11. apríl 2025

Sviptingar í alþjóðaviðskiptum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sviptingar í alþjóðaviðskiptum

Forseti Bandaríkjanna hyggst fresta viðbótartollum. Tíu prósent lágmarkstollur sem Ísland átti að sæta breytist þó ekki.

Samtök atvinnulífsins hafa fylgst náið með sviptingum í tollamálum undanfarið. Í vikunni tóku markaðir víðs vegar um heiminn dýfu en í kjölfarið tilkynnti Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, að hann hygðist fresta hluta þeirra tolla sem hann boðaði í síðustu viku um 90 daga. Þó mun frestunin ekki ná til Íslands, sökum þess að hún nær eingöngu til viðbótartolla umfram 10% lágmarkstolla sem hafa nú þegar verið innleiddir, en Ísland átti ekki að sæta viðbótartollum skv. upphaflegri tilkynningu Trump. Þá mun frestunin heldur ekki taka til 25% tolla á ál og stál, né tolla á bifreiðar sem höfðu áður verið kynntir.

Frestunin nær ekki til Kínverja en viðskiptastríðið milli Bandaríkjanna og Kína stigmagnast með hverjum deginum. Tilkynnt hefur verið um 145% tolla á kínverskar vörur í Bandaríkjunum og 125% tolla á bandarískar vörur í Kína. Viðskiptastríðið milli ríkjanna tveggja mun ekki eingöngu hafa áhrif á löndin tvö en fyrirséð er að afleidd áhrif á aðra markaði verði töluverð. Meðal annars er búist við því að kínverskar vörur sem áður fóru til Bandaríkjanna leiti inn á Evrópumarkað sem geti komið framleiðendum innan álfunnar illa.

Þó mun frestunin ekki ná til Íslands, sökum þess að hún nær eingöngu til viðbótartolla umfram 10% lágmarkstolla sem hafa nú þegar verið innleiddir, en Ísland átti ekki að sæta viðbótartollum skv. upphaflegri tilkynningu Trump.

Evrópusambandið tilkynnti í kjölfar tilkynningar um frestun að það hygðist einnig fresta mótaðgerðum sínum gagnvart Bandaríkjunum um 90 daga en mótaðgerðirnar voru formlega samþykktar miðvikudaginn 9. apríl af hálfu aðildarríkja sambandsins. Frestun þeirra mun gilda fram að miðjum júlí en sambandið mun fram að þeim tíma leggja áherslu á að ná samningum við Bandaríkin.

Í þessu samhengi undirbýr ESB um þessar mundir rannsókn um mögulegar verndaraðgerðir gagnvart áli (e. Safeguard measures) á vettvangi ESB. Samtök atvinnulífsins hafa lagt á það höfuðáherslu og unnið þétt með stjórnvöldum að Ísland verði ekki fyrir áhrifum af slíkum verndaraðgerðum komi þær til. Meðal annars hefur Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, fundað með ráðgjafa Maroš Šefčovič, sem fer fyrir viðskipta- og tollamálum sambandsins vegna málsins. Í vikunni fundaði Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, með Ursulu Von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, en þar voru alþjóðaviðskipti og mögulegar verndaraðgerðir gagnvart áli til umræðu. Ekki tókst að fá afgerandi svar um hvort Ísland yrði undanskilið verndaraðgerðum en forsætisráðherra sagði Von der Leyen þó hafa sýnt málflutningi Íslands mikinn skilning og að tryggt verði gott upplýsingaflæði milli ESB og Íslands í aðdraganda ákvarðana.

Samtök atvinnulífsins munu áfram fylgjast með gangi mála, vinna með aðildarsamtökum sínum, ráðgjöfum sínum í Brussel, BusinessEurope og íslenskum stjórnvöldum að því að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja á alþjóðavísu, enda eru alþjóðaviðskipti lífæð íslenska hagkerfisins.

Samtök atvinnulífsins