Efnahagsmál - 

23. júní 2020

SA styðja hlutdeildarlán en sníða þarf vankanta af frumvarpinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA styðja hlutdeildarlán en sníða þarf vankanta af frumvarpinu

Samtök atvinnulífsins styðja frumvarp félags- og barnamálaráðherra um hlutdeildarlán sem ætlað er að bæta stöðu ungs fólk og tekjulágra við fasteignakaup. Frumvarpið er lagt fram í takti við yfirlýsingar stjórnvalda í tengslum við gerð Lífskjarasamningsins. SA telja úrræðið hafa jákvæð áhrif á byggingamarkað og virki sveiflujafnandi ef hægir á nýbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þó sé óljóst hvort markmið hlutdeildarlána náist og vinna sum skilyrði frumvarpsins gegn því. Sníða þurfi vankanta af frumvarpinu fyrir lögfestingu þess.

Samtök atvinnulífsins styðja frumvarp félags- og barnamálaráðherra um hlutdeildarlán sem ætlað er að bæta stöðu ungs fólk og tekjulágra við fasteignakaup. Frumvarpið er lagt fram í takti við yfirlýsingar stjórnvalda í tengslum við gerð Lífskjarasamningsins. SA telja úrræðið hafa jákvæð áhrif á byggingamarkað og virki sveiflujafnandi ef hægir á nýbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þó sé óljóst hvort markmið hlutdeildarlána náist og vinna sum skilyrði frumvarpsins gegn því. Sníða þurfi vankanta af frumvarpinu fyrir lögfestingu þess.

Reynsla annarra ríkja af sambærilegum lánum bendir til þess að fasteignaverð nýrra íbúða á ákveðnum svæðum hækki og gagnist hópum sem þegar hafa ráð á að kaupa íbúð, án sérstaks stuðnings. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að stuðningur af þessu tagi þrýsti upp húsnæðisverði og gagnist fyrst og fremst þeim sem þurfa ekki á honum að halda.

Umsækjandi þarf að uppfylla ákveðin skilyrði sem fram koma í frumvarpinu, auk skilyrða  sem ráðherra skal setja í reglugerð, til þess að geta fengið hlutdeildarlán.  Eitt þeirra er að lánin afmarkist við nýbyggðar íbúðir sem nú þegar seljast á hærra verði en eldri íbúðir. Með því telja SA að hætta skapist á því að sérstakur markaður verði til fyrir hlutdeildarlánsíbúðir sem seldar verði á hærra verði en aðrar íbúðir fyrstu kaupanda, líkt og raunin varð þegar sambærilegu úrræði var komið á fót í Skotlandi.

Mikilvægt er að koma í veg fyrir að stuðningur af þessu tagi þrýsti upp húsnæðisverði og gagnist fyrst og fremst þeim sem þurfa lítið eða ekkert á honum að halda.

Í frumvarpinu er sett það skilyrði að lán, sem kemur á undan hlutdeildarláni í veðröð, skuli að jafnaði ekki vera til lengri tíma en 25 ára. SA leggjast gegn því á þeirri forsendu að ungt fólk og tekjulágir eru einmitt þeir hópar sem líklegastir eru til að taka lengri lán vegna léttari greiðslubyrði. Afnema ætti hámarkslánstíma svo úrræðið gagnist þeim sem á þurfa að halda.

Annað skilyrði frumvarpsins er að umsækjandi um hlutdeildarlán skuli verja skattfrjálsri ráðstöfun séreignasparnaðar til lækkunar höfuðstóls fasteignaláns á fyrsta veðrétti. Þótt SA telji skynsamlegt að ráðstafa séreignasparnaði skattfrjálst inn á höfuðstól fasteignaláns, er þó verið að útiloka þann möguleika að nýta séreignasparnað til greiðslu inn á afborgun óverðtryggðs láns sem gæti lækkað afborgun lánsins niður fyrir 40 prósent af ráðstöfunartekjum.

Þá telja SA heimildir ráðherra, til að setja reglugerðir sem kveða nánar á um skilyrði fyrir hlutdeildarlánum, vera of rúmar og matskenndar. SA telja að betur færi á því að þau yrðu leidd til lykta í lögunum sjálfum og að reglugerðarheimildin yrði þrengd.

 

Samtök atvinnulífsins