1 MIN
Stjórnendur 400 stærstu: Enn syrtir í álinn
Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna minnkandi umsvif í atvinnulífinu á næstunni. Mat stjórnenda á núverandi stöðu í atvinnulífinu hefur gerbreyst til hins verra og væntingar þeirra eru að þær versni enn á næstu sex mánuðum. Könnunin hefur verið gerð ársfjórðungslega frá árinu 2002.
Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna minnkandi umsvif í atvinnulífinu á næstunni. Mat stjórnenda á núverandi stöðu í atvinnulífinu hefur gerbreyst til hins verra og væntingar þeirra eru að þær versni enn á næstu sex mánuðum. Könnunin hefur verið gerð ársfjórðungslega frá árinu 2002.
Skortur á starfsfólki er nánast enginn og útlit fyrir fækkun starfa á næstu sex mánuðum.
Útlit er fyrir að fjárfestingar dragist verulega saman milli ára, einkum í ferðaþjónustu.
Stjórnendur vænta 4% verðbólgu á næstu 12 mánuðum og 3,5% verðbólgu eftir tvö ár og einnig eftir fimm ár.
Gerbreytt mat á núverandi aðstæðum
Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, hefur ekki verið lægri síðan árið 2013. 26% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu góðar, samanborið við 45% fyrir þremur mánuðum og 60% fyrir sex mánuðum síðan. 32% telja þær slæmar samanborið við 12% fyrir þremur mánuðum. Væntingar eru langminnstar í sjávarútvegi og ferðaþjónustu.
Væntingar til aðstæðna eftir 6 mánuði áfram í sögulegu lágmarki
Væntingar stjórnenda til aðstæðna í atvinnulífinu eftir sex mánuði eru áfram minni en frá upphafi þessara mælinga. 60% stjórnenda telja að aðstæður versni, samanborið við 54% fyrir þremur mánuðum og 40% fyrir sex mánuðum. Einungis 8% telja að þær batni, en þar af er enginn stjórnandi í ferðaþjónustu. Í öllum atvinnugreinum vænta margfalt fleiri stjórnendur því að aðstæður versni en að þær batni.
Nánast enginn skortur á starfsfólki
Skortur á starfsfólki minnkar hratt og er nú svipaður og árið 2012. Einungis 11% finna fyrir skorti samanborið við 32% fyrir ári síðan. Skortur á starfsfólki er einkum í byggingariðnaði.
Starfsmönnum gæti fækkað um 500 á næstu 6 mánuðum
25 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 17% fyrirtækjanna býst við fjölgun starfsmanna en 22% býst við fækkun þeirra á næstu sex mánuðum.
Áætla má út frá stærðardreifingu fyrirtækjanna að starfsmönnum þeirra fækki um 0,4% á næstu sex mánuðum en fyrir þremur mánuðum gáfu niðurstöður til kynna áform um 1,2% starfsmannafækkun. Sé þessi niðurstaða færð yfir á almennan vinnumarkað í heild gæti störfum fækka um 500 á næstu sex mánuðum. Störfum hjá fyrirtækjum sem búast við fjölgun gæti fjölgað um 1.000 en fækkun starfa hjá þeim sem búast við fækkun gæti numið um 1.500 og nettó niðurstaðan því fækkun starfa um 500.
Stjórnendur fjármála- og sjávarútvegsfyrirtækja sjá fram á mesta fækkun starfsmanna en þar á eftir koma stjórnendur í ferðaþjónustu. Í þessum atvinnugreinum virðist veruleg fækkun starfa framundan. Fækkun starfa í iðnaði virðist einnig framundan, en störfum gæti fjölgað í byggingarstarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu.
Vænta verðbólgu yfir markmiði
Væntingar stjórnenda um verðbólgu eru nú 4% að meðaltali eins og fyrir þremur mánuðum sem er töluvert umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans og þær verðbólguvæntingar sem virtust hafa festi sig í sessi undanfarin í námunda við markmiðið. Þetta er óbreytt frá fyrri könnunum á árinu, en viðsnúningur frá síðustu tveimur árum.
Stjórnendur vænta þess að verðbólgan verði 3,5% eftir tvö ár og einnig eftir fimm ár.
Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 2,4% á næstu sex mánuðum og að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 3,4%.
Vænta vaxtalækkunar Seðlabankans
Stjórnendur vænta þess að Seðlabankinn lækki vexti sína á næstunni. Veðlánavextir bankans voru 5,25% á könnunartímabilinu og búast stjórnendur við því að þeir verði 4,9% eftir eitt ár.
Vænta veikingar gengis krónunnar
Að jafnaði vænta stjórnendur þess að gengi krónunnar veikist um 3% á næstu 12 mánuðum.
Fjárfesting minnkar
Könnunin gefur til kynna að fjárfestingar í atvinnulífinu minnki mikið á þessu ári. Fjárfestingavísitalan, sem lýsir mun á fjölda þeirra sem búast við meiri og minni fjárfestingum, hefur ekki verið lægri í níu ár, eða síðan í ársbyrjun 2010. 44% stjórnenda búast við að fjárfestingar fyrirtækja þeirra dragist saman milli ára en 18% búast við aukningu. Horfur eru á minnkandi fjárfestingum í öllum þeim atvinnugreinum sem könnunin nær til og langmest í flutningum og ferðaþjónustu.
Helmingur fyrirtækja með fullnýtta framleiðslugetu
Tæplega tveir af hverjum þremur stjórnendum telur ekki erfitt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu en rúmur þriðjungur telur það nokkurt vandamál eða erfitt. sem er svipuð niðurstaða og í síðustu könnunum. Sem fyrr eru það einkum þjónustufyrirtæki og sjávarútvegsfyrirtæki sem eiga erfiðast með að mæta aukinni eftirspurn.
Minni hagnaður á þessu ári
Í heild búast stjórnendur við minni hagnaði fyrirtækjanna sem þeir stýra á þessu ári en því síðasta. 5% stjórnenda búast við miklu minni hagnaði, 34% búast við nokkuð minni hagnaði, 25% býst að hann verði nokkuð meiri, 0,5% að hann verði mun meiri og 33% að hann verði svipaður og á síðasta ári.
Óbreytt eftirspurn á innanlandsmarkaði
Stjórnendur búast við óbreyttri innlendri eftirspurn eftir vöru og þjónustu. 21% stjórnenda býst við aukningu en 20% búast við samdrætti, en aðrir búast við óbreyttri eftirspurn. Horfur um eftirspurn á erlendum mörkuðum eru betri því 37% stjórnenda býst við aukinni eftirspurn þar en aðeins 14% búast við samdrætti. Þetta eru þó lakari horfur en áður.
Launakostnaður hefur langmest áhrif á verðbólgu
Stjórnendur voru spurðir um þá þætti sem mest áhrif hafa til hækkunar á verði á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra. Hækkun launakostnaðar vegur langþyngst þar sem 76% stjórnenda setja launakostnað í fyrsta sæti sem orsök verðbólgu og 14% til viðbótar setja hann í annað sæti. Hækkun aðfangaverðs er afgerandi í öðru sæti. Aðrir þættir með lítið vægi eru eftirspurn.
Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 20 spurningum. Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 5. febrúar til 7. mars 2019 og voru spurningar 20.
Í úrtaki voru 417 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 203, þannig að svarhlutfall var 49%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.