Vinnumarkaður - 

19. desember 2018

Stjórnendur 400 stærstu áforma fækkun starfsmanna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stjórnendur 400 stærstu áforma fækkun starfsmanna

Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna mun lakara mat á aðstæðum í atvinnulífinu en þessi reglubundna könnun hefur sýnt síðan árið 2014. Einungis fjórðungur stjórnendanna telur aðstæður góðar og tveir þriðju hlutar telja að þær versni á næstu sex mánuðum.

Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna mun lakara mat á aðstæðum í atvinnulífinu en þessi reglubundna könnun hefur sýnt síðan árið 2014. Einungis fjórðungur stjórnendanna telur aðstæður góðar og tveir þriðju hlutar telja að þær versni á næstu sex mánuðum.

Skortur á starfsfólki er lítill, svipaður og á árunum 2012-2014, og áformuð er töluverð starfsmannafækkun.

Verðbólguvæntingar stjórnenda fara vaxandi. Að jafnaði er búist við 4% verðbólgu á næstu 12 mánuðum í stað 3% í fyrri könnunum á þessu ári.

Lakara mat á núverandi aðstæðum
Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, lækkar mikið milli kannana og er nú svipuð og snemmsumars árið 2014. 31% stjórnenda telur aðstæður í atvinnulífinu góðar, samanborið við 70% fyrir ári síðan, og 23% telja þær slæmar. Mat stjórnenda á aðstæðum er lakast í sjávarútvegi, flutningum og ferðaþjónustu.

Væntingar til aðstæðna eftir 6 mánuði aldrei minni
Væntingar stjórnenda til aðstæðna í atvinnulífinu eftir sex mánuði eru minni en frá upphafi þessara mælinga árið 2002. 68% stjórnenda telja að aðstæður versni, samanborið við 24% fyrir ári síðan, og aðeins 5% að þær batni. Í öllum atvinnugreinum vænta margfalt fleiri stjórnendur þess að aðstæður versni en að þær batni. Bjartsýni síðustu ára virðist heyra sögunni til.

Lítill og minnkandi skortur á starfsfólki
Skortur á starfsfólki minnkar stöðugt og er nú svipaður og árið 2014. Einungis 15% telja fyrirtækin búa við skort á starfsfólki samanborið við 30% fyrir ári síðan. Skortur á starfsfólki er helmingi minni í útflutningsfyrirtækjum og ferðaþjónustu en öðrum greinum.

Starfsmönnum gæti fækkað um 1.400 næstu sex mánuði
24 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Í fyrsta sinn síðan vorið 2009 koma fram áform um fækkun starfsfólks í könnuninni. 10% fyrirtækjanna býst við fjölgun starfsmanna en 30% býst við fækkun þeirra á næstu sex mánuðum.

Áætla má út frá stærðardreifingu fyrirtækjanna að starfsmönnum þeirra fækki um 1,2% á næstu sex mánuðum. Sé sú niðurstaða færð yfir á almenna vinnumarkaðinn í heild má ætla að störfum fækki um 1.400. Störfum hjá fyrirtækjum sem áforma fjölgun gæti fjölgað um 600 en fækkun starfa hjá þeim sem áforma fækkun gæti numið um 2.000 og nettó niðurstaðan því fækkun um 1.400 störf.

Þessi niðurstaða rímar sæmilega við könnun meðal aðildarfyrirtækja SA í byrjun nóvember sl. Í henni kom fram að aðildarfyrirtækin áformuðu uppsagnir 2.800 starfsmanna á næstu þremur mánuðum. Í þeirri könnun var ekki spurt um áformaðar ráðningar starfsmanna og því ekki unnt að draga ályktun um nettófækkun starfsmanna þeirra á þessu tímabili. Jafnframt var spurt um uppsagnir í nóvember, desember og janúar, en búast má við sterkum árstíðaráhrifum þar sem atvinnustig er jafnan lægra í janúar en aðra mánuði ársins.

Fyrirtæki í iðnaði og sjávarútvegi áforma meiri fækkun starfsmanna en fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum. Í iðnaði áformar helmingur fyrirtækja fækkun starfsmanna en 3% þeirra áforma fjölgun og í sjávarútvegi áforma rúm 40% fyrirtækja fækkun starfsmanna en ekkert þeirra áformar fjölgun. Fækkunaráform eru mest hjá fyrirtækjum með 100-200 starfsmenn. Í þeim stærðarflokki áforma 35% fyrirtækja fækkun starfsfólks en 10% þeirra áforma fjölgun.

Vaxandi verðbólguvæntingar
Væntingar stjórnenda um verðbólgu eru nú 4,0% að meðaltali og hækka um 1% frá síðustu könnun. Verðbólguvæntingarnar hafa ekki verið hærri í hálft fjórða ár, eða síðan í könnuninni í maí 2015 sem var gerð í aðdraganda þeirra kjarasamninga sem nú eru að renna sitt skeið.

Stjórnendur vænta þess að verðbólgan verði 3,5% eftir tvö ár, eins og í fyrri könnunum á árinu, sem er hátt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Vaxandi vannýtt framleiðslugeta
60% fyrirtækjanna telur ekki erfitt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu sem er töluverð aukning frá síðustu könnun þegar hlutfallið var 50%. Auðveldast er fyrir fyrirtæki í flutningum og ferðaþjónustu að bæta við sig verkefnum.

Minnkandi eftirspurn á innanlandsmarkaði
Í fyrsta sinn síðan árið 2012 búast fleiri stjórnendur við minnkandi innlendri eftirspurn á næstu sex mánuðum en þeir sem búast við vaxandi eftirspurn. 21% vænta minni eftirspurnar, 15% vænta aukningar en en 64% búast við óbreyttri eftirspurn. Fyrir ári síðan bjuggust 40% stjórnenda við aukningu eftirspurnar en 10% við minnkandi eftirspurn. Horfur um eftirspurn á erlendum mörkuðum eru betri því 40% stjórnenda býst við aukinni eftirspurn þar en aðeins 14% búast við samdrætti.

Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 20 spurningum. Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 20. nóvember til 7. desember 2018 og voru spurningar 9.

Í úrtaki voru 428 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 206, þannig að svarhlutfall var 48%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins