1 MIN
Steinull á Sauðárkróki og Orka náttúrunnar handhafar umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2015
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti í morgun umhverfisverðlaun atvinnulífsins á umhverfidegi atvinnulífsins sem nú stendur yfir á Hilton Reykjavík Nordica. Steinull hf. á Sauðárkróki er umhverfisfyrirtæki ársins 2015 og uppbygging Orku náttúrunnar á hraðhleðslustöðvum fyrir rafbíla er framtak ársins 2015 á sviði umhverfismála.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti í morgun umhverfisverðlaun atvinnulífsins á umhverfidegi atvinnulífsins sem nú stendur yfir á Hilton Reykjavík Nordica. Steinull hf. á Sauðárkróki er umhverfisfyrirtæki ársins 2015 og uppbygging Orku náttúrunnar á hraðhleðslustöðvum fyrir rafbíla er framtak ársins 2015 á sviði umhverfismála.
Í rökstuðningi dómnefndar um Steinull – umhverfisfyrirtæki ársins segir m.a.:
„Umhverfisfyrirtæki ársins er rótgróið og stundar framleiðslu á vörum sem eru í alþjóðlegri samkeppni. Fyrirtækið nýtir að mestu innlent hráefni til framleiðslunnar sem engin hætta er á að gangi til þurrðar. Öndvert við flesta keppinauta sína erlendis nýtir fyrirtækið einungis innlenda endurnýjanlega raforku til framleiðslunnar og útstreymi gróðurhúsalofttegunda er minna en hjá keppinautunum. Kolefnisspor framleiðsluvörunnar er því lægra en hjá samkeppnisaðilunum. Undanfarin ár hefur verið lagt kapp á að draga úr úrgangi og stór hluti hans er nú endurnýttur í framleiðsluferlinu. Einnig hefur verið unnið að áhættugreiningum, forvörnum og úrbótum í vinnuumhverfinu.
Framleiðsluvörur fyrirtækisins hafa hlotið vottanir erlendra úttektaraðila fyrir gæði og að uppfylla staðla sem um þær gilda. Fyrirtækið hefur hlotið vottun fyrir gæðakerfi samkvæmt ISO 9001 staðlinum. Það hefur einnig fengið vottun samkvæmt umhverfisstaðlinum ISO 14001 og stefnt er að því að ljúka vottun samkvæmt vinnuverndarstaðlinum OSHAS 18001 á næsta ári.
Fyrirtækið hóf starfsemi sína fyrir réttum 30 árum og hefur í mörg ár hlotið viðurkenningu Creditinfo sem fyrirmyndarfyrirtæki.“
Í rökstuðningi dómnefndar um Orku náttúrunnar og framtak ársins segir m.a.:
„Fyrirtækið sem hlýtur þessa viðurkenningu hefur byggt upp aðstöðu sem gagnast víða og nýtist mörgum. Það hefur tekið þeirri áskorun sem felst í því að ein besta leiðin til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda er að rafvæða samgöngurnar. Eitt af því sem stendur í vegi rafvæðingunni er skortur á innviðum. Fyrirtækið bendir á að þrátt fyrir að eldsneytisnotkun bifreiða hafi dregist saman þá hafi hlutfall eldsneytisnotkunar bifreiða af heildareldsneytisnotkun ekki minnkað. Nýleg þróun rafbíla hafi gert þá að raunhæfum kosti fyrir almenning. Aðgerðir stjórnvalda styðji einnig við þá þróun. Talið er að það sem fólk setji helst fyrir sig sé vegalengdin sem unnt er að komast á einni hleðslu.
Nú eru um 500 rafbílar á landinu en rafbílar nýta orkuna betur en hefðbundnir bílar. Drifbúnaðurinn er frekar einfaldur, varmatap vegna bruna er ekkert og hemlunarorkan gjarnan nýtt til að endurhlaða rafhlöðurnar.
Fyrirtækið sem hlýtur viðurkenningu fyrir umhverfisframtak ársins hefur að undanförnu byggt upp net hraðhleðslustöðva á Suðvesturlandi frá Borgarnesi til Selfoss og hefur uppi áform um frekari uppbyggingu slíkra stöðva.“
Dómnefndina skipuðu Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri umhverfismála hjá verkfræðistofunni Eflu, formaður, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Að umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Pál Erland, framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands og Einar Einarsson, framkvæmdastjóra Steinullar við afhendingu verðlaunanna í morgun.