Efnahagsmál - 

30. október 2020

Stikkfrí

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stikkfrí

Staða sveitarfélaga er þröng. Í umsögn Reykjavíkurborgar í tengslum við fjármálaáætlun stjórnvalda kemur fram að nauðsynlegur stuðningur ríkisins á árinu 2020-2021 við sveitarstjórnarstigið þurfi að vera 50 milljarðar króna hið minnsta. Það er til viðbótar við stuðning sem sveitarfélögum hefur þegar verið veittur. Fleiri hafa stigið fram og kallað eftir frekari ríkisstuðningi til sveitarfélaga og telja jafnvel að ganga þurfi enn lengra.

Staða sveitarfélaga er þröng. Í umsögn Reykjavíkurborgar í tengslum við fjármálaáætlun stjórnvalda kemur fram að nauðsynlegur stuðningur ríkisins á árinu 2020-2021 við sveitarstjórnarstigið þurfi að vera 50 milljarðar króna hið minnsta. Það er til viðbótar við stuðning sem sveitarfélögum hefur þegar verið veittur. Fleiri hafa stigið fram og kallað eftir frekari ríkisstuðningi til sveitarfélaga og telja jafnvel að ganga þurfi enn lengra.

Engum dylst að vandinn er mikill. Hafa ber þó í huga að slíkur stuðningur er fljótur að vinda upp á sig ef undirliggjandi rekstur er ekki sjálfbær. Eftir átta ára samfelldan hagvöxt er það áhyggjuefni að stærsta sveitarfélagi landsins hafi ekki tekist að byggja upp sterkari stöðu til að mæta áfalli en raun ber vitni. Einkum þegar horft er til þess að allt tímabilið voru stærstu skattstofnar borgarinnar, útsvar og fasteignaskattar, í eða við lögbundið hámark og tekjur jukust um 50% að raunvirði.

Fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga er mikið á Íslandi, mun meira en á hinum Norðurlöndunum. Sveitarfélög á Íslandi eru með eigin tekjustofna. Vitaskuld gildir slíkt sjálfstæði yfir alla hagsveifluna, líka þegar kreppir að og tekjustofnar dragast saman. Staðan er erfið, en hún einskorðast ekki við sveitarfélögin. Áhrif faraldursins verða einnig þungbær ríkissjóði sem ber kostnað af atvinnuleysisbótum og öðrum sértækum aðgerðum til stuðnings heimilum og fyrirtækjum. Aðgerðir sem með beinum eða óbeinum hætti styðja svo líka við sveitarfélögin.

Það sem af er ári eru útgjöld ríkissjóðs til atvinnuleysisbóta, tekjutengdra atvinnuleysisbóta og hlutabótaleiðarinnar rúmlega 50 milljarðar króna. Af því renna um 7 milljarðar til sveitarfélaga í formi útsvars. Áætlanir um viðvarandi hallarekstur og skuldasöfnun ríkissjóðs eru ekki síður áhyggjuefni. Áskoranir næstu ára snúa að því tryggja sjálfbæran opinberan rekstur án þess að ráðast í blóðugan niðurskurð eða skattahækkanir. Sveitarfélögin mega ekki líta á sig sem stikkfrí í þeim efnum.

Ásdís Kristjánsdóttir er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.

Samtök atvinnulífsins