1 MIN
Samtaka um SOS
Í opinberri umræðu virðist oft langur vegur milli þess að atvinnulífinu gangi vel og að samfélaginu gangi vel. Kannanir sýna þó að slíkar úrtöluraddir koma úr röðum háværs minnihlutahóps. Skilningur almennings er sem betur fer í samræmi við hagtölur sem sýna glöggt orsakasamhengi verðmætasköpunar íslenskra fyrirtækja og velferðarsamfélagsins sem við stærum okkur af á alþjóðavettvangi. Það er því ekki að ósekju að framtíðarsýn Samtaka atvinnulífsins um samfélag hagsældar og tækifæra byggi á hagsmunum atvinnulífsins. Um þetta snúast einnig kosningarnar sem við göngum til á laugardaginn.
Ísland er í öfundsverðri stöðu þegar kemur að langtímahorfum en við búum yfir öllu sem þarf fyrir næsta vaxtarskeið. Við erum hlutfallslega yngri þjóð en allflest samanburðarlönd, hér eru nægar auðlindir, bæði grænar orkuauðlindir og náttúruauðlindir, vel fjármagnað lífeyriskerfi og jöfnuður, meira jafnrétti kynjanna, minni ójöfnuður á vinnumarkaði og meiri eignajöfnuður en flestar þjóðir búa við.
Áhersla okkar á samstöðu og samstarf er lykilatriði fyrir framtíð Íslands. Með áherslu á stöðugleika byggjum við undir hagsæld og gróskumikinn efnahag komandi kynslóða. Við viljum tryggja tækifæri og skiptingu verðmæta sem byggir á vel ígrunduðum efnahagslegum forsendum.
Ákall atvinnulífsins um aðgerðir á komandi kjörtímabili hverfist um ofangreindar áherslur og birtist okkur í ígildi morskóða. Atvinnulífið þarf stöðugleika, orku og samkeppnishæfni – SOS – til að hefja næsta vaxtarskeið Íslands.
Stöðugleiki
Stöðugleiki merkir jafnvægi í ríkisfjármálum, á vinnumarkaði og á húsnæðismarkaði. Án stöðugleika í ríkisrekstri getur efnahagslífið ekki náð jafnvægi. Útgjaldavöxtur sem framleiðsla í hagkerfinu getur ekki borið til lengdar er hvorki réttlætanlegur né sjálfbær. Að sama skapi er hófleg launaþróun mikilvæg þegar kemur að atvinnusköpun, verðstöðugleika og þar með bættum lífskjörum. Segja má að sjálfbær launaþróun sé almannagæði. Sú launastefna sem er mörkuð á almennum vinnumarkaði þarf að halda, enda er það verðmætasköpun á almenna markaðinum sem stendur undir hinum opinbera rekstri. Þak yfir höfuðið er ein af grundvallarþörfum fólks og húsnæðiskostnaður er helsti útgjaldaliður íslenskra heimila. Miklar sveiflur á húsnæðismarkaði endurspegla og magna upp ójafnvægi í efnahagslífinu. Stöðugleiki þýðir framtíðaráætlanir sem halda, fyrir okkur öll.
Markmið í loftslagsmálum þurfa að taka mið af stöðu orkumála og tækniþróun.
Orka
Orka er undirstaða hagsældar. Við framleiðum engin verðmæti án orku, enda er sterk fylgni á milli orkunotkunar þjóðar og landsframleiðslu. Þau lönd sem búa við næga og hagkvæma orku standa fremst meðal þjóða þegar kemur að lífskjörum. Ísland er þar engin undantekning. Heimurinn stefnir í átt að kolefnishlutleysi og stærsti áhrifavaldur losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu er orkunotkun.
Markmið í loftslagsmálum þurfa að taka mið af stöðu orkumála og tækniþróun. Ótímabær loftslagsskattlagning getur haft neikvæð þjóðhagsleg áhrif. Græn skattlagning þegar hvorki tækni né orka eru til staðar hefur öfug tilætluð áhrif, hún dregur úr getu til fjárfestinga í umbreytingu og hún hvetur til ótímabærra eða slæmra fjárfestinga. Atvinnulífið vill ná árangri í loftslagsmálum og bæta lífskjör. Ísland er eitt grænasta verðmætasköpunarland heimsins, næg græn hagkvæm orka er lykillinn að næsta vaxtarskeiði Íslands.
Samkeppnishæfni
Samkeppnishæfni atvinnulífsins byggir á samkeppnishæfu skattkerfi og regluverki. Skattar skapa ekki verðmæti. Atvinnulífið er fylgjandi skynsamlegri og skilvirkri skattlagningu. Of háir skattar og íþyngjandi regluverk skerða alþjóðlega samkeppnishæfni útflutningsþjóðar, draga úr fjárfestingu, hægja á fjölgun starfa og verðmætasköpun. Til lengri tíma leiðir mikil skattbyrði til hægari hagvaxtar og minni skatttekna. Það eru tækifæri til að stórbæta samkeppnishæfni íslensks skattkerfis.
Evrópska efnahagssvæðið (EES) er atvinnulífinu mikilvægt, samræmdar reglur á EES svæðinu jafna samkeppnisstöðu og gæði löggjafar milli landa. Blýhúðun EES regluverks vinnur þannig gegn markmiðum EES samningsins. Skýrslur sýna að innleiðing EES regluverks er blýhúðað í þriðjungi tilfella og í sumum málaflokkum jafnvel yfir 40% tilfella. Óþarflega íþyngjandi regluverk er efnahagslegt sjálfsmark.
Við þökkum einnig fráfarandi stjórnvöldum fyrir gjöfula samvinnu undanfarin tvö kjörtímabil. Atvinnulífið hefur sannarlega náð eftirtektarverðum árangri á þeim tíma.
Takk fyrir okkur
Við þökkum þeim fjölda fólks sem boðið hefur fram krafta sína til Alþingis. Við höfum undanfarnar vikur átt fjörleg og gagnleg skoðanaskipti og við þökkum einna helst fyrir hvað baráttan hefur verið málefnaleg.
Við þökkum einnig fráfarandi stjórnvöldum fyrir gjöfula samvinnu undanfarin tvö kjörtímabil. Atvinnulífið hefur sannarlega náð eftirtektarverðum árangri á þeim tíma. Hagsæld og tækifæri hafa aukist svo um munar þrátt fyrir krefjandi aðstæður bæði á heimsvísu og heimavelli.
Samtök atvinnulífsins hafa notið þeirrar gæfu að eiga uppbyggilegt samstarf við stjórnvöld hverju sinni síðustu 90 ár í sögu samtakanna, allt frá lífskjarabyltingunni sem varð í upphafi 20. aldar. Svo verður áfram.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 27. nóvember.