Fréttir - 

15. mars 2021

Stjórnendur 400 stærstu í febrúar 2021: Brúnin lyftist

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stjórnendur 400 stærstu í febrúar 2021: Brúnin lyftist

Reglubundin könnun meðal stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og horfum í efnahagslífinu var gerð í febrúar og fyrstu viku mars 2021. Á könnunartímabilinu voru ennþá umfangsmiklar sóttvarnaraðgerðir í gildi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og áhrif þeirra mikil á efnahagslífið. Jafnframt voru bólusetningar gegn veirunni komnar nokkuð áleiðis, bæði hérlendis og í viðskiptalöndunum, og útlit fyrir að um mitt árið eða fljótlega eftir það yrði hjarðónæmi náð.

Reglubundin könnun meðal stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og horfum í efnahagslífinu var gerð í febrúar og fyrstu viku mars 2021. Á könnunartímabilinu voru ennþá umfangsmiklar sóttvarnaraðgerðir í gildi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og áhrif þeirra mikil á efnahagslífið. Jafnframt voru bólusetningar gegn veirunni komnar nokkuð áleiðis, bæði hérlendis og í viðskiptalöndunum, og útlit fyrir að um mitt árið eða fljótlega eftir það yrði hjarðónæmi náð.

Slæmt mat á núverandi aðstæðum

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, tekur nú stökk upp á við þótt gildið sé enn lágt. Rúmur helmingur stjórnenda taldi núverandi aðstæður slæmar, 13% að þær væru góðar en rúmur þriðjungur hvorki góðar né slæmar. Í öllum atvinnugreinunum töldu mun fleiri stjórnendur að staðan væri slæm en að hún væri góð.

Helmingur stjórnenda væntir bata eftir 6 mánuði

Vísitala efnahagslífsins eftir sex mánuði sýnir bjartari mynd og fær gildið 164 þar sem 200 er hæsta gildi. Niðurstaðan sýnir að mun fleiri stjórnendur telja að eftir sex mánuði verði aðstæður betri en að þær verði verri. 62% stjórnenda telja að aðstæður verði betri, 13% að þær verði verri en 25% að þær verði óbreyttar. Þetta eru mun jákvæðari væntingar en fyrir þremur mánuðum þar sem í desember 2020 taldi 51% stjórnenda að aðstæður yrðu betri eftir sex mánuði en 24% að þær yrðu verri.

 

Spurn eftir starfsfólki eykst lítið

Skortur á starfsfólki minnkar lítið, enn sem komið er. Nú telja 11% fyrirtækjanna sig búa við skort en hann hefur verið 6-9% á tíma kórónukreppunnar. Mestur skortur er í byggingarstarfsemi (18%) og þjónustu (11%) en minnstur í verslun og fjármálastarfsemi.

 

Starfsmönnum gæti fjölgað um 800 á næstu 6 mánuðum

Þrátt fyrir að mikill meirihluti stjórnenda búist við betri aðstæðum eftir sex mánuði skilar það sér ekki í áformum um umtalsverða fjölgun starfsfólks.

24 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 25% þeirra búast við fjölgun starfsmanna, 14% við fækkun og aðrir óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsfólki fyrirtækjanna í heild fjölgi um 0,6% á næstu sex mánuðum. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fjölgað um rúmlega 800 á næstu sex mánuðum, frá febrúarmánuði. Fjölgunin er 1.700 hjá þeim fyrirtækjum sem sjá fram á fjölgun starfsfólks en fækkun 900 hjá þeim sem sjá fram á fækkun.

Stjórnendur í ferðaþjónustu og þjónustugreinum sjá fram á mesta fjölgun starfsfólks en stjórnendur í sjávarútvegi og fjármálastarfsemi sjá fram á fækkun.

Vænta verðbólgu aðeins yfir markmiði

Verðbólguvæntingar stjórnenda til eins árs eru nú 3%, eins og verið hefur undanfarið ár, eftir að hafa verið við verðbólgumarkmið Seðlabankans á síðari hluta ársins 2019 og í ársbyrjun 2020. Verðbólguvæntingar til tveggja ára eru einnig 3% og hafa verið stöðugar undanfarin tvö ár.

Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 1,3% á næstu sex mánuðum og að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 2,6%. Á ársgrundvelli nema þessar hækkanir 2,6% og 4,9%.

Vænta styrkingar gengis krónunnar

Að jafnaði vænta stjórnendur þess að gengi krónunnar styrkist um 1,9% á næstu 12 mánuðum. Það er mikill viðsnúningur þar sem þeir hafa vænt lækkunar gengisins samfellt í öllum könnunum síðastliðin þrjú ár.

Útlit fyrir að fjárfestingar dragist saman

Fjárfestingavísitalan er nú á svipuðum slóðum og skömmu fyrir kórónukreppuna, en þá voru horfur ekki góðar. Könnunin gefur til kynna samdrátt fjárfestinga í atvinnulífinu milli áranna 2020 og 2021. 28% stjórnenda reikna með samdrætti fjárfestinga, 21% býst við aukningu, en 51% að þær verði svipaðar. Útlit er fyrir töluverða aukningu fjárfestinga í iðnaði, nokkra aukningu í ýmissi þjónustu en samdrætti fjárfestinga í öðrum greinum.

Innan við helmingur fyrirtækja með fullnýtta framleiðslugetu

70% stjórnenda telja ekki erfitt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu en 30% telja það nokkurt vandamál. Þetta er svipuð niðurstaða og á síðasta ári.

Hagnaður í heild svipaður milli ára en mismunandi eftir greinum

Stjórnendur almennt búast við heldur minni hagnaði fyrirtækjanna á þessu ári en því síðasta. 31% stjórnenda býst við minni hagnaði, 30% meiri en 40% svipuðum. Greinar þar sem búist er við auknum hagnaði eru iðnaður, byggingarstarfsemi og ferðaþjónusta en minni hagnaði er vænst í sjávarútvegi, fjármálastarfsemi, verslun og þjónustu.

Vaxandi eftirspurn innanlands sem utan

Stjórnendur búast við verulegri aukningu innlendrar eftirspurnar á næstu 6 mánuðum. Rúmlega helmingur þeirra býst við að hún aukist, 45% að hún standi í stað og 7% að hún minnki. Þetta eru mun betri horfur en fyrir þremur mánuðum, en þá bjuggust 30% við aukningu. Svipaðar horfur eru á erlendum mörkuðum þar sem 45% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn þar en 13% við samdrætti.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er könnunin ítarlegri með 20 spurningum. Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 5. febrúar til 9. mars 2021 og voru spurningar 20.

Í úrtaki voru 439 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 211, þannig að svarhlutfall var 48%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins