1 MIN
Tækifæri framtíðarkynslóða
Nýting innlendra orkulinda og innflutningur á jarðefnaeldsneyti er ofarlega í huga vegna ástandsins í Evrópu í dag. Mikilvægt er að við á Íslandi séum sjálfum okkur nóg um orku. Græn orka getur skapað ný störf og verðmæt tækifæri fyrir komandi kynslóðir, hvort sem hún er nýtt innanlands til orkuskipta, í uppbyggingu atvinnulífsins eða til útflutnings.
Á sama tíma og tækifærin eru til staðar þá þurfum við að horfast í augu við að skortur á grænni orku mun koma niður á tækifærum til vaxtar en orkuskipti, fólksfjölgun og ný atvinnustarfsemi krefst aukinnar orkuframleiðslu. Til að tryggja næga græna orku til uppbyggingar atvinnu og betri lífkjara framtíðar þarf skýra stefnu yfirvalda um nýtingu orkukosta og uppbyggingu innviða enda forgangsmál að komandi kynslóðir búi við orkuöryggi.
Íslenskt atvinnulíf byggir á öflugum stoðum og hefur í gegnum árin sýnt hvers það er megnugt þegar kemur að því að mæta áskorunum með nýrri tækni, hugviti og elju. Fram undan eru spennandi tímar í íslensku efnahagslífi þegar kemur að fjölbreyttum leiðum til orkuöflunar, orkuskiptum, útflutningi á vörum með lágt kolefnisfótspor, uppbyggingu grænna innviða um allt land, innleiðingu á hringrásarhagkerfi, bættri sorphirðu, nýsköpun og svo mætti lengi telja.
Ábyrg afstaða atvinnulífsins
Um þessar mundir fara fram ársfundir aðildarsamtaka Samtaka atvinnulífsins. Samtök iðnaðarins héldu glæsilegt Iðnþing í síðustu viku, en samtökin tileinka árið 2022 grænni iðnbyltingu. Samorka hélt fróðlegan ársfund undir yfirskriftinni Græn framtíð og hvað þarf til þess að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust innan fárra ára. Samtök verslunar og þjónustu fjölluðu um mikilvægi 360° sjálfbærnihugsunar og hvernig einstaklingar og fyrirtæki geta lagt sívaxandi áherslu á sjálfbærnina á tímum tæknibreytinga. Margir aðilar úr fjölbreyttum áttum komu á fundina og ljóst er að sjálfbærni er ekki tískuorð heldur lykilþáttur í sterku og öflugu hagkerfi.
Á fundunum kom skýrt fram að atvinnulífið er að taka stór og markviss skref í átt að sjálfbæru efnahagslífi ásamt því að hafa margt fram að færa í baráttunni gegn loftslagsvánni. Margvísleg tækifæri felast í því að flytja tækni út fyrir landsteinana í formi hugvits, tækni, vöru og þjónustu enda nauðsynlegt að auka samvinnu þvert á landamæri þar sem loftslagsbreytingarnar eru hnattrænt vandamál. Þar hafa Íslendingar margt fram að færa.
Einnig kom fram að enn eru mörg ljón á veginum. Það er því stjórnvalda að sjá til þess að rekstrarskilyrði atvinnulífsins séu eins og best verður á kosið. Innleiða þarf hagræna hvata og skapa umgjörð sem leyfir nýsköpun að blómstra svo nauðsynlegar tæknilausnir, sem styðja loftslagsmarkmið Íslands, geti orðið að veruleika.
Grænt fjármagn er lykilþáttur í að finna lausnir á loftslagsvandanum og mikilvægt er að fjármagn leiti í réttan farveg. Umhverfisskattar eiga ekki að vera til tekjuöflunar fyrir ríkið heldur nýtast til að ná settum markmiðum í loftslagsmálum og styðja atvinnulífið við að fjárfesta í umhverfisvænum lausnum. Úrbætur á stoðum sjálfbærrar þróunar haldast nefnilega í hendur við efnahagslega og tæknilega framþróun í fyrirtækjum, en eiga ekki uppsprettu sína í opinberum reglugerðum eða tilskipunum.
Úrslitaleið
Eðlilega viljum við vera í fararbroddi þegar kemur að grænni framtíð og Ísland er komið vel á veg. Vegferðin má þó ekki vera greidd of dýru verði og árangurinn ekki vera á kostnað hagvaxtar. Eins og Halldór Benjamín, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í stuttu myndskeiði á ársfundi Samorku þá ,,ríkir þjóðarsátt á Íslandi um bætt lífskjör til framtíðar“ en það ríkir minni sátt um það með hvaða hætti við eigum að standa undir bættum lífskjörum. Þróttmikið atvinnulíf er eina svarið.
Öflug samvinna atvinnulífs og stjórnvalda mun varða leiðina að settum markmiðum, enda er nú þegar mikil deigla til staðar um nýsköpun og þróun sem styður markmiðin vel. Leiðin áfram getur ekki verið að pakka í vörn og hörfa með þann árangur sem náðst hefur, heldur er það sá árangur sem leggur grundvöll að verðmætasköpun og lífsgæði samtímans og til framtíðar.