Fréttir - 

21. september 2023

Stöndum vörð um sjálfstæði eftirlitsstofnana

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stöndum vörð um sjálfstæði eftirlitsstofnana

Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli Brims hf. gegn Samkeppniseftirlitinu er staðfest að lög geri ekki ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitið geri sérstaka samninga við stjórnvöld eða aðra aðila um einstakar athuganir. Slíkt samræmist ekki hlutverki Samkeppniseftirlitsins sem sjálfstæðs stjórnvalds.

Samkeppniseftirlitið gegnir lykilhlutverki við að tryggja samkeppni á íslenskum markaði, sem styður við hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins er grunnforsenda þess að stofnunin njóti trausts og geti sinnt þessu mikilvæga hlutverki. Það er því mikilvægt að gerðar verði ráðstafanir til að stofnunin geti endurheimt traust í kjölfar niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar.

Lögum samkvæmt hefur Samkeppniseftirlitið það hlutverk að kanna stjórnunar- og eignatengsl á milli fyrirtækja. Aftur á móti orkar það tvímælis að stofnunin hyggist halda ótrauð áfram með sömu athugun og hún var gerð afturreka með af áfrýjunarnefnd samkeppnismála, þar sem samningur um athugunina samræmdist ekki hlutverki Samkeppniseftirlitsins sem sjálfstæðs stjórnvalds.

Traustur lagagrundvöllur forsenda miðlunar upplýsinga

Í frétt sem birtist á vef Samkeppniseftirlitsins þann 20. september 2023, þar sem fjallað er um niðurstöðu áfrýjunarnefndar og viðbrögð eftirlitsins kemur auk þess fram að stofnunin hyggist halda áfram að beita sér fyrir auknu samstarfi opinberra stofnana sem hafi hlutverki að gegna í eftirliti með eða söfnun upplýsinga um stjórnunar- og eignatengsl. Í því samhengi vilja Samtök atvinnulífsins árétta að miðlun upplýsinga innan stjórnsýslunnar verður að eiga sér traustan lagagrundvöll.

Þannig geta eftirlitsstjórnvöld notið víðtækra úrræða til upplýsinga- og gagnaöflunar, en við framkvæmd og nýtingu þeirra verður að gæta meðalhófs. Í lögum er hvergi almenn heimild til miðlunar upplýsinga innan stjórnsýslunnar, slíka heimild getur þó að líta í ýmsum sérlögum. Þá verður miðlun upplýsinga á milli stjórnvalda að hvíla á lagaheimild, auk þess sem gæta verður að persónuverndarsjónarmiðum og þagnarskyldu. Slík framkvæmd verður að byggja á lögmætum markmiðum, vera skýr, fyrirsjáanleg og gæta verður meðalhófs. Jafnvel þó miðlun upplýsinga innan stjórnsýslunnar geti verið lögleg, þá verður hún að eiga sér málefnalegan grundvöll í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar.

Mikilvægt er að gætt sé að sjónarmiðum um verkaskiptingu á milli stjórnvalda annars vegar og sjálfstæðis eftirlitsstjórnvalda hins vegar, auk þess sem upplýsingamiðlun innan stjórnsýslunnar taki mið af lögum

Samtök atvinnulífsins