt skeið. Fjöldi fyrirtækja er þrátt fyrir þetta enn að troða marvaðann og lítið má bregða útaf. Útvíkkun á lokunarstyrkjum og öðrum úrræðum fyrir atvinnulífið er eðlileg krafa til að koma til móts við þá starfsemi sem sætir áfram takmörkunum, en ljóst má vera að tíu manna samkomutakmarkanir eru í raun og veru gífurleg takmörkun á starfsemi fjölmargra fyrirtækja.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa talað um mikilvægi þess að hleypa súrefni inn í atvinnulífið með það að markmiði að viðspyrnuþróttur þess sé til staðar þegar faraldurinn er á braut. Skjót viðbrögð stjórnvalda og aðgerðir á fyrri hluta faraldurins báru vissulega þess merki og því eru vonbrigði að frekari stuðningsaðgerðir hafi ekki verið kynntar samfara herðingu sóttvarnaaðgerða sem kynntar voru í dag.

Ríkisstjórnin verður að koma fram með trúverðugar aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum samhliða hertum sóttvarnartakmörkunum, án tafar. Það er allra hagur.

Samtök atvinnulífsins