1 MIN
Stöðugleiki snýst um gagnkvæmt traust
Í ljósi nýlegrar umfjöllunar fjölmiðla um ágreining um lögmæti kjarasamningsins á milli SVEIT og hins nýstofnaða stéttarfélags Virðingar vilja Samtök atvinnulífsins koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri:
SVEIT er ekki aðili að Samtökum atvinnulífsins og SA hafa ekkert með þeirra málefni að gera. SA beita sér ekki gegn því að aðrir aðilar geri kjarasamninga. Þeir kjarasamningar verða á hinn bóginn, líkt og kjarasamningar SA við sína viðsemjendur, að uppfylla þær kröfur sem vinnulöggjöfin setur. Ljóst er að umræddur kjarasamningur SVEIT við Virðingu felur almennt í sér lægri heildarlaunakjör og minni réttindi en skv. kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins við aðildarfélög Eflingu/SGS fyrir sömu störf.
Félagsmenn SA greiða samkvæmt þeim kjarasamningum sem við gerum og um þá er enginn ágreiningur. Í nýgerðum Stöðugleikasamningum var einmitt samið um ákveðnar breytingar á veitingasamningi SA við SGS og Eflingu, til að koma til móts við sérstakt rekstrarumhverfi veitingageirans.
„ Samtök atvinnulífsins lögðu mikið kapp á það með viðsemjendum sínum fyrr á þessu ári að gera langtímakjarasamning sem gæti byggt undir efnahagslegan stöðugleika. Okkur hefur verið tíðrætt um það að slíkur stöðugleiki komi ekki af sjálfu sér. Stöðugleiki krefst festu og samstöðu og snýst ekki síður um gagnkvæmt traust. Samtök atvinnulífsins leggja ætíð áherslu á að fyrirtæki og félagasamtök spili eftir leikreglunum og fylgi lögum og samningum “.
-Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins