Fréttir - 

18. júní 2020

Stjórnendur 400 stærstu í lok maí 2020: Kórónukreppa

Vinnumarkaðsmál

Efnahags- og skattamál

Starfsumhverfi atvinnulífsins

Vinnumarkaðsmál

Efnahags- og skattamál

Starfsumhverfi atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stjórnendur 400 stærstu í lok maí 2020: Kórónukreppa

Í maí og fyrstu viku júní var gerð könnun meðal stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og horfum í efnahagslífinu. Á könnunartímabilinu voru áhrif COVID-19 veirusjúkdómsins á efnahagslífið í hámarki.

Í maí og fyrstu viku júní var gerð könnun meðal stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og horfum í efnahagslífinu. Á könnunartímabilinu voru áhrif COVID-19 veirusjúkdómsins á efnahagslífið í hámarki.

Dökkt mat á núverandi aðstæðum

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, fær nú gildið 2 sem er svipuð niðurstaða og ríkti um árabil í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Níu af hverjum tíu stjórnendum telja aðstæður slæmar en nánast enginn telur þær góðar.

Helmingur stjórnenda væntir bata eftir 6 mánuði

Vísitala efnahagslífsins eftir sex mánuði sýnir gerólíka mynd og fær gildið 121 þar sem 200 er hæsta gildi. Niðurstaðan sýnir að fleiri stjórnendur telja að aðstæður verði betri eftir sex mánuði en að þær verði verri. 49% stjórnenda telja að aðstæður verði betri, 32% að þær verði verri en 19% að þær verði óbreyttar.

Nánast enginn skortur á starfsfólki

Skortur á starfsfólki hefur farið hratt minnkandi frá árinu 2017. Áður en kórónukreppan skall á töldu 10% stjórnenda fyrirtækin búa við skort en nú telja 6% svo vera. Þetta er svipuð niðurstaða og fékkst árið 2010 en þá mældist skorturinn 6% á árinu öllu.

 

Starfsmönnum gæti fækkað um 2.600 á næstu 6 mánuðum

25 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 6% fyrirtækjanna búast við fjölgun starfsmanna en 38% við fækkun á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsmönnum fyrirtækjanna í heild fækki um 2,0% á næstu sex mánuðum, til viðbótar við þá fækkun sem orðin var við gerð könnunarinnar um mánaðamót maí og júní. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fækkað um 2.600 á næstu sex mánuðum frá júníbyrjun. Fækkunin er 3.000 hjá þeim fyrirtækjum sem sjá fram á fækkun starfsfólks en fjölgunin er 400 hjá þeim sem sjá fram á fjölgun. Þessa niðurstöðu ber að skoða í ljósi þess að starfsfólki fyrirtækjanna hafði fækkað mikið skömmu fyrir gerð könnunarinnar. Niðurstaða vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar fyrir apríl 2020 gaf til kynna að störfum í heild hefði fækkað um 22.000 frá sama mánuði 2019.

Stjórnendur í ferðaþjónustu og flutningum sjá fram á mesta fækkun starfsmanna en verslun kemur þar á eftir.

Væntingar aðeins yfir verðbólgumarkmiði

Verðbólguvæntingar stjórnenda til eins árs eru nú 3,0% eftir að hafa verið við verðbólgumarkmið Seðlabankans undanfarið ár. Þær væntingar endurspegla nokkra lækkun gengis krónunnar á fyrri hluta ársins. Verðbólguvæntingar til tveggja ára eru einnig 3,0% eins og verið hefur undanfarið ár. Eftir 5 ár búast stjórnendur við að verðbólgan verði við markmið Seðlabankans.

Samdráttur í erlendri eftirspurn

Stjórnendur búast við svipaðri innlendri eftirspurn á næstu 6 mánuðum og verið hefur undanfarið. Helmingur þeirra býst við að hún standi í stað, en fjórðungur að hún aukist og jafn margir að hún minnki. Horfur eru heldur lakari á erlendum mörkuðum þar sem fjórðungur stjórnenda býst við aukinni eftirspurn þar en um 40% við samdrætti.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er könnunin ítarlegri með 20 spurningum. Að þessu sinni var hún gerð á tímabilinu 12. maí til 8. júní 2020 og voru spurningar 9.

Í úrtaki voru 413 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu   205, þannig að svarhlutfall var 50%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins